24.3.2011 | 23:06
Sá á þetta skilið !
Mikið óskaplega er ég glaður yfir því að Gísli Örn Garðarsson hefur fengið íslensku bjartsýnisverðlaunin og mikið óskaplega er á ánægður yfir því að hafa fengið að kynnast þessum afburða færa leikhúsmanni og vinna með honum.
Í Gísla Erni er fólgið óvenju samtvinnað andlegt og líkamlegt atgerfi, sem til dæmis naut sín á heimsmælikvarða í Hamskiptunum, þar sem frammistaða hans var ógleymanleg og einstæð og er vafasamt að magnað og óhugnanlegt innihald verksins hafi í annan tíma verið laðað betur fram.
Samvinnan í söngleiknum Ást var óskaplega gefandi og skemmtileg tilviljun að við Þorsteinn Gunnarsson, sem fórum mikinn saman í Herranótt í þrígang fyrir meira en hálfri öld, skyldum báðir vera "gripnir upp" á gamals aldri til að fara aftur á fjalirnar.
Þorsteinn stökk fram alskapaður sem leikari 15 ára gamall í leikritinu "Browningþýðingin" og Gísli Örn sá til þess að hann næði hápunkti ferilisins í London í einhverju glæsilegasta "come-back" íslenskrar leiklistarsögu.
Hlýja Gísla og stórt hjarta ásamt ástríðu og metnaði hefur nú veitt honum verðskuldaða umbun.
Til hamingju, góði vinur!
![]() |
Gísli Örn fékk bjartsýnisverðlaunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2011 | 22:49
Leikkonur lifa.
Leikarar og leikkonur lifa í verkum sínum þótt jarðneskri tilveru ljúki. Það gerir Elisabet Taylor og það gerir líka íslensk stallsystir hennar, því að á nú reikar hugurinn til tveggja leikkvenna, sem eiga þetta sameiginlegt og kveðja þetta tilverustig nokkurn veginn á sama tíma.
Nær mér stendur Margrét Ólafsdóttir, hin íslenska leikkona, sem var svo mikil, hlý og heil manneskja, að hennar er sárt saknað.
Ekki síður verður mér hugsað til manns hennar, Steindórs Hjörleifssonar, sem ég átti langt og gott samstarf við, bæði hjá Leikfélagi Reykjavíkur og ekki síður þegar hann var dagskrárstjóri hjá Sjónvarpinu.
Það kom í hans hlut að móta fyrstur manna það starf og honum fórst það vel úr hendi.
Lengi hefur það verið einhver ljúfasta minning sem ég hef átt um tvenn hjón og tilhlökkunarefni að hitta þau. Annars vegar Thor Vilhjálmsson og Margréti Indriðadóttur og hins vegar Steindór og Grétu.
Svo mikil hlýja, virðing og væntumþykja en líka stutt í húmorinn og lífsgleðina.
Nú eru þau Thor og Gréta farin og hugurinn er hjá Margréti Indriðadóttur og Steindóri Hjörleifssyni og niðjum og ástvinum þessara tveggja góðu hjóna, sem ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.
![]() |
Útför Taylor í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2011 | 20:05
Best að segja sem minnst.
Fyrir nokkrum árum greindi ég frá því að samkvæmt heimildum mínum væri hreinsibúnaður Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga ónýtt drasl, enda gysi oft upp mikill reykur frá verksmiðjunni að næturlagi. Fyrir hreina tilviljun átti ég leið fram hjá henni að næturlagi þegar það var gert.
Borið var á móti þessu og sagt að með ólíkindum væri andúð mín á þessari starfsemi sem lýsti sér í því að ég lægi yfir verksmiðjunni á næturnar til að reyna að ófrægja hana með myndum.
Engin leið var að gefa upp nafn heimildarmanns míns, því að hann kvaðst myndu verða rekinn umsvifalaust ef upp kæmist að hann hefði "lekið".
Nú nýlega frétti ég af því að við uppskipun í höfninni hefði verið farið mjög ógætilega með heilsuspillandi efni en aftur gerist það að ekki er hægt að segja frá heimildarmönnum, vegna þess að strax og þetta vitnaðist hófst mikil leit að þeim, væntanlega til að reka þá.
Ég bloggaði um það fyrir jólin að þrautreyndur skipstjóri segði að hvergi í heiminum væri eins auðvelt að losa efni í sjóinn og hér við land. Menn kæmust upp með hluti hér sem þeir fengju fangelsisdóma fyrir annars staðar og misstu skipstjórnarréttindi fyrir í öðrum löndum.
Ekkert af þessu hefur haft hin minnstu áhrif eða vakið neina athygli og líklega fer eins um mál aflþynnuverksmiðjunnar við Akureyri, sem rakið var í Kastljósi í kvöld.
Þeir sem reka verksmiðjurnar hér sjá sjálfir um mælingar ef þeir þá nenna því yfirleitt.
Í ljósi þess sem hér er rakið og viðbragða við því held ég að best sé fyrir mig að segja sem allra minnst og reyna með því að draga úr því að vera talinn "á móti framförum og atvinnuuppbyggingu". Ég hef til dæmis verið að reyna að haga mér á jákvæðan hátt með því að minnast ekki á mengunina frá sorpbrennslustöðvunum.
Hvaða máli skiptir það þótt einhverjir fiskar drepist innst í Eyjafirði á meðan að togararnir geta veitt á úthafinu og bátar, sem á annað borð hafa kvóta, geta veitt utar í Eyjafirði?
Hvaða máli skiptir það þótt einhver einn bóndi hætti búskap? Er bændum ekki að fækka stöðugt hvort eð er?
Hvað er yfirleitt verið að blaðra með svo staðbundna og lítilfjörlega mengun og hræða með því einhverja sérvitra útlendinga frá því að trúa því hvað við Íslendingar séum hreinir og umhverfisvænir?
![]() |
Mengun frá verksmiðju Becromal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2011 | 14:34
Snúið mál og þarf að kryfja til mergjar.
Það þarf að gera eitthvað til þess að tryggja að mál á borð við ráðningu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu komi ekki aftur upp.
Í hliðstæðum álitamálum áður varðandi ráðningar hafa ráðherrar gengið á svig við álit matsaðila og farið sínu fram, en svo var ekki í þessu máli. Hvernig gat matsnefndin í þessu máli komist að allt annarri niðurstöðu en kærunefnd jafnréttismála?
Ef komast á hjá svona uppákomum, ættu ráðherrar þá að fela kærunefndinni fyrirfram að úrskurða í málum af þessu tagi, ef einstaklingar af báðum kynjum sækja um?
Eitthvað þarf að gera. Þetta gengur ekki svona, hverjum sem um er að kenna.
![]() |
Gat ekki sniðgengið matið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)