Hvar og hvenær endar þetta?

Fyrir um 20 árum voru svonefndar DAT-spólur toppurinn í stafrænni tækni við hljóðupptökur. Á örfáum árum hurfu þær, bæði vegna nýrrar tækni og líka vegna þess hve DAT-tækin voru viðkvæm í stilllingum.

Fyrir tveimur árum voru á boðstólum kvikmyndatökuvélar fyrir DV, DV-Cam og H-DV spólur. 

Nú eru þessar spóluvélar alveg horfnar úr venjulegum verslunum með kvikmyndatökuvélar og aðeins á boðstólum vélar með hörðum diski og engum spólum. 

Fyrstu myndbandstökuvélarnar sem notaðar voru fyrir sjónvarp á Íslandi voru teknar í notkun sumarið 1981 í ferðum okkar Einars Páls Einarssonar, Páls Reynissonar, Vilmundar Þ. Gíslasonar og Sverris Kr. Bjarnasonar um landið til að taka upp fyrstu sjö Stiklu-þættina. 

Ári áður hafði ég lokið við mynd um Eyðibyggðina á Hornströndum, sem tekin var á mjög grófa "pósitíva" fréttafilmu og hefur liðið fyrir það alla tíð síðan. Yfirmaður minn stóð í þeirri trú að sparnaður fælist í því að nota fréttafilmuna, sem framkölluð var af RUV, en Maríanna Friðjónsdóttir reiknaði það síðar út að ódýrara hefði verið að nota almennilega negatíva filmu, þótt hún væri dýrari í upphafi í innkaupi, og þyrfti að borga fyrir framköllun erlendis, því að auðvitað kostaði framköllunin heima fé, sem menn reiknuðu ekki inn í dæmið. 

Draumur minn er sá að einhvern tíma verði þessi mynd, skot fyrir skot, tekin aftur og notuð nákvæmlega sama hljóðrásin sem snillingurinn Marínó Ólafsson vann fyrir myndina með tónlist eftir Gunnar Þórðarson, sem hann stjórnaði upptöku á. 

Myndin hefur þá sérstöðu að á Hornströndum sést aldrei neinn lifandi maður þótt sýnd séu meðal annars tvö morð á svæðinu fyrr á öldum. Aðeins sjást tærnar á sofandi fóstbróður á brún Hornbjargs á meðan hinn hékk í hvönninni neðar í bjarginu eins og greint er frá í Fóstbræðrasögu. Þess vegna yrði auðveldara að taka upp myndina án hljóðsins. 

Síðastliðin 20 ár hafa menn ætíð haldið að hraði tækniframfaranna hlyti að stöðvast og að komið væri að endimörkum. En engu er líkari en hraðinn hafi aldrei verið meiri en nú. 

Spurningin er samt þessi:  "Hvar og hvenær endar þessi rússíbanareið?" 


mbl.is Snjallsímarnir taka yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hátíðarskapi.

Bílar og vélhjól sem sýnd eru á páskasýningu Kvartmíluklúbbsins í Kauptúni eru kannski ekki alveg það sem orkusveltan heim í komandi orkukreppu vantar. Páskaegg og hátíðarsteikur eru heldur ekki alveg það sem vantar í sveltandi heimi þar sem offita er að vera helsta heilbrigðisvandamálið.

Tækin, sem sýnd eru á sýningunni eru ekki notuð daglega í snatt til vinnu og um borgina. Þetta eru tæki, sem notuð eru til hátíðabrigða og til að gera sér dagamun. 

Sýningin Burnout var stórskemmtilega í fyrra og þessi vafalaust ekkert síðri. 

Þeir hafa humor fyrir því óvenjulega úr því að minnsti Mini í heimi, bíllinn, sem notaður var sem bíll sérstaks saksóknara í Áramótaskaupinu, er þarna á sýningunni með öllum tilheyrandi merkjum. 

Hið besta mál að fara á þessa sýningu og njóta hennar. 


mbl.is Tryllitækin sýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin hlið atvinnuleysisins.

Miðað við það ástand sem áður var í atvinnumálum á Íslandi er atvinnuleysið í raun á Íslandi mun meira en 8,6% því að hefði fólk ekki flutt af landi brott í lengri eða skemmri tíma, væri þessi tala miklu hærri.

Í kreppuástandinu 1968-70 fluttu allmargir til útlanda en komu langflestir heim aftur þegar ástandið lagaðist á árunum 1970-1974. 

Hætt er við að kreppan verði mun lengri nú en þá því að ekki var hægt að tala um "Hrun" á árunum 1967-69.

Auk þess eru Íslendingar meiri heimsborgarar nú en þá og því ekki sami ljóminn yfir því og var að eiga heima langt frá öðrum þjóðum og una glaður við sitt eins og áður var. 

Verst er að gamla fólkinu fjölgar sífellt miðað við aðra aldurshópa og enda þótt því fjölgi líka í samkeppnislöndunum, halda þau þó í fólkið sem er á besta aldrinum sem gefur mest af sér í þjóðarbúið. 

Ég er samt ekki svartsýnn á framtíðina ef rétt verður á málum haldið. Olíukreppan mun leggjast æ þyngra á heimsbyggðina og í orkumálum eigum við Íslendingar einhverja bestu möguleika allra þjóða til þess að láta hana koma léttara niður hjá okkur en í öðrum löndum. 

En þá verðum við líka að gæta þess að snúa við á þeirri orkubruðslbraut sem við erum á á öllum sviðum. 


mbl.is Hætt við að færri komi aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband