Minnir á Frakkann sem hvarf.

Frakki einn kom hingað til lands fyrir um tuttugu árum að vetrarlagi og vildi ganga yfir Vatnajökul.

Hann hafði að baki ýmsar frægðarfarir í Alpafjöllum og víðar ef ég man rétt. 

Hann týndist og fannst nær dauða en lífi við jökulröndina innst í Hornafirði eftir að hafa farið hræðilega hrakför í vitlausu veðri yfir jökulinn. 

Hann kvaðst vera orðlaus yfir Vatnajökli og það sem hann hefði boðið upp á og sagði að tvennt  hefði komið sér á óvart: "Vindurinn og snjórinn." 

Þetta var mikil speki í raun, því að hann hafði aldrei áður kynnst því hvernig þetta tvennt fer saman á landi sem kennt er við ís og er staðsett í mesta vindarassgati heims á þessum tíma árs. 

Snjórinn var svo fínn og vindurinn svo mikill að snjórinn smaug inn um allt í tjaldinu hans og fyllti það. 

Frakkinn varð svo upprifinn yfir hinu ótrúlega afreki sínu að næst ætlaði hann að ganga einn síns liðs til norðurpólsins. Gekk hann af stað og hefur ekki sést síðan. 

Nú er kominn annar maður til landsins sem er næstum eins orðlaus yfir Vatnajökli og Frakkinn sálugi.

Hann á að baki afrek í Afríku og ætlar að færa þau hingað norður eins og ekkert sé.

Ég ætla bara að vona að betur fari fyrir honum en Frakkanum hér um árið og að viðtal við hann eftir á verði ekki svona: "Þrennt kom mér á óvart: Vindurinn, snjórinn og sjórinn." 

Hann á það þegar sameiginlegt með Frakkanum að hafa orðið orðlaus yfir Vatnajökli. 


mbl.is Orðlaus yfir Vatnajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gera sér dagamun.

Vandamál vegna útblásturs á gróðurhúsalofttegundum verða ekki leyst á kappakstursbrautum því að sá útblástur sem þar er, en alveg örygglega innan við 0,0000% af útblæstri bifreiða í heiminum.

Vandamálið liggur nefnilega í hinum hversdagslega akstri og snatti sem bílar eru notaðir í.

Í heiminum eru nú um 700 milljónir bíla og notkun nokkur hundruð kappakstursbíla skiptir ekki nokkru máli í samaburði við það.

Og svo er það hávaðinn, sem nú á að gera útlægan af kappakstursbrautunum. 

Ég hef verið viðstaddur geimskot og akstur formúlu 1 bíls á flugbraut og einnig flugtak Concorde á sínum tíma. Í öllum tilfellum var það hávaðinn sem var eftirminnilegastur, ekki það sem ég sá.

Í stórkostlega vel gerðu atriði í myndinni Aviator þegar Howard Hughes brotlendir flugvél var það hávaðinn sem skildi mest eftir hjá bíógestinum. 

Hávaðinn, hljóðið, er eftirminnilegasta upplifunin sem ég hef af því að hafa hlekkst á í flugi hér í gamla daga og honum voru gerð listileg skil í atriðinu í Aviator.

Þess vegna er fráleitt að mínum dómi að eyðileggja þessa sterku upplifun þeirra sem horfa á Formúlu 1 keppnina. 

Boðorðin tíu voru sett fram fyrir þjóð sem þurfti að strita langan og strangan vinnudag til að hafa í sig og á. Tilgangur hvíldardagsins var sá að það gæti samt gert sér dagamun. 

Það á við á öllum tímum i að fólk eigi þess kost að gera sér dagamun, og  þess vegna á að fara varlega í það að taka það burt frá fólki sem þjónar þessum tilgangi. 

Og fráleitt er og ekki á rökum reist að það hafi nokkra minnstu þýðingu fyrir það að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda að minnka vélarnar í formúlubílunum. 


mbl.is Andvígur vistvænum mótorum í formúlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað gildir um grasrótarflugið.

Gott er að heyra loksins jákvæðar fréttir af Landeyjarhöfn en því miður var ekki jafn bjart yfir fundi, sem eigendur lítilla flugvéla voru á í kvöld með fulltrúum frá Flugmálastjórn Íslands.

Fundarmenn urðu raunar fyrir áfalli þegar þeim varð nú fyrst ljóst, að í raun myndi stærstur hluti flugvélaflotans stöðvast óhjákvæmilega á þessu ári vegna nýs regluverks um viðhald og eftirlit, sem tekur endanlega gildi 28. september næstkomandi.

Samkvæmt því verður eftirlit og viðhald vélanna einkavætt í samræmi við kröfur EASA, sem er nokkurs konar samband flugmálastjórna í Evrópu og allar Evrópuþjóðir eru aðilar að nema fjórar þjóðir á Balkanskaga. 

Til að sjá um þetta eftirlit og viðhald þarf að vera til staðar fyrirtæki, sem hefur fengið til þess réttindi, en ekkert slíkt er til hér á landi, enda menn alveg óviðbúnir þessu og kostar minnst tvær milljónir króna að setja slíkt á stofn og minnst sex mánuði að gera það.

Jafnvel þótt farið yrði í slíkt myndi það ekki koma í gagnið fyrr en næsta vetur og því fyrirséð að flotinn mun stöðvast út árið að minnsta kosti. 

Nú þegar eru einhverjar vélar dottnar út og þeim mun fjölga við hver mánaðamót eftir því sem lofthæfið rennur út.

Þetta er þó ekki allur floti litlu vélanna því að undanþegnar eru flugvélar sem voru hannaðar fyrir 1955 og ekki framleiddar lengur en til 1975. Einnig allra minnstu fisflugvélarnar og heimasmíðaðar vélar. 

Er það sérkennileg útfærsla á auknu flugöryggi að kröfurnar séu meiri gagnvart nýrri vélunum en þeim eldri. 

Þetta er mesti afturkippur í grasrótarfluginu á Íslandi síðan það hófst fyrir 66 árum. 

Með því að innleiða þetta regluverk á Íslandi eru sérstaða landsins að engu höfð.

Ísland er eina landið í EASA sem er langt frá öðrum löndum úti í ballarhafi þannig að litlu flugvélarnar hér fljúga bara hér en ekki þvers og krusss á milli landanna á meginlandinu. 

Ísland er eina landið sem hefur ekki her og þjálfar því ekki flugmenn á þann hátt. Hér koma flugmennirnir úr grasrótarfluginu. 

Vegna smæðar þjóðfélagsins og fjarlægðar frá öðrum löndum getum við ekki leitað á náðir fyrirtækja í öðrum EASA löndum til að taka að sér eftirlit og viðhald. 

Fulltrúi Flugmálastjórnar Íslands var spurður á fundinum um ástæður þess að við gengum í EASA. 

Hann sagði að hún blasti við: Engin leið væri að halda uppi öflugum flugrekstri hér og stunda stórfellt millilandaflug nema að taka þátt í því eina alþjóðasamstarfi, sem væri í boði eins og sæist á því að nær öll lönd Evrópu væru aðilar að þessu samstarfi. 

"Við urðum að taka meiri hagsmuni fram yfir þá minni" sagði hann orðrétt. 

Af því má álykta að grasrótarflugið flokkaðist undir "minni hagsmuni".

Á sínum tíma voru 172 blaðsíður af efni sendar til flugvélaeigenda hér á landi. Þótt reynt væri að grufla í þeim var engin leið fyrir venjulegan borgara að átta sig á því hvað raunverulega myndi gerast.

Fundarmenn í kvöld fengu það hins vegar útskýrt á mannamáli á ca 5 mínútna kafla í ágætri og greinargóðri framsögu fulltrúa frá Flugmálastjórn. 

Gott hefði verið að sjá slíkt á blaði fyrr en nú. Það minnir á lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda. 

Hvað um það, - það liggur þá ljóst fyrir að TF-FRÚ verður ekki flogið meira á þessu ári og kannski ekki framar. 

Ég á hins vegar litið 120 kílóa eins manns opið örfis hangandi uppi í lofti á Samgöngusafninu í Skógum. 

Fer þangað sennilega í sumar, tek það niður, fæ vin minn til að gera við bilaða tvígengisvélina sem í því er og flýg á því eftirleiðis í þágu aukins flugöryggis í Evrópu. 


mbl.is Bjartsýni ríkir um Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband