Vegið úr launsátri.

Að fornu var gerður greinarmunur á drápi á mönnum eftir því hvort sá, sem vó annan mann, viðurkenndi verknaðinn eða hvort hann leyndi nafni sínu.

Til að þetta væri á hreinu lýstu menn vígi á hendur sér ef til þessa kom, en ef þeir leyndu því, var það talið morð og hið versta mál. 

Ástæðan var sú að menn voru vegnir samkvæmt mælikvarða þeirra tíma réttlætis, að hefna mætti fyrir víg á svipaðan hátt og dómstólar dæma í sumum ríkjum morðingja til lífláts.

Á okkar dögum er það í stjórnarskrám að tjáningar- og skoðanaferli er virt, en ef menn vega að mannorði annarra verði þeir að ábyrgjast það fyrir dómi ef dómsmál verður höfðað. 

Nafnleynd kann að vera nauðsynleg í afmörkuðum tilfellum til þess að koma á framfæri upplýsingum án þess að eiga á hættu ofsóknir vegna þess. 

En nafnleynd af því tagi, sem því miður veður uppi á netinu, þar sem menn nýta sér hana til að ausa óþverra yfir samborgara sína er allt annars eðlis. 

Þeir sem skjóta sér á bak við slíka nafnleynd þora ekki að standa fyrir máli sínu, heldur stunda þeir á stundum mannorðsmorð, svo að það er hliðstætt við morð sem framin voru úr launsátri til forna. 

Um leið og þeir gera þetta skaða þeir þá, sem nota netið á heiðarlegan hátt og koma óorði á það. 

Það er allt of mikið af þessu því það væri slæmt ef þetta verður til þess að skerða heiðarlegt frelsi til tjáningar og samskipta á netmiðlum.

Of margir láta það freista sín til að fara hamförum að þessu leyti, að þetta "selur" hina ljótu afurð, samanber það að fréttin um ljóta hegðun á Fésbókinni sé mest lesin í dag. 

 

 

 


mbl.is Ljót hegðun á Fésbókinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf "slæmt lestrarveður" í maí.

Í minningunni var alltaf "slæmt" veður til að lesa fyrir próf þegar ég var ungur. Þurfti alltaf að vera sólskin, logn og hiti.

Auðvitað var þetta ekki alveg svona en maí eru nú einfaldlega einn af þremur björtustu mánuðum ársins, hæstur loftþrýstingur og meira um það að í gangi sé norðlæg eða norðaustlæg vindátt hér syðra en í öðrum mánuðum.

Eina undantekningin sem ég man eftir var einhvern tímann á síðasta árutug liðinnar aldar, þegar voru þokur og súld meginhluta maí.

Þetta góða maíveður átti kannski sinn þátt í því að ég varð ekki lögfræðingur.

Ég sat einn svona maídag í húsi sem ætlað var laganemum við Aragötu og las kröfurétt fyrir fyrrihlutapróf í lögfræði.

 Ég horfði út um gluggann yfir í Vatnsmýrina þar sem fuglar sungu í logni, sólskini og hita.

Allt í einu tók ég ósjálfrátt viðbragð, lokaði bókinni, stóð upp og gekk út í vorið með þá skyndileg en skýru ákvörðun í huga, að það að kunna kröfurétt út í hörgul yrðu ekki örlög mín. Síðan hef ég aldrei stigið fæti inn í þetta hús við Aragötuna.

Til útskýringar má geta þess að ég var kominn býsna langt, búinn með "fýluna", hagfræði og almenna lögfræði og kominn af stað í þessu fyrrihlutaprófi og þetta var því býsna örlagarík ákvörðun.

En kröfuréttur þótti mikið torf og þjónaði svipuðum tilgangi og anatómía í læknisfræði sem þolraun fyrir nemendur þessara fræða.

Eftir að kröfurétturinn hafði verið innbyrtur sem og fyrrihlutaprófið var maður að byrja að verða "jússósa" og öðlast "júridískan þankagang."

Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Á þessum tíma var ég kominn upp fyrir haus í verkefnum sem skemmtikraftur, leikari og texta- og tónsmiður og nokkrum árum síðar datt ég inn í sjónvarpið þar sem stærstur hluti ævistarfs, sem ég hafði aldrei ætlað mér, beið mín.

Ég ætlaði á þessum árum að fara út í pólitík og laganámið var þá algengasta leiðin. Mér fannst stjórnarfars- og stjórnskipunarréttur skemmtilegar greinar en kröfurétturinn var önnur Ella.

Ef til kennd hefðu verið stjórnmálafræði við Háskólann hefði ég farið í þau og þá líklegast út á þá braut í lífinu.

Nú sýsla ég um hríð á gamals aldri við þessi fræði með mjög góðu fólki og það er engin hætta á að ég standi hér upp og gangi út í bjart vorið frá þessu verkefni.


mbl.is Próflestur í sól og sumaryl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almennt hrun trausts og virðingar.

Hrunið var ekki aðeins efnahagshrun eða eingöngu fyrir tilverknað "óreiðumanna." Það var siðferðishrun, sem átti aðdraganda í talsverðan tíma þegar skammtímagræðgi, sjálftökufíkn og tillitsleysi réðu ríkjum. 

Lágar prósentutölur, sem nú koma fram í skoðanakönnunum á trausti og virðingu ýmissa stofanana og sviða þjóðfélagsins bera þessu vitni. 

Þjóðarátak þarf til þess að snúa þessu við.


mbl.is Alþingi hefur glatað virðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband