Þolinmæðin þrautir vinnur...

Það er ástæða til að samgleðjast Eiði Smára Guðjonhsen vegna góðs gengis hans í fyrsta leiknum í 385 daga þar sem hann er í byrjunarliði.

Þetta er búinn að vera erfiður tími og hefur kostað mikla þolinmæði og þrautseigju fyrir hann að ná þessum áfanga og standa sig svo vel sem raun ber vitni. 

Eiður hefur að vísu unnið til allra þeirra verðlauna sem með nokkurri sanngirni er hægt að krefjast af nokkrum knattspyrnumanni í þessari vinsælustu íþrótt heimsins. 

Hann byrjaði mjög ungur, missti að vísu dýrmætan tíma úr, en gafst ekki upp. 

Eiður Smári er mannlegur eins og við öll og bæði vegna þess og einnig vegna þess að nú líður að seinni hluta ferils hans, þegar ekki er lengur hægt að búast við hinu sama og á hátindi ferilsins, tek ég hatt minn ofan fyrir honum fyrir það að gefast ekki upp þótt á móti hafi blásið. 

Að því líður að hann verði að sætta sig við það að aldurinn taki sinn óhjákvæmlega toll og þá er mikilvægt fyrir hann að enda hinn mikla glæsiferil á sem bestan hátt. 

Það vona ég að honum muni takast. 


mbl.is Johnson hrósaði Eiði Smára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer ekki eftir efnahag.

Stelsýki er eins og hver annar sjúkdómur sem fer ekki allt af eftir efnahag. Hjá sumum hefur þetta brotist út sem áhættusýki og þá hefur frægt og ríkt fólk verið nappað fyrir smástuldi rétt eins og bláfátækt fólk.

Þegar ég var í sveit fréttist af einum mesta efnabónda í landsfjórðungnum, sem stal snærishönk. 

Maður á lúxusjeppa, sem stelur blómum á föstudaginn langa, er haldinn sömu veilu og drykkfeldur umrenningur sem stelur smáaurum til að eiga fyrir sjúss.

Hjá slíkum manni er það að vísu drykkjusýkin, sem ræður öllu, samanber hin fleygu orð fornvinar míns, sem Bakkus kúgaði, en hann sagði þegar skellt var á hressilegri hækkun á áfengisverði: (hann var svoítið gormæltur) "Ómag, nú eg bgennivínið ogðið svo dýgt að maðug hefug ekki efni á að kaupa ség skó." 


mbl.is Á lúxusjeppa með stolin blóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir eru jafnari en sumir.

"Sumir eru jafnari en aðrir" segir í bók Orwells þar sem vitnað er í þau lög, að allir skuli jafnir.

En allt fram á okkar daga hefur víða ríkt ástand þar sem þessi orð eiga við í ýmsum blæbrigðum, allt yfir í það ástand í málum minnihlutahópa eins og samkynhneigðra, að "flestir eru jafnari en sumir." 

"Frelsi-jafnrétti-bræðralag" voru einkunnarorð frönsku stjórnarbyltingarinnar og í stjórnarskrá Bandaríkjanna stóð að allir menn væru jafnir, þar skyldi ríkja jafnrétti í hvívetna.

Annað kom þó í ljós varðandi þrælahaldið í Ameríku og þurfti borgarastyrjöld til að afnema það næstum 90 árum síðar og mikla baráttu öld eftir það til að afnema misréttið sem viðgekkst enn varðandi réttindi minnihlutahópa í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar.

Varðandi nýja stjórnarskrá Íslands þarf að huga að þessu. Þótt í henni myndi standa að á Íslandi skuli ríkja jafnrétti í hvívetna sýnir reynsla annarra landa að það er ekki nóg, heldur þarf að hafa til hliðsjónar mannréttindaákvæði í sáttmálum Sameinuðu þjóðanna, þar sem orðið hefur að hnykkja á þessu ákvæði varðandi hina ýmsu þjóðfélagshópa, svo sem fatlaða og samkynhneigða. 

Þótt Ítalía sé í ESB þar sem mannréttindi eiga að vera í hávegum höfð, ríkir enn misrétti hjá Ítölum, sem kemur glögglega í ljós varðandi deilur um auglýsingu IKEA í landi þeirra. 

Þegar andmælt er því að hafa upptalningu á helstu þjóðfélagshópunum í ákvæði um jafnrétti og mannréttindi er sagt, að slík upptalning auðveldi að stunda misrétti utan þeirra hópa sem taldir eru upp. 

En í sáttmála SÞ er sett undir þennan leka með orðunum "...svo sem..." á undan upptalningunni þegar rætt er um þjóðfélagshópana, sem nefndir eru. Sem sagt: Tryggt skal jafnrétti milli þjóðfélagshópa, "svo sem" vegna kyns, aldurs, stöðu, uppruna, fötlunar, kynhneigðar...o. s. frv. 

Ítalir standa enn á svipuðu stigi gagnvart samkynhneigð og Bandaríkjamenn gagnvart þrælahaldi allt fram yfir miðja nítjándu öld þrátt fyrir allt mannréttindahjalið. 


mbl.is Ikea-auglýsing fer fyrir brjóstið á Ítölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband