Réttur 82 þúsund kjósenda.

Rúmlega 82 þúsund Íslendingar, sem neyttu helgasta réttar lýðræðisins í haust í kosningum með úrslitum, sem ekki hafa verið bornar brigður á, eru í raun helstu þolendur í þeirri stöðu, sem upp er komin eftir úrskurð Hæstaréttar.

Í lögunum um stjórnlagaþingið segir að þar sem ekki sé sérstaklega tiltekið um kosningatilhögun gildi lög um alþingiskosningar "eftir því sem við á."

Hæstiréttur sleppir þessum fimm orðum í úrskurði sínum og skoðar þar af leiðandi ekki þann mismun sem er á þessum tvennum kosningum og framkvæmd þeirra, annars vegar listakjör og hins vegar persónukjör. 

Í alþingiskosningum er hægt að sjá á nokkurra metra færi hvar kjósandi hefur sett kross við einn af 5-6 listum en til þess að sjá hrúgu af að meðaltali 60 tölustöfum á kjörseðli í stjórnlagaþingkosningunum, þarf að standa yfir kjósandanum og skrifa niður eða ljósmynda seðilinn eða hafa límheila við að leggja hann á minnið.

Kosningaaðferðin, sem notuð var í stjórnlagaþingkosningunum er meira en aldar gömul og í mörgum nágrannalöndum okkar eru notaðir samskonar kjörklefar eða afdrep og sams konar kjörkassar og kjörseðlar og voru notaðir í kosningunum hér. 

Hvergi hefur verið gerð athugasemd við þetta erlendis og þaðan af síður kosningar ógiltar. 

Hæstiréttur telur "verulegan annmarka" að seðlar höfðu númer og segir "alkunnugt er" um það að menn standi í kjördeildum og skrifi niður þótt engir kannist við að slíkt hafi verið gert í þessum kosningum. 

Rétturinn rannsakaði þetta greinilega ekki og fjallar ekkert um það hvað síðan hefði þurft að gera til þess að "rekja seðlana."  En til þess að það hefði verið hægt hefði maður á vegum frambjóðanda ekki aðeins þurft að skrifa númer seðla niður á kjörstað, heldur hefði frambjóðandi líka þurft að hafa mann á sínum snærum við talninguna til þess að finna viðkomandi kjörseðla þar.

En Hæstiréttur telur það einmitt vera "verulegan ágalla" að engir fulltrúar frambjóðenda hefðu verið við talninguna (!) -  telur það sem sé vera "verulegan ágalla" að frambjóðendur skyldu ekki geta haft fulltrúa til að "rekja atkvæðin"!

Leiðarahöfundur einn taldi á dögunum þá vera "tapsára" sem vildu neyta lagalegs réttar síns í þessu máli og fer háðulegum orðum um þá.

Sami leiðarahöfundur notar hins vegar engin slík orð um þá sem ekki náðu kjöri en kærðu framkvæmd kosninganna og höfðu til þess fullan rétt.  

Fróðlegt er fyrir þá rúmlega 82 þúsund Íslendinga, sem voru sviptir helgasta rétti lýðræðisins að heyra um það hvað þeir séu "tapsárir." 

Úrskurðir Hæstaréttar geta haft fordæmisgildi. Í úrskurðinum er mikið talað um leynd, sem er frumskilyrði. Leyndin virkar í báðar áttir, - annars vegar þá að kjósandinn geti treyst því að leynd sé yfir því hvernig hann kaus, en leyndin er líka nauðsynleg varðandi það að kjósandi geti ekki sannað hvernig hann kaus og þar með ekki sannað það fyrir stjórnmálamanni eða stjórnmálaafli, sem vill styðja hann og fá atkvæði í staðinn, að atkvæðið hafi verið greitt á umsaminn veg. 

Kjósandi eða hópur kjósenda getur í núgildandi kerfi rofið þessa leynd með því að auðkenna atkvæði sitt á löglegan hátt, til dæmis með því að endurraða nokkrum nöfnum neðarlega á framboðslista á þann hátt að það auðkenni seðil hans í raun. 

Fulltrúi framboðslista á talningarstað gæti siðan væntanlega "rakið" atkvæðið eða atkvæðin.

Auðvitað er þetta fjarlægur möguleiki en þó margfalt auðveldari en allt það flókna samsæri sem hefði þurft til að "rekja atkvæði" í stjórnlagaþingkosningunum. 

 Fordæmi gæti hins vegar verið komið fyrir því að kæra næstu alþingiskosningar og fá þær úrskurðaðar ógildar ef tekið er mið af úrskurði Hæstaréttar nú. 

Í almennri lögfræði er kennt að við úrskurði og dóma verði að líta á nokkur önnur atriði en beinan lagatexta, svo sem "eðli máls", "lögjöfnun","vilja löggjafans" og "greinargerðir og umræður."

Það, að Hæstiréttur sleppir orðunum "...eftir því sem það á við" sýnir hve þröngt sjónarhornið er í þessum úrskurði.

Talað er um "aðför að Hæstarétti" þegar dirfst er að rýna í og rökræða úrskurðinn. Samkvæmt þeirri hugsun er það "aðför að Hæstarétti" þegar Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur. 

Og síðan situr eftir spurningin: Fyrst enginn fulltrúi frambjóðenda var á talningarstað, hvers vegna var þá ekki hægt að taka seðlana til endurtalningar, má af þeim upphaflegu númerin og setja inn önnur og telja að nýju? 

Er nokkuð sem mælir gegn því að sannreyna úrslit kosninganna? 


mbl.is Vilja að Hæstiréttur endurskoði ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig má þetta verða?

Enn eitt árið fækkar íbúum á Austurlandi þótt á fjórða ár séu síðan álverið í Reyðarfirði tók til starfa og þrjú ár síðan virkjanaframkvæmdum þar var að mestu lokið. Hvernig má þetta verða?

Áður en farið var í framkvæmdirnar eystra var fullyrt að fólki myndi fjölga þar um 1500 manns til frambúðar.

Ekki var gert ráð fyrir að einn einasti maður myndi nota tækifærið þau misseri sem húsnæðisverð rauk upp og flytja burtu. 

 Á eftirminnilegum fundi Íslandshreyfingarinnar á Húsavík fyrir kosningarnar 2007 gekk hópur manna að okkur með kreppta hnefa á lofti og hrópaði: "Þið ætlið að koma í veg fyrir að við getum flutt í burtu!" 

Þegar samdráttur varð á Akureyri vegna hruns markaðsins í Sovétríkjunum kom upp krafa þar um að reisa álver "til þess að bjarga Eyjafirði."

Það var ekki gert og núna fjölgar fólki ár eftir ár á Norðurlandi eystra þar sem ekkert álver hefur risið. 

Hvernig má þetta verða? 

Þessu hefur í raun verið svarað í ótal rannsóknum og á ótal ráðstefnum um vandamál jaðarbyggða þar sem niðurstaðan hefur í  grófum dráttum verið sú, að þau byggðarlög dafni þar sem er fjölbreytt atvinnustarfsemi og menning en hinum hraki þar sem er einhæft atvinnulíf, oft byggt á verksmiðjum, sem framleiða eingöngu hráefni. 

 


mbl.is Landsmönnum fjölgaði 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband