Margt er skrýtið í ....

Yfirlýsingar íranskra leiðtoga eru oft á tíðum býsna skrýtnar, svo skrýtnar á stundum, að minnir á orðtakið  um kýrhausinn.

Ef Kanar höfðu Osama á valdi sínu áður en þyrlurnar lentu að næturþeli og ráðist var inn í bygginguna, sem Osama var í, nálægt miðju landi og rétt hjá stöðvum hersins, hvers vegna voru þeir þá í þeim leiðangri? 

Leiðangurinn sá arna hefur valdið því að nú er stirðari sambúð á milli Bandaríkjanna og Pakistan en nokkru sinni fyrr og því arfavitlaust að búa til svona leiðangur á þennan stað. 

Í 60 mínútum síðdegis jafnaði Andy Rooney láti Osama við lát Hitlers og lagði þá að jöfnu. Það taldi Rooney að réttlætti það að fögnuður ríkti yfir drápi Osama.

Obama sagði að réttlætinu hefði verið fullnægt með drápinu og 3000 manna, sem drepnir voru 11. september 2001 "hefði verið hefnt."

Þetta tel ég hæpið úr munni manns sem fékk friðarverðlaun Nóbels og tel það raunar aldrei fagnaðarefni að maður sé drepinn. 

Hitler lét beinlínis drepa 6 milljón Gyðinga í samræmi við þá stefnu að útrýma öllum Gyðingum, og stríðsstefna hans leiddi tugi milljóna í dauðann. 

Einhverjir kunna að segja að Osama bin Laden hefði látið drepa milljónir ef hann hefði getað það, en það eru ekki gild rök að mínu mati. Með sömu röksemdafærslu hefði verið hægt að sakfella Hitler fyrir þá löngun sína að drepa nokkrar milljónir Gyðinga í viðbót. 

Hefndarhugur er einhver hættulegasti eiginleiki mannsins og hefur valdið og veldur enn ómældu tjóni. 

Þetta rann upp fyrir mér þegar gömul kona í Demiansk í Rússlandi sagði mér að þýsku hermennirnir, sem hersátu bæinn og voru þar innikróaðir hefðu ekki verið það sem fólkið þar hræddist mest þótt Hitler hefði gefið út þá skipun að leyfilegt væri að skjóta hvern þann sem hermenn lysti. 

"Við vorum miklu hræddari við Finnana," sagði gamla konan, "þeir voru vitskert villidýr." 

Það rann ekki alveg strax upp fyrir mér hvers vegna þetta gæti verið satt en síðan lá það nokkuð ljóst fyrir.  Þýsku hermennirnir voru ungir menn sem höfðu verið sendir í fjarlægt land á vit þjóðar sem þeir vissu ekki að þeir ættu neitt sökótt við.

Finnarnir voru hins vegar að hefna harmanna frá vetrarstríðinu við Rússa tveimur árum fyrr. 


mbl.is Íranar segja Osama hafa verið fanga Bandaríkjamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spár Braga Árnasonar.

Fyrir nær 30 árum spáði Bragi Árnason prófessor því að notkun á vetni og fleiri nýjum kostum við orkunotkun myndi koma til sögunnar og þyrfti að koma til sögunnar sem fyrst.

Bragi var talinn setja fram óra en annað kom í ljós og í umfjöllun erlendra fjölmiðla um þessi mál er hans getið. 

Fyrir nokkrum árum tók Ari Trausti Guðmundsson viðtal við Braga sem spáði því að eina leiðin út úr orkukreppu mannkyns væri beislunn sólarorkunnar sjálfrar. 

Þessi ummæli vöktu enga athygli og í hugum þeirra sem á hlýddu líklega enn um hreina draumóra að ræða. Eða hvað?  Það skyldi þó aldrei vera að hann sé enn langt á undan sinni samtíð?


mbl.is Sólarvélin lent í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofan við miðju.

Söngvakeppni Sjónvarpsstöðva Evrópu hefur þanist út með árunum og þess vegna er 20. sætið hjá íslensku þátttakendunum í rúmlegu meðallagi miðað við keppnina síðustu 25 árin.

Það setur leiðinlegan svip á stigagjöfina að þjóðir mynda með sér augljósar blokkir og það voru mörg tilfelli í kvöld þar sem þjóð gaf efstu stigin til þeirra landa sem áttu landamæri með henni. 

Einkum var þetta áberandi í syðri og eystri hluta álfunnar en líka of áberandi hjá Norðurlandaþjóðunum, þar sem Íslendingar tók þó á sig rögg og gáfu stig til einnar af þeim þjóðum sem lengst er frá Íslandi. 

Til að milda aðeins það, sem sagt er um blokkamyndun þjóða verður þó að geta þess að  menningarheimar ráða miklu eins og til dæmis menningarheimur Norðurlanda. 

Þannig var lagið "Eitt lag enn" undir augljósum sænskum áhrifum og er besta "Geirmundarlagið" sem hann hefur ekki samið sjálfur, heldur einn af hljóðfæraleikurunum sem lék í hljómsveit hans, Hörður Ólafsson.

Á þeim tíma sem Eitt lag enn var við toppinn þurftu þjóðir að flytja lög á eigin tungumáli og auðvitað háði það Íslendingum alveg sérstaklega vegna þess að aðeins 0,005% Evrópubúa skilja íslensku. 

Ef lagið hefði verið sungið á ensku er hugsanlegt að það hefði sigrað. 

Mér fannst vænt um það nú að lög sem ekki hafa verið talin "Eurovisionlög" komust sum hver vel áfram eins og til dæmis ítalska lagið, sem féll mér auðvitað afar vel í geð. 

Ástæðan er vonandi sú að of mikil einsleitni og stöðlun á því hvað sé gott Eurovisionlag geti valdið offramboði af líkum lögum, sem skemma fyrir hvert öðru. 

Íslenska lagið var öðruvísi en diskókennda tónlistin sem er svo áberandi á okkar tímum og hefur sennilega grætt á því þegar upp var staðið. 

 

 


mbl.is Ísland endaði í 20. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband