82 milljarðar !

Bakkus er harður húsbóndi. Það eru gömul og ný sannindi sem spegluðust í úttekt, sem birt var í Kastljósi kvöldsins.  Ég segi Bakkus, því að hann stendur á bak við nær alla neyslu fíkniefna, sem byrjar yfirleitt á neyslu áfengis.

Það er gott að loksins sé fórnarkostnaðurinn vegna fíkniefnanna reiknaður út í beinhörðum peningum og látið koma fram að Bakkus og hirð hans með 82ja milljarða kostnað fyrir þjóðfélagið á ári, sé mun dýrari en öll framlög til menntamála og vegamála samtals. 

Heilbrigðisráðherra stóð sig að mínu mati jafn vel í Kastljósi í kvöld og landlæknir stóð sig illa um daginn. Guðbjartur er að stimpla sig inn sem einn af kandidötunum til arftaka Jóhönnu Sigurðardóttur þegar þar að kemur.
mbl.is Stórefla þarf eftirlit með lyfjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær staðsetning.

Þegar um er að ræða alþjóðlegar ráðstefnur þar sem koma saman gestir austan og vestan Atlantshafsins er Ísland augljóslega ákjósanlegur kostur rétt eins og það var þegar leiðtogafundurinn frægi var haldinn í Höfða 1986.

Ekki mun af veita að efla stöðu landsins að þessu leyti ef litið er til þess hve miklu hlutverki ferðaþjónusta þarf að gegna varðandi rekstur Hörpu ef húsið á ekki að verða stór fjárhagslegur baggi á þjóðinni.

Harpa þarf að keppa við Osló og Kaupmannahöfn þar sem ný og stórbrotin tónlistarhús hafa risið á undanförnum árum og mikils um vert að allt verði gert sem unnt er til að efla rekstur hússsins. 

 


mbl.is Ísland með bestu ráðstefnulöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmsar spurningar varðandi Hess.

Flugferð Rudolfs Hess til Bretlands 10. maí 1941 hefur lengi verið einn af dularfyllstu atburðum stríðsins og raunar dæmalaust í heimssögunni að staðgengill valdamesta manns heims fari slíka ferð.

Ýmislegt hefur verið skrýtið við þessa ferð, til dæmis það hvernig það mátti verða að Hess gæti tekið heila tveggja hreyfla herflugvél traustataki og flogið henni svo langa leið yfir eigin landi og síðan allt norður til Skotlands. 

Einnig það að það liðu tveir sólarhringar þar til stjórnvöld í Þýskalandi sögðu eitthvað um málið. Þá var loks í yfirlýsingu gefið í skyn að Hess hefði misst vitið nánast eins og um ofskynjanir væri að ræða. 

Það hefði verið afar mikils virði fyrir Þjóðverja að fá Breta til liðs við sig á þessum tíma og ekkert óraunhæft að halda að þeir væru til í það. 

Nokkru fyrr þetta vor hafði Charles Lindbergh haldið ræðu í Bandaríkjunum og gagnrýnt Breta fyrir að etja þjóðum Evrópu í vonlaust stríð gegn Þjóðverjum.  Ástæðan lá þá ljós fyrir: Þjóðverjar höfðu vaðið yfir Balkanskagann og Bretar farið þar herfilegustu hrakfarir. 

Hér heima á Íslandi voru Bretar að leggja veg ofan byggða milli Elliðaárdals og Hafnarfjarðar sem hlaut heitið "Flóttamannavegur" í munni Íslendinga, því að auðséð væri að Tjallarnir ætluðu að nota hann á flótta undan Þjóðverjum þegar þeir kæmu. 

Áhrifamiklir aðilar höfðu árum saman verið hallir undir Þjóðverja meðal Engisaxnesku þjóðanna. Joseph Kennedy sendiherra Bandaríkjamanna í London hafði talið ráðlegast fyrir Breta að þiggja boð Hitlers í júlíbyrjun 1940 þar sem hann sagðist "höfða til skynseminnar" og bauð Bretum frið með loforði um að í staðinn myndu Þjóðverjar vernda breska heimsveldið og eyða hverjum óvini þess. 

Játvarður konungur hafði verið hallur undir Þjóðverja og þegar Þjóðverjar gersigruðu Frakka í júní 1940 voru uppi raddir meðal ráðamanna í Bretlandi að skoða það að semja frið. 

Sjálfur hafði Winston Churchill viðhaft hin verstu orð um Stalín og ógnarstjórn hans. 

En hann var samt aldrei í vafa hver stefnan ætti að vera og valið væri einfalt: Nasisminn og stefna Hitlers væri með slíkum eindæmum villimannleg að aldrei skyldi við það unað. 

Hess flaug til Bretlands sjö vikum áður en innrásin í Sovétríkin hófst og ljóst virðist að hefðu Bretar þá gengið til liðs við Þjóðverja eða samið við þá frið hefði það ráðið úrslitum um leifturstríðið sem í vændum var. 

Þegar Bretar lýstu umsvifalaust yfir stuðningi við Rússa eftir innrásina var Churchill spurður hvort það skyti ekki skökku við að gerast vinur Stalíns sem hann hafði formælt svo mjög áður.

Churchill var fljótur til svars: "Nasisminn er þvílík villimennska að þótt ég þyrfti að gera bandalag við Djöfulinn sjálfa gegn honum, þá myndi ég áreiðanlega finna einhver vinsamleg orð til að segja um hann í neðri málstofunni."


mbl.is Hitler vissi um flugferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband