2.3.2011 | 20:43
Íslandssólin mín.
Mikið er ég ánægður yfir því að Herdís Þorvaldsdóttir skuli hafa hlotið verðskuldaða viðurkenningu og heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV.
Ég sá Herdísi fyrst í hlutverki Snæfríðar Íslandssólar í Íslandsklukku Laxness skömmu eftir vígslu Þjóðleikhússins og þótt ég hafi séð verkið nokkrum sinnum síðan er hún mín Íslandssól æ síðan.
Hún er raunar Íslandssól á fleiri sviðum, því að óþreytandi elja hennar og barátta fyrir bættri meðferð á gróðurlendi Íslands er aðdáunarverð.
Ég óska henni innilega til hamingju með heiðurinn og sendi þessari valkyrju baráttukveðjur mínar.
![]() |
Herdís fékk heiðursverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2011 | 20:05
Fornsagnahetja á 21. öld.
Thor Vilhjálmsson skipar svipaðan sess í huga mér og að hann hafi verið fornsagnahetja á 21. öld.
Ég kynntist honum fyrst fyrir 20 árum og hann kom mér mjög á óvart því að myndin sem ég hafði haft af honum fram að því reyndist kolröng eins og oft vill verða þegar um er að ræða persónu, sem maður þekkir ekkert nema af afspurn.
Frá þessum fyrstu kynnum hefur sú útgeislun og jákvæðu áhrif, sem Thor hefur haft á mig og áreiðanlega fleiri, verið mikil uppörvun fyrir mig, eins og sólargeisli í hvert sinn.
Einkum hefur sú aðferð, sem hann hefur notað í glímunni við Elli kerlingu hin síðari ár, að þjálfa líkama sinn og hug eins og unnt hefur verið, verið eins og sólargeisli í hvert sinn sem við höfum hist og rætt saman.
Þegar ég hitti hann fyrir skömmu var ekki að heyra á honum neitt uppgjafarhljóð hvað varðaði íþrótt hans, júdóglímuna. Ó, nei, hann var enn að og engan bilbug á honum að finna.
Sjálfur Þór glímdi við Elli kerlingu og varð að lúta í lægra haldi. Thor lét sig ekki muna um að takast á við hana líka á glæsilegri hátt en flestum er unnt, eins og þær hetjur í fornsögum sem gengu á hólm við eldspúandi dreka óhræddir og stórhuga.
"Sjá, hvlík brotnar bárumergð /
á byrðing einum traustum /
ef skipið aðeins fer í ferð /
en fúnar ekki í naustum"...
orti Hannes Hafstein í ljóðinu sem byrjar á setningunni: "Já, láttu gamminn geysa fram..."
Nú hefur Thor orðið að beygja sig fyrir því sem allir dauðlegir menn þurfa að gera, en fallið með meiri sæmd en flestir aðrir sem glíma við aldurinn og ég vil þakka honum fyrir ógleymanleg kynni og vináttu og votta Margréti, konu hans, og öðrum aðstandenndum samúð mína.
![]() |
Thor Vilhjálmsson látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2011 | 10:13
Samgöngubylting.
Lítum á nokkra minnisverða áfanga í samgöngum til og frá Íslandi.
Ekki er vitað hvenær fyrst var siglt til Íslands, en reglubundnar siglingar hófust eigi síðar en á níundi öld.
Slíkar siglingar urðu svo nauðsynlegar, að eitt af aðalatriðum Gamla sáttmála 1262 er að Noregskonungur tryggi þær.
Þær urðu afar stopular yfir veturinn eins og sést af því að allt fram á síðari hluta nítjándu aldar gátu liðið nokkrir mánuðir án þess að Íslendingur vissu, að þjóðhöfðingi landsins væri látinn og annar tekinn við.
1924 var í fyrsta sinn flogið til Íslands.
Þegar stríðinu lauk 1945 voru komnir flugvellir og tvö íslensk flugfélög hófu millilandaflug og samkeppni var í millilandaflugi fram á áttunda áratuginn.
Þá tók við einokun þegar flugfélögin tvö sameinuðust og það ástand stóð fram til ársins 2003 þegar samkeppni hófst að nýju.
Ég held að fáir hafa áttað sig á því hvað þetta var mikil bylting. Ef við berum samann ástandið 2002 og það sem verður á þessu ári er í raun um samgöngubyltingu að ræða, sem hefur gagnger áhrif á kjör og menningu þjóðarinnar.
Menn geta leikið sér að því að finna ókosti þess að fólk hefur nú frelsi til að fara til og frá landinu og á því auðveldarar með að flytja héðan, bæði sjálft sig og starfsemi sína.
En kostirnir eru miklu fleiri. Víðsýni eykst og þótt hugtakið "útrás" hafi á sér fremur neikvæða merkingu um sinn og að tengja megi hana við samgöngubyltinguna 2003 af því að hvort tveggja hófst á sama tíma, megum við ekki draga okkur inn í skel einangrunar.
Þetta er hliðstætt því þegar menn fundu upp eldinn og stóðu andspænis honum eins og börn.
"Brennt barn forðast eldinn" segir máltækið, en það á við um eðlilega varúð við að beisla hann og nota.
Þegar litið er á hinn gríðarlega vöxt ferðaþjónustu síðustu árin og margt annað gott sem hefur leitt af sér er ástæða til að fagna henni en ganga samt hægt um gleðinnar dyr.
![]() |
Þrettán erlend flugfélög með flug hingað í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)