13.4.2011 | 22:57
Virði hvers þingmanns eykst.
Úrslit atkvæðagreiðslunnar um vantraust á Ríkisstjórnina hafa það í för með sér að hver sá þingmaður, sem studdi stjórnina, getur "selt" sig dýrt eins og það er kallað, ef slíkt er uppi á teningnum hjá honum.
Bjarni Benediktsson ýjaði að þessu á Alþingi í kvöld þegar hann hjó eftir ummælum Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur varðandi virkjanir bæði efst og neðst í Þjórsá.
Út af þessu má spinna kenningar um það að nú muni færast í aukana "verslun" stjórnarflokkanna með tvo málaflokka, annars vegar hugðarefni Sf hvað varðar aðildarumsókn að ESB og hins vegar hugðarefni grænna þingnanna VG varðandi virkjanaáform.
Grænu þingmennirnir á jaðri órólegu deildarinnar í VG muni nýta tæpa stöðu stjórnarinnar til þess að skilyrða stuðning við stjórnina og áframhaldandi viðræður við ESB með því að stóriðju- og virkjanaáformum verði haldið í skefjum.
Sagt er að sá tími hafi verið ótrúlega mikill, sem Steingrímur Hermannsson eyddi í það á fyrstu stjórnarárum ríkisstjórnarinnar, sem hann myndaði haustið 1988 að stunda samninga við einstaka stjórnarþingmenn til þess að halda stjórninni Stefá á floti.
Einkum hafi hann þurft að eyða miklum tíma og fyrirhöfn í að hafa Stefaán Valgeirsson góðan og orðið mjög feginn þegar hann gat kippt þingmönnum Borgaraflokksins inn í stjórnina og látið þeim hið nýja Umhverfisráðuneyti í té.
Ekki stóð það síður tæpt í febrúar 1980 þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn sína á vægast sagt afar tæpun grunni.
Staða þeirrar ríkisstjórnar var svo tæp að málefni eins Frakka, Patrick Gervasoni, hafði næstum sprengt ríkisstjórnina vegna þess að Guðrún Helgadóttir gerði það mál að úrslitaatriði hvað varðaði stuðning hennar við ríkisstjórnina.
![]() |
Vantrauststillaga felld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2011 | 16:48
Þjóðhagslega arðbært.
Lengi hefur verið litið á almenningssamgöngur og aðrar hagræðingarumbætur í samgöngum frá of þröngu sjónarhorni þar sem menn hafa séð eftir þeim frjámunum sem í svona umbætur fara.
Í ferðum mínum um fjórar danskar borgir, þrjár norskar og sjö sænskar auk lesturs athyglisverðrar skýrslu norrænna borgasamtaka um 16 norrænar borgir hefur tvennt aðallega vakið athygli mína:
1. Þær norrænu borgir sem eru á stærð við Reykjavík eru álíka dreifbýlar ef nota má það orð og Reykjavík. Aðeins stóru og gömlu borgirnar eru með þéttari byggð.
2. Almenningssamgöngum er yfirleitt betur fyrir komið í þessum borgum en á höfuðborgarsvæðinu hér heima enda er ekkert þessara borgarsamfélaga með annað eins sundurlaust kraðak af sjálfstæðum einingum og Reykjavíkursvæðið með tilheyrandi skipulagsleysi.
Hátt eldsneytisverð er ekkert einstakt íslenskt fyrirbæri. Það er á svipuðu róli og í nágrannalöndunum og erfitt að benda á rökréttari, skilvirkari og réttlátari skattlagningu, einfaldlega borgað eftir notkun og ekki hægt að svíkja undan.
Önnur skattlagning í staðinn myndi verða óréttlátari og nær að lækka aðra skatta og gjöld en það sem, lagt er á eldsneyti.
En ekki er síður mikilvægt að efla þann valkost sem almenningssamgöngur eru og gera ráðstafanir til að laga bílaflotann að því umhverfi, sem hlýst af því að olíuöldin hefur náð hámarki sínu vegna þess að jarðefnaeldsneyti jarðarinnar er takmörkuð auðlind og þverrandi í framtíðinni.
![]() |
Milljarður á ári í samgöngur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2011 | 09:08
Varla til baka í Samfylkinguna?
Guðmundur Steingrímsson haslaði sér völl í Samfylkingunni þegar hann ákvað að taka þátt í stjórnmálum þótt bæði faðir hans og afi hefðu verið formenn Framsóknarflokksins. Hann sá sig síðan um hönd, ef svo má segja, og fór í framboð fyrir sinn ættarflokk.
Varla fer hann nú að kvarna niður fylgi Framsóknar með því að stofna nýjan flokk? Og varla að fara til baka inn í Samfylkinguna?
Það er ekkert nýtt að Framsókn sé klofin í svona málum. Hún var klofin í afstöðunni til EES á sínum tíma og til voru Framsóknarmenn sem ekki gengu í takt við forystu flokksins í afstöðunni til NATO, EFTA og fleiri mála.
Hópur Framsóknarmanna átti þátt í stofnun og framboði Þjóðvarnarflokksikns 1953 og upp úr 1970 voru óánægðir ungir Framsóknarmenn helstu forsprakkar svonefndrar Möðuvallahreyfingar, þeirra á meðal Ólafur Ragnar Grímsson og Baldur Óskarsson.
Framsókn fékk það orð á sig fyrir hálfri öld að "vera opin í báða enda" og á auðvelt með að vera það áfram.
![]() |
Eru Siv og Guðmundur á útleið úr Framsókn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)