Vegir Drottins eru órannsakanlegir.

"Eftir því sem ég veit meira og uppgötva meira, því betur geri ég mér grein fyrir því hvað ég veit lítið" mun einhver frægur vísindamaður hafa sagt.

"Vegir Drottins eru órannsakanlegir" segir á öðrum stað. 

Engu að síður er það skylda mannsins að nema aldrei staðar í þekkingarleit sinni.

Kannski kemur sá tími þegar uppgötvuð verður tilurð áður óþekktrar orku, eðlisfræðilega séð, sem ég vil nefna mannshugann. Ég tel afar líklegt að sá náttúrukraftur" sé til og jafnvel mælanlegur.

Og þá kann jafnvel að verða stutt í það að það verði fundið út líka, að mannshugurinn sé aðeins hluti eða birting af alheimsanda eða alveldissál, eins og mig minnir að Einar Benediktsson hafi orðað það.


mbl.is Ný frumögn eða náttúruafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallegt og þarft vinabragð.

Ólafur Þórðarson á marga vini eftir langan og farsælan feril sem tónlistarmaður, útvarpsmaður og umboðsmaður margra skemmtikrafta. Hið mikla áfall, sem hann varð fyrir af völdum ógæfumanns, hefur ekki aðeins leikið hann hræðilega heldur fylgir slíku mikið fjárhagslegt áfall.

Þess vegna er það fallegt og þarft vinabragð að klára það verk, sem Ólafur hafði byrjað á, að halda þá tónleika sem voru hans hjartans mál.

Það er ekki aðeins þarfur og góður tónlistarviðburður heldur er einnig gott að ágóðinn af henni nýtist til að lina það fjárhagslega áfall, sem hinn hörmulega árás á Ólaf hefur valdið.


mbl.is Styrktartónleikar fyrir Ólaf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heima, frá vöggu til grafar.

Í aldir og árþúsund hafa börn fæðst og fólk andast á heima í faðmi fjölskyldunnar og svona var þetta hér á landi hjá allri alþýðu allt fram á síðustu öld. 

Miðað við þennan ógnarlanga tíma eru hinir síðustu áratugir mjög skammur tími í sögu mannkyns, sem þetta hefur breyst, þannig að nú fæðast menn og deyja á sérstökum stofnunum. 

Móðir mín heitin var fylgin sér og ákveðin kona og þegar hún átti mig, var hún ekki sátt við þáverandi yfirlækni á fæðingardeildinni eftir að hafa kallað hann fyrr á meðgöngutímanum heim til sín upp í lítið herbergi á hanabjálka í timburhúsi við Lindargötu, þegar leit út fyrir að hún myndi missa fóstur eftir að hafa dottið í stiganum upp í risið. 

Læknirinn kom og skoðaði hana, en þegar hann var að kveðja leigusalann frammi á gangi sem lýsti kjörum unga kærustuparsins, þau ættu ekki neitt og tímarnir væru erfiðir (des ´39) heyrðist hann muldra: "Þú kallar á mig þegar það kemur."

Þetta heyrði móðir mín, reis upp í rúminu og kallaði: "Ef þér farið héðan eruð þér morðingi!" Það var ekkert verið að skafa utan af hlutunum! 

Hann kom inn og gaf henni sprautu og fór ekki fyrr en hún leyfði það. Hún fór síðan á fæðingadeildina til þess að eiga mig, en eftir þetta átti hún næstu fjögur systkin mín heima í heimahúsi því að hún var ekki sátt við yfirlækninn. 

Ég man ekki eftir því þegar Edvard og Jón fæddust, því ég var svo ungur þá, og þegar Guðlaug fæddist, var ég í sveit. 

En ég man vel eftir því þegar Ólöf systir mín fæddist og það verður mér ævinlega ógleymanlegt, - ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að upplifa slíkan atburð í þessu umhverfi. 

Þá var ég tæplega átta ára og þessi atburður var eftirminnilegasti atburðurinn, sem ég upplifði á æskuheimili mínu. 

Yngstu systur mína, Sigurlaug, átti móðir mín síðan á fæðingardeildinni, enda 24 ár frá fæðingu elsta barnsins, og rykið, sem þyrlaðist upp eftir atburðinn 1939, hafði sest.

Ég tel að enda þótt enginnn deili um það að tæknilega sé best að fæðing og dauði eigi sér stað í besta læknisfræðilega umhverfi við bestu fáanlegu umönnun, sé í því fólgin óæskileg firring að jafn eðlilegir atburðir og fæðing og dauði hafa verið fjarlægðir af heimilunum. 

Ég byggi það á reynslu minni af því að hafa verið viðstaddur fæðingu í faðmi fjölskyldunnar. 

Það var óviðjafnanlegt. 

 


mbl.is Eiginmaðurinn tók á móti barninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband