Svipuð tímamót og fyrir 61 ári.

Ég man það vel þegar Þjóðleikhúsið var vígt á sumardaginn fyrsta 1950. Bygging þess húss var svo stórt stökk fram á við í íslenskri menningu að annað eins hefur ekki gerst aftur fyrr en nú.

Bygging Þjóðleikhússins tók tólf löng ár og byrjað var í því í kreppu, sem var slík, að orðið kreppa um síðustu ár á varla við. 

Mörgum fannst Þjóðleikhúsið ofætlun fyrir fátæka þjóð í kreppu í landi malarvega og troðninga. 

Munurinn á því og Iðnó var slíkur, að varla var hægt að tala um bæði húsin í sömu setningu. 

Vigsla hússins markaði slík tímamót, að ég valdi hana sem einn af hundrað merkilegustu fréttum síðustu aldar í hundrað smáþáttum um það efni. 

Stríðsgóðinn bjargaði Þjóðleikhúsinu og fróðlegt er að sjá í grein eftir Þröst Ólafsson að 40% af kostnaði við Hörpu hafi í raun komið úr vösum þeirra útlendinga sem lögðu fé sitt inn á Icesave og töpuðu mestu af því. 

Sé það rétt eiga Bretar og Hollendingar talsvert í þessu húsi og má kannski þakka fyrir að þeir geti tekið húsið upp í skuld! 

Ég hef fært að því rök að mörgum sinnum ódýrara hús á borð við Ólafshöllina í Þrándheimi hefði nægt til að þjóna þeim þörfum sem Harpa á að gera. 

Hafði raunar fyllst skömm við að koma tvívegis til Þrándheims og sjá hvernig frændur okkar þar, sem búa í sambærilegustu byggð við Reykjavíkursvæðið sem finnst í heiminum, höfðu orðið langt á undan okkur til að reisa jafn þarft og sjálfsagt hús. 

Nú er út í hött að fjasa um slíkt, heldur fagna því að dýrlegur draumur um svona hús skuli loksins hafa ræst og sameinast um að gera veg þessa húss sem musteri íslenskrar tónlistar sem mestan. 

 


mbl.is Harpa tekin formlega í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kjörin harðstjórn."

Í greinargerð Sigurðar Líndals, prófessors, sem fylgdi gögnum þeim er Stjórnlaganefnd lét Stjórnlagaráði í té, nefnir hann hugtakið "kjörin harðstjórn."

Með því á hann við það að í þjóðfélagi með lýðræðisskipulagi geti verið sú hætta fyrir hendi að einn maður eða fámenn valdaklíka nái slíku heljartaki á þjóðfélaginu að smám saman fari þegnarnir að hætta að gera neitt það sem þeir halda að valdsherrarnir líti hornauga. 

Það er matsatriði hvar menn draga mörkin á milli harðstjórnar og styrkrar stjórnar. Harðstjórn, það að stjórna með harðri hendi, getur falist í fleiru en að fangelsa menn eða hefta ferðafrelsi þeirra.  

Þegar slík stjórn veldur því að menn, stofnanir og fyrirtæki eru "sett út í kuldann" og refsað á ýmsan hátt fyrir að vera ekki harðstjóranum þóknanleg í skoðunum eða athöfnum á skilgreiningin "harðstjórn" rétt á sér. 

Á tímabilinu 1999 til 2008 ríkti harðstjórn á Íslandi. Fyrri hluta tímabilsins var það ofurveldi eins manns með atbeina fóstbróður hans, sem skóp óttablandna þöggun á ótrúlega mörgum sviðum þjóðlífsins."

Þetta var þó "kjörin harðstjórn" því að þjóðin kaus tvívegis þá flokka til meirihluta á Alþingi, sem þessir menn voru búnir að svínbeygja svo mjög, að enginn þorði að æmta né skræmta í þingflokkum þeirra þótt tveir menn ákvæðu rétt si svona dag einn í mars 2003 að Ísland skyldi láta skrá sig á lista "viljugra þjóða" sem styddu ólöglega hernaðarinnrás inn í fjarlægt land. 

Síðari hluta tímabilsins tók síðan við ofurvald Græðgisbólunnar sem þessir tveir menn höfðu staðið að stórum hluta á bakvið með sjálftöku og einkavinavæðingu bankanna. 

Satt er það líklega, að engin stjórnarskrá getur komið í veg fyrir "kjörna harðstjórn." 

Hins vegar getur góð stjórnarskrá, þar sem leitast er við að dreifa valdinu, takmarka það í tíma og rúmi og auka siðferðilegar kröfur, unnið gegn því að grundvöllur til harðstjórnar og spillingar myndist.

Spillt valdakerfi í kringum einn mann hefur verið í Rússlandi. Það væri enn verra ef ekki hefði verið bannað í stjórnarskrá að sami maður gegndi forsetaembætti í meira en 8 ár í senn. 

Þess vegna getur núverandi forseti varað við því að valdafíkinn fyrrverandi forseti byggi upp aukna "kjörna harðstjórn." 


mbl.is Medvedev varar við samþjöppun valds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ofangreind orð eru rússneskt máltæki. Þegar Hrafn Gunnlaugsson var í heimsókn í Sovétríkjunum sálugu á tímum Glasnost og Perestroiku var hann mjög forvitinn um það sem væri að gerast þar undir handleiðslu Gorbatsjovs.

Hann sagði mér frá því að þrátt fyrir að alræðisstjórnin væri að sleppa tökunum væri fólk þar eystra enn smeykt við að segja eitthvað opinberlega um pólitík. 

Undir járnhælnum hafði þjóðin hins vegar fundið leið til að komast hjá þessu en segja samt eitthvað. 

Það fólst í því að neita því að segja neitt sjálft um viðkomandi mál eða atriði en vitna hins vegar í eitthvert rússneskt máltæki. 

Hrafn sagðist hafa spurt einn viðmælenda sinna hvað hann héldi um framhald mála þar eystra. Viðmælandinn sagði: "Ég vil ekki segja neitt sem hægt er að hafa eftir mér. Hins vegar er til rússneskt máltæki, sem hljóðar svona: "Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp." 

Hann reyndist sannspár. Í kjölfar falls kommúnismans fylgdi 

Þetta kemur upp í hugann þegar New York Times fjallar um það þegar Ísland þiðni. 

Frá Hruni hefur verið frosin jörð gjaldeyrishafta og kreppu en ekki er að sjá neina hugarfarsbreytingu í samræmi við tilefnið. Þegar Ísland þiðnar muni því ormarnir koma upp. 

Dæmi Guðfinns bílasala sýnir í hnotskurn hvernig hægt var að blása upp ægilega gróðærisbólu sem var að mestu aðeins á pappírunum og í exelskjölum, án þess að raunveruleg verðmæti stæðu að baki.

Hannes Smárason lýsti þessu blákalt í tímaritsviðtali í ársbyrjun 2007, hvernig hann verslaði með fyrirtæki fram og til baka, keypti og seldi hluti í þeim á víxl, og við hvern gerning var hægt að búa til á pappírum tuga og hundraða milljarða viðskiptavild sem skóp gróða, byggðan á blekkingum. 

Nú munu ormarnir sækja í orkuauðlindir landsins sem aldrei fyrr og afleiðingarnar af því hruni, sem leiða mun af því fyrr eða síðar, verða því miður óafturkræfar að miklu leyti um alla eilífð. 

Á sínum tíma voru gjaldeyrishöft og handstýrt gengi hér og jörðin frosin. Síðan var losað um það og þá komu ormarnir heldur betur upp. 


mbl.is „Ísland er að þiðna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband