Kostar klof að ríða röftum.

Nær daglega má sjá í fréttum hve athafnasamir menn voru í aðdraganda bankahrunsins "að bjarga verðmætunum" með því að láta peninga streyma sem örast út úr bönkum og fjármálafyrirtækjum til útvalinna gæðinga.

Hvað varð svo um peningana? Í mynd Helga Felixsonar um Hrunið var svarið: "Þeir hurfu bara." 

Samt má sjá að umsvif þeirra sem tengjast þeim hafi síst minnkað. 

Í sjónvarpsviðtali í kvöld var fyrrverandi fjármálaráðherra Breta tíðrætt um þetta fjárútstreymi síðustu viku og daga fyrir hrun og reyndi hann í viðtalinu að útskýra hegðun breskra og íslenskra stjórnvalda þessa örlagaríku daga.

Fjárútstreymið til hinna útvöldu var nauðsynlegt til að viðhalda lífsstíl þeirra og lúxusi, sem enn er í fullum blóma í snekkjum, glæsivillum, veisluhöldum og umsvifum. 

Slæm truflun varð á þessu varðandi veisluna góðu í snekkjunni í lúxusstaðnum Cannes í Frakklandi en um það má segja hið fornkveðna, að "það kostar klof að ríða röftum." 


mbl.is Mættu ekki í veisluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið hljóðláta starf.

Margoft hefur það komið í ljós að þegar við reynum að meta varðveislugildi menningarverðmæta og hluta skjátlast okkur í vali okkar.

Einkum vill það  brenna við að hið hversdagslega, algenga og það, sem snertir tilveru barna, unglinga og alþýðu, vill gleymast og fara forgörðum.

Við geymum vandlega höfðinglega torfbæi en höfðum rústað litlu torfbæjunum sem meginþorri þjóðarinnar bjó í um aldir. 

Ágætir brautryðjendur í kvikmyndagerð voru iðnir við að taka myndir af gömlum búskaparháttum þegar þeir voru að leggjast af fyrir 60-70 árum og sömuleiðis er til mikið af myndum af skrúðgöngum, glímusýningum, ræðuhöldum og öðru slíku, sem var haft í frammi á hátíðum, en að sama skapi lítið af venjulegu lífi fólks á mesta breytingatímanum á árunum 1940-1965. 

Una Margrét Jónsdóttir hefur unnið næsta hljóðlátt starf við að bjarga menningarverðmætum sem annars hefðu glatast að miklu leyti og snerta börn og ungviði.

Þess vegna samgleðst ég henni þegar hún fær verðskuldaða viðurkenningu Hagþenkis fyrir framúrskarandi verk sín á þessu sviði. 

Á tíma tölvuleikjanna verður að hafa í huga, að þeir eru algerlega háðir því að tölvur, rafmagn og tölvugögn séu notuð. 

Hinir gömlu söngvaleikir og aðrir leikir og menning barna voru hins vegar ekki háðir neinu slíku og því hægt að iðka þá nánast hvar sem var. 

Hvað sem tækninni líður er gott að vera minnugur þess, að hún getur brugðist og þá er ekki gott að hafa drepið í dróma ímyndunarafl og sköpunargáfu, sem þarf ekki á flókinni og dýrri tækni að halda.


mbl.is Una Margrét verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ýmsu að huga varðandi hugsanlegt einelti.

Allir þekkja fyrirbrigðið einelti sem hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Maður man eftir því hvernig sumir krakkarnir urðu fyrir einelti í skóla og einnig því að eineltið gat verið í báðar áttir, þ.e., dæmi um það einstaka kennarar lögðu vissa nemendur í einelti eða að nemendur lögðu kennara í einelti.

Viðurnefni gátu stundum verið meinfýsin og þau voru mun algengari hér í gamla daga en nú er. 

Af þeim ástæðum hættu foreldrar mínir við það að láta mig heita Ólaf, eins og til stóð, í höfuðið á ömmu mínni sem hét Ólöf. 

Enginn átti von á því að snáðinn yrði með eldrautt og mikið hár, því að rautt hár var ekki að finna nema hjá einni hálfsystur annars afa míns og syni hennar, Bjarna Jónssyni listmálara.

Foreldrar mínir þorðu ekki að taka áhættuna af því að ég fengi viðurnefnið "rauði", það er "Óli rauði" og því gáfu þau mér nafnið Ómar, sem var raunar afarsjaldgæft á þeim tíma, en fyrir bragðið nógu sérstakt til þess að ekki þyrfti að aðgreina mig frá fjölmörgum öðrum strákum sem hétu sama nafni og ég því að klína viðurnefninu "rauði" við mig.  

Óttinn við einelti er einn af drifkröftum hjarðhugsunar sem er afar varasamt fyrirbæri og hefur leitt til margvíslegra vandræða, sem sum hver hafa verið hrikalegir bölvaldar í sögu þjóða og mannkynsins. 


mbl.is Obama varð fyrir einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar minningar um geimferðir.

Áður en Bjarni Tryggvason fór með geimferju út í geiminn frá Kanaveralhöfða fékk forseti Íslands að skoða aðra ferju að innan sem utan. Ég tók myndir af athöfn á undan og síðan af geimskotinu sjálfu á besta stað, af svölum forstjóra NASA í fylgd með forsetanum. 

Í þessu ferðalagi kom vel í ljós sú sérstaða sem þjóðhöfðingjar landa njóta og hvernig þeir geta nýtt hana í smáu og stóru fyrir þjóðir sínar.

Þjóðverjar og Japanir stóðu að geimskotinu ásamt Bandaríkjamönnum, en á hátíðarsamkomunni á undan geimskotinu fékk forsetinn alla athyglina og sérstaka fyrirgreiðslu. 

Alveg var bannað að fjölmiðlar ræddu við aðstandendur geimfaranna, en Ólafur Ragnar gerði mig þá bara að sérstökum "hirðljósmyndara" og kvikmyndatökumanni embættis síns, svo að ég fékk að taka upp einkaviðtal hans við forstjóra NASA og fylgja honum til viðtals við börn Bjarna Tryggvasonar. 

Forsetinn gerði sér lítið fyrir og gerðist starfsmaður Sjónvarpsins með því að taka sjálfur sjónvarpsviðtal við börnin sem síðan var auðvitað sýnt hér heima. 

Það var ævintýri að fá að fara inn í geimferjuna og setja sig í spor geimfaranna með forsetahjónunum. 

Þjóðhöfðingjar okkar hafa gert mikið gagn undanfarna áratugi á erlendri grund. 

Allir muna glæsileik og töfra Vigdísar Finnbogadóttur, fyrstu konunnar sem kjörin var þjóðhöfðingi í heiminum, og Ólafur Ragnar hefur á sinn hátt hrifið marga á erlendri grund með sínum glæsileik og færni.

Engar kvikmyndir geta lýst því að vera í návígi við geimferju, sem er skotið á loft. Sterkasta upplifunin er hávaðinn og titringurinn þegar jafnvel hin rammbyggðustu hús nötra við að kraftur eldflauganna leysist úr læðingi. 


mbl.is Discovery sest í helgan stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband