14.4.2011 | 20:59
Fjölmörg fordæmi. VGVG?
Fjölmörg fordæmi eru fyrir því úr íslenskri þingsögu að þingmenn segi skilið við þingflokka sína, stofni eigin þingflokk og jafnvel nýja stjórnmálaflokka.
Tryggvi Þórhallsson fór úr Framsóknarflokknum og stofnaði Bændaflokkinn, Vilmundur Gylfason stofnaði Bandalag jafnaðarmanna meðan hann var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn meðan hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Jóhanna Sigurðardóttir Þjóðvaka fyrir kosningarnar 1995.
Einstaka þingmenn Borgaraflokksins yfirgáfu hann og fóru yfir í Sjálfstæðisflokkinn.
Eggert Haukdal, Jón G. Sólnes og Stefán Valgeirsson eru dæmi um þingmenn sem fóru í sérframboð.
Allt voru þetta þingmenn, sem höfðu verið kosnir af fólki, sem var ekki alltaf á eitt sátt með það að þeir skyldu ekki fylgja flokkslínunni heldur færu sínu fram.
Á síðari árum höfum við Kristin H. Gunnarsson og Þráin Bertelsson sem dæmi um þingmenn sem hafa farið á milli flokka og jafnvel úr stjórnarandstöðu yfir í stjórn.
Þingmenn sverja eið að því að fylgja sannfæringu sinni og samvisku og þess vegna geta þeir kjósendur þeirra lítið gert, sem finnst að þeir hafi brugðist þeim sem veittu þeim umboðið.
Sumir þeirra sem fóru í klofningsframboð vildu fá listabókstafi eins og DD eða BB og hefðu atkvæðin, sem þessi framboð fengu, bæst við atkvæði móðurflokkanna. Í öll skiptin hafnað viðkomandi fjórflokkur þessari beiðni.
Og hvaða skammstöfun ætti nýja aflið að hafa? VGVG? Vinstra Græna Villta Gengið? Eða VGVK? Vinstri Grænu VilliKettirnir?
![]() |
Íhuga að stofna þingflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.4.2011 | 20:21
"...hafa talað megavöttin upp úr jörðinni..."
Setningin sem höfð eru eftir Svandísi Svavarsdóttur í tengdri frétt, eru mergurinn málsins í þeim hluta virkjanamálanna, sem snýr að jarðvarmavirkjunum. "Menn hafa talað megavöttin upp úr jörðinni eins og þeir viti hvað undir liggur", sagði hún.
Það er viðurkennd staðreynd úr þessum fræðum, að um ágiskun er að ræða, þegar gefnar eru upp áætlaðar orkutölur af jarðvarmasvæðum, því að það kemur ekki í ljós fyrr en í áranna rás, hve lengi svæðið afkastar þeirri orku sem giskað var á.
Hvað snertir jarðvarmasvæðin á Suðvesturlandi giska menn á að orkan endist í 50 ár. Það er að sjálfsögðu allt of skammur tími til þess að það standist kröfur um sjálfbæra þróun. Að tæma auðlind á þennan hátt heitir rányrkja á íslensku.
Doktor Bragi Árnason rannsakaði Nesjavalla- Hellisheiðarsvæðið á sínum tíma og dró af þeim rannsóknum þá ályktun, að miðað við þau afköst, sem menn ætla sér að ná á þessu svæði, dvíni orkan eftir 50 ár og að þá þurfi að bíða án orkuöflungar í 100 ár eftir því að svæðið fari aftur að afkasta orkunni.
Af þessu er hægt að draga tvær ályktanir:
Annað hvort, að aðeins verði virkjaður þriðjungur þeirrar orku sem giskað var á eða að barnabörn okkar standi frammi fyrir því eftir 50 ár að svipast um eftir 600 megavatta orku annars staðar og síðar 50 árum þar á eftir að svipast um eftir 600 megavöttum á þriðja svæðinu.
Framferði af þessu tagi er græðgi og yfirgangur gagnvart komandi kynslóðum auk þess sem logið er að okkur sjálfum og öllum heiminum að um "endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun" sé að ræða.
Við Íslendingar eigum alveg eftir að skipuleggja þessi mál af yfirvegun til framtíðar í anda jafnréttis kynslóðanna og haga okkur á ábyrgan hátt í stað þess rányrkjuhugsunarháttar sem ræður ferðinni í vikjana- og stóriðjumálum.
Hvenær ætlum við að fara að haga okkur eins og siðað fólk í þessum efnum?
![]() |
Deilt um megavött á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2011 | 10:11
Grímsvötn líklegust en önnur eldfjöll hættulegri.
Líklegast hefur verið leitað til íslenskra jarðfræðinga um upplýsingar um það, hvar líklegast væri að gysi næst, þegar settur var Grímsvatnastimpill á næsta eldgos á Íslandi og viðbrögð við því.
Hins vegar hefur verið tiltölulega hættulítið öskufall úr síðustu Grímsvatnagosum, - askan mun minni og léttari en í gosinu í Eyjafjallajökli.
Öðru máli gegnir um Heklu, Kötlu, Bárðarbungu og Öskjusvæðið ef stór gos verða í þessum eldfjöllum.
Hekla er komin á tíma og Katla hefur stundum gosið í kjölfarið á Eyjafjallajökli. Auk þess hafa verið skjálftar allt að þremur stigum á Richter á svæðinu frá Öskju og norðaustur í nyrsta hluta Krepputungu allt frá 2007.
Og meira að segja kom einn yfir 2 stig í Kverkfjöllum nýlega.
Vonandi hafa menn endurbætt matsaðferðir sínar á dreifingu og magni öskunnar frá því sem gert var í gosinu í Eyjafjallajökli. Miðað við það að flugvellirnir á Suðvesturlandi voru opnir þegar öskufall þar var mest liggur beint við að álykta að aldrei hefði þurft að loka neinum alþjóðaflugvelli á Íslandi á meðan á gosinu stóð ef upplýsingar og útreikningar hefðu verið betri en raun bar vitni.
Og svipað held ég að hafi gilt um megnið af því sem bannað var í Evrópu.
![]() |
Líktu eftir Grímsvatnagosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)