Ætli það sé kennt ?

Ég lærði það ekki hjá ökukennara hvað það getur verið varasamt að lenda í snjó, sem bíll lendir í öðru megin, ef engin fyrirstaða er hinum megin. Þetta lærði ég "the hard way" fyrir hálfri öld svo að maður sletti, af því að orðalagið "af biturri reynslu" er fulldjúpt í árinni tekið.

Raunar fór ég í aðeins tvo ökutíma, því að maður kom úr sveitinni með flest á hreinu eftir að hafa byrjað á stórri dráttarvél 11-12 ára. Þó ekki þetta með snjóinn af því að ég var þar á sumrin.

Ég efast um að þrátt fyrir tugi ökutíma sé þetta kennt í íslenskri ökukennslu. 

Lærdómurinn er einfaldur: Á því meiri hraða sem maður er og því dýpri sem snjórinn er, sem fer fyrir annað framhjólið en ekki hitt, því meira snýst bíllinn og þá er voðinn vís.  

Eftir 30 ára tuð mitt um almennilega æfingaaðstöðu hér á landi í líkingu við það sem ég sá fyrst á Spáni fyrir 35 árum, en þá var Spánn enn fátækt land, hefur ekkert enn gerst í þessum málum hér á landi. 

Maður sér þetta birtast í ýmsum óhöppum og ekki síst í sjúklegri hræðslu margra ökumanna við minnstu beygjur eða lausamöl. 

 


mbl.is Bíll valt í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðisumbót.

Það verður spennandi að sjá hvað nýtt frumvarp um persónukjör felur í sér.  Ég hef verið fylgjandi því að það verði að veruleika hér á landi eins og í ýmsum öðrum löndum, þannig að prófkjörin færist inn í kjörklefana. 

Það má útfæra persónukjörsreglur á mismunandi hátt og mér finnst alveg athugandi að framboðin fái sjálf að ráða því hvernig þau haga þessu. 

Þá yrði um að ræða þrjá möguleika, sem framboðin gætu valið sér sjálf og myndi nafn aðferðarinnar vera tilgrein fyrir ofan hvern framboðslista: 

1. Sama kerfi og núna. Röðin getur því aðeins breyst að nógu margir kjósendur striki út eða raði upp á nýtt. 

2. Persónukjör með leiðbeinandi röð framboðsaðila, þ. e. nöfnum raðað eftir því sem framboðsaðili leggur til án þess að sú röðun hafi nokkurt vægi, því að kjósendur listan hafi einir algert vald til röðunarinnar. 

3. Persónukjör svipað því sem var í stjórnlagaþingkosningunum. 

Og nú spyr kannski einhver: Hvers vegna að gefa nokkurn afslátt á því að innleiða persónukjör í líkingu við það sem er í lið 3?  Svarið er það að það sé hluti af lýðræðisfrelsi að framboð og flokkar fái að ráða því sjálf hvaða form þeir velja í þessu tilliti. 


mbl.is Frumvarp um persónukjör væntanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir óþægilega á 2008.

Orðalagið "erfitt að útvega endurfjármögnun" heyrðist oft árið 2008. Orðalagið er nógu tæknilegt og loðið til þess að menn áttuðu sig ekki á því að í raun þýddi þetta að viðkomandi fyrirtæki stefndu beint í gjaldþrot.

Fjölmiðill greindi frá því að borgarstjórinn í Reykjavík hefði skrifað á facebook síðu sína að Orkuveitan væri "á hausnum"  og að erlendar lánastofnanir, sem fylgdust vel með skuldunautum, hefðu þegar í stað fengið þessi ummæli þýdd á þann hátt að OR væri gjaldþrota. 

Í hádegisfréttum RUV nú rétt í þessu var frá því skýrt að Norræni fjárfestingarbankinn teldi að "lánshæfi OR væri óviðunandi" sem er í raun það sama og Jón Gnarr sagði á facebook-síðu sinni, það er að OR væri "á hausnum."

Ummæli Davíðs Oddssonar:  "Íslendingar borga ekki" flugu strax á næstu klukkstundum um  sjónvarpsstöðvar, fjölmiðla, stórfyrirtæki og sendiráð um allan heim.

Stundum er eins og menn haldi að hér sé flest líkt og var fyrir daga internetsins og að ummæli á einkasíðum svokölluðum og í íslenskum fjölmiðlum séu aðeins til heimabrúks. En svo er alls ekki eins og dæmin sýna

Og líka hið gagnstæða, að hægt sé að halda leyndu fyrir Íslendingum sem útlendingar komast að.

Raunar er það oft svo að þeir sem mest eiga að vita, í þessu tilfelli íbúar Reykjavíkur, vita miklu minna en erlendar fyrirtæki og stofnanir. Að því leyti til var kominn á það tími að borgarstjórinn segði það sem hann sagði. 


 

 


mbl.is Vilja ekki lána Orkuveitunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki algert einkamál.

Skeggvöxtur og hárvöxtur eru skilgreind sem einkamál en það er ekki alveg svona einfalt.

Við sjáum í þessum marsmánuði að útlitið, sem mottan gefur, hefur áhrif út í frá. 

Satt að segja man ég varla eftir átaki til þess að efla góðan málstað, sem hefur verið auglýst betur en með motturæktuninni í þessum mánuði.

Mottan hefur litað hversdaginn en líka vakið blendin viðbrögð. Hún hefur fallið vel í kramið hjá flestum og persónulega þykir mér vænt um það, að vegna þess að faðir minn heitinn var með mottu síðastu árin sem hann lifði, segja margir að hún minni þá á hann.

"Þú ert bara alveg eins og karlinn" er algengt viðkvæði. 

Allir tengja hana að sjálfsögðu við átak Krabbameinsfélagsins en þegar kemur að því að meta áhrif hennar á útlit mitt, skiptist í tvö horn, því að til eru þeir sem finnst hún ljót og sumum beinlínis herfileg. 

Það get ég vel skilið, því sjálfum finnst mér hún of mislit og tjásuleg. 

Kolbrún Bergþórsdóttir hrópaði upp yfir sig þegar hún sá mig: "Guð minn almáttugur hvað þetta er ljótt!" 

Og konan mín fer ekki ofan af því að hún sé ömurleg og að þessu leyti er hún bara alls ekki einkamál mitt. Með því að umbera mottuna í heilan mánuð leggur hún fram sinn skerf til þess að vekja athygli á þjóðþrifamáli Krabbameinsfélagsins.

Þeir sem kjörnir voru á stjórnlagaþing 1851 (Þjóðfundur) til að sýsla við stjórnarskrá landsins, voru margir með yfirskegg, sem var vinsælt á allt fram á 20. öld. 

Það er kannski í stíl við það að halda mottunni en ég held nú samt að hún muni fjúka 1. apríl í samræmi við loforð mitt þar um við konuna mína. 

 

 


mbl.is Hafa misjafna heimild til að safna skeggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgist með magni og vegalengd !

Í 52 ár hef ég fylgst með eyðslu bíla minna við hverja áfyllingu með því að bera saman ekna vegalengd og magn eldsneytis, sem ég hef tekið. Í nokkrum tilfellum hefur þetta gefið upplýsingar um að eitthvað væri að bílnum og því bæði sparað fé og fyrirbyggt vandræði.

Ef stolið er af bílnum í leyni kemur það strax í ljós.  Þetta er gulls ígildi í orðsins fyllstu merkingu þegar eldsneytið er orðið jafn dýrt og raun ber vitni.


mbl.is Skrapp frá og tankurinn tæmdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband