11.3.2011 | 14:05
Undarlegt orsakasamhengi.
Samhengið í efnahagsmálum heimsins er oft furðulegt. Þegar kaffiverð hækkaði gríðarlega í Brasilíu fyrir þrjátíu árum olli það hærri launum á Íslandi vegna vísitöluhækkunar.
Þegar olíuverð hækkar hér á landi eykur það tekjur ríkissjóðs.
Og nú er það nöturlegt og raunar agalegt "fagnaðarefni" ef eldsneytisverðið lækkar vegna hræðilegs manntjóns og eyðileggingar í Japan.
Þetta er svo ferlegt samhengi að maður hikar við að nefna það.
![]() |
Olíuverð lækkar vegna skjálftans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2011 | 13:58
Ágætt grín en hæpin fullyrðing.
Þegar Muhammad Ali hafði unnið hinn ósigrandi George Foreman í "Rumble in the Jungle" var hann 32ja ára og sagði kokhraustur: Þið sögðuð fyrir bardagann að ég væri búinn að vera og passið þið ykkur að segja það ekki aftur og í fyrsta lagi þegar ég verð fimmtugur.
Ali gaf í skyn að hann myndi endast í 18 ár eftir þetta en þau urðu aðeins sex.
Ég kann vel að meta skemmtileg ummæli þess skautamanns, sem segist bara taka einn áratug í einu og það er ágætt grín út af fyrir sig.
En jafnvel það að segjast taka einn dag fyrir í einu getur verið tvíbent.
Þegar einn af vinum mínum var jarðaður eftir að hafa fengið hjartaáfall við morgunverðarborðið og presturinn ætlaði að fara að fara með moldunartextann í kirkjunni fékk einn jarðarfarargesta hjartaáfall og varð að stöðva athöfnina í tíu mínútur meðan sjúkralið kom á vettvang og fór með hann út.
Þá varð til síðari hluti þessa texta, en hinn hlutinn varð til við næstu jarðarför, þegar annar vinur minn var kvaddur.
Ljúfur Drottinn lífið gefur,
líka misjöfn kjör
og í sinni hendi hefur
happ á tæpri skör.
Feigðin grimm um fjörið krefur,
fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur.
Örlög ráða för.
Það er vissara að ganga hæfilega hægt um gleðinnar dyr.
![]() |
Ég tek bara einn áratug í einu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2011 | 13:42
Bakkus gætir jafnræðisreglunnar.
Bakkus konungur er afar jafnréttissinnaður og velur sér hirðmenn af öllum stigum, háa sem lága.
Hann mismunar fólki ekki eftir greindarvísitiölu. Jafnt afburðafólk sem aular eiga jafn greiðan aðgang að því að þjóna þessum mikla konungi eða eigum við að segja kemst ekki hjá því að gerast honum handgengnir og inna af höndum herskylduur sem getur kostað þá lífið.
Tíu prósent núlifandi karlmanna á Íslandi, 15 ára og eldri, hafa gist í höll óvinar Bakkusar á Vogi og líklega gæti annar eins fjöldi staðist inntökupróf þar ef hann vildi viðurkenna að vera háður fíkniefnum.
Veldi Bakkusar og fíkniefnanna nær langt út fyrir þá sem teljast fíklar því að aðstandendur hvers fíkils eru minnst einn ef ekki fleiri og þurfa að þjóna sem "kóarar" rétt eins og aðstoðarflugmenn indverskra flugstjóra sem fljúga fullir.
Áhrif neyslunnar ná líka út fyrir fíklana, jafnvel til ófæddra einstaklnga þannig að jafnræðið nær út fyrir ævimörk sumra.
![]() |
56 drukknir flugmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)