"Byssuglaðir freta í flýti..."

Mér sýnist útséð um það hér eftir að  öðru vísi verði brugðist við komu hvítabjarna til landsins en að skjóta þá hið snarasta og frábært er þegar drápið gerist á sama sólarhringnum og Osama bin Laden er stútað. 

Í fyrri tilfellum hefur ástæðan fyrir þessari byssugleði verið sögð sú að dýrið ógnaði fólki eða fénaði. 

Þetta dýr kom hins vegar á land eins langt frá fólki og fénaði og hugsanlegt var, á friðlandi Hornstranda þar sem næsta byggð er í 60-90 kílómetra fjarlægð eftir því hvort miðað er við loftlínu eða eðlilega leið dýrsins.

Meðan vitað var af dýrinu í þessu stóra friðlandi, gátu ferðamenn forðast að vera þar á ferð. 

Spáð er sæmilegu veðri og þótt ekki hefði verið hægt að fylgja bangsa eftir allan sólarhringinn hefði verið hægt að tékka á hinni 6-7 kílómetra Skorarheiði, sem liggur á milli Hrafnsfjarðar og Furufjarðar og suðurströnd Hrafnsfjarðar, ef dýrið synti yfir þann fjörð. 

Fuglafræðingar geta merkt fugla með litlum sendum sem nýtast sem staðsetningartæki og enda þótt bjardýrið hefði verið utan við svið gervitungla norðanmegin á Hornströndum hefði það væntanlega strax komið inn á skjáinn ef það hefi fært sig sunnar á svæðinu. 

Áhuginn á því að fanga svona dýr og flytja það virðist ekki nægur, því að það kostar peninga og fyrirhöfn. 

Nú er ekki 2007 og enginn sem vill kosta slíkt. Þar með eru örlög bjarndýra, sem ganga hér á land, ráðin og um þennan sólarhring drápanna má kveða: 


Byssuglaðir freta í flýti

feikna heppnir. 

Bin Laden og björninn hvíti 

báðir drepnir ! 


mbl.is Ísbjörninn kominn til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sporin frá 1978

Á útmánuðum 1979  lenti ég flugvél í Hornvík, næstu vík við Hælavík, og við Sigmundur Arthursson gengum þaðan upp á Hornbjarg þar sem jörð var snævi þakin.

Þar gengum við fram á svo stór spor eftir dýr, að það hlaut að vera mun stærra dýr en refur og tókum mynd af sporunum, sem við notuðum í heimildarmyndina "Eyðibyggð." 

Þetta voru köld ár, einkum árið 1979, og hafís rak að landinu. Það var því líklegt að bjarndýr kæmi á land. 

Nú eru hins vegar hlý ár en samt ganga bjarndýr á land. Það gæti bent til þess að rót sé komið á stofninn vegna breyttra skilyrða í sjó og í lofti. Um það er þó ómögulegt að segja. 

Í þetta sinn gildir ekki sú afsökun fyrir því að fella þetta dýr að það ógni fólki eða fénaði. Hornstrandir eru eyðistrandir þar sem hvorugt er fyrir hendi. 

Það þarf því að taka sér góðan umhugsunartíma áður en það yrði tekið til bragðs að fella björninn og leita ráða til að koma honum út á ísbreiðuna, til dæmis með því að flytja hann deyfðan í þyrlu. 


mbl.is Hressilegur hvítabjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður píslarvottur.

Che Geavara varð að píslarvætti eftir að hann var felldur á sjöunda áratugnum. Í hippabyltingunni og lengi á eftir bar uppreisnargjarnt fólk mynd hans framan á sér á sérstökum bolum.

Svipað mun gerast um Osama bin Laden. Þegar ég var í Mósambík fyrir allmörgum árum dansaðaði sérstök sveit dansara fyrir framan utanríkisráðherra Íslands á samkomu, sem haldin var honum til heiðurs. 

Einn dansaranna var í treyju með stórri mynd af Osama bin Laden framan á ! 

Með Osama bin Laden er genginn illvirki en engu að síður verður erfitt að losna við hann, þótt líki hans hafi verið sökkt í sæ. 


mbl.is Líki bin Laden sökkt í sæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband