"...ástir, slagsmál og vín!"..."

Ef einhverjir halda að það sé einsdæmi að lofa fíkniefni í söngvum og tónlist eins og dæma á menn fyrir í Mexíkó, hefur sá hinn sami ekki kynnt sér mörg af þeim dægurlögum, sem vinsæl hafa verið á Íslandi.

Tilvitnanirnar geta orðið ótal margar, allt frá "...látum því, vinir, vínið andann hressa..." hjá Jónasi Hallgrímssyni í Vísum Íslendinga. 

Hægt er að bæta nokkum við: "Það var karl sem að kunni að / kyssa, drekka og slást!" 

"Enda sagði´hann það oft: Það er ánægjan mín / ástir, slagsmál og vín." 

Skipstjóravalsinn er gott dæmi: 

"Oft er vandi að verjast grandi / ef víðsjál reynist dröfn.

Þá fæ ég mér snabba ef karlarnir kvabba / og keyri sem hraðast í höfn.

Þar fæst dans og glens og gaman, 

gleðin hýr úr augum skín. 

Við dönsum og syngjum þar saman

við seiðandi meyjar og vín."

 

Svo held ég aftur á hafið,

í hættunni búinn til alls. 

Við rattið þá í rokinu stend ég 

og raula minn Skipstjóravals." 

 

Lýsingin er opinská. Draugfullur skipstjóri lætur kvabb skipverjanna engin áhrif hafa á sig, heldur stýrir skipinu rallhálfur til hafnar, lendir þar á kvennafari og fylleríi og fer jafn brattur út aftur í hættulega siglingu.  

Prófið þið að setja flugstjóra í staðinn fyrir skipstjóra og þotu í stað skips í þessum texta og þá sjáið þið hvað ég meina. 


mbl.is Bannað að syngja um dóp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðja heims þjóð?

Ég er að lesa kafla í bók Eiríks Bergmanns Einarssonar sem heitir "Sjálfstæð þjóð" og fjallar um það hvernig Íslendingar fóru með himinskautum í aðdraganda Hrunsins, töldu sig nánast yfirburðaþjóð, sem landshagir og saga hefðu lyft upp í atgervi svo að annað eins þekktist ekki í heiminum.

Í þessum bókarkafla er, eðli máls samkvæmt, raðað helstu einkennum, ummælum og gerðum okkar frá þessum árum og fyrir bragðið verður hann svo fáránlegur, svo hlægilegur og grátlegur í senn að maður kemst hreinlega við sem Íslendingur.

Svo er að sjá af þessum ummælum að umsvif Íslendinga í Danmörku væri hugsuð sem hefnd fyrir alda langa kúgun, maðkað mjöl og hvaðeina með því að kaupa það upp í Danmörku, sem okkur sýndist, enda værum við yfirburðaþjóð, einstæð í verlöldinni og segðum það hver upp í annan og

Sem dæmi má nefna að þegar Íslendinga hugðust hefna fyrir 14:2 hrakfarirnar á Parken 2006 en hinir íslensku áhorfendur sáu fram á enn einn niðurlægjandi ósigurinn á leikvellinum, fóru þeir að syngja einum rómi: "Ve vil köbe Parken!"

Það átti að segja Dönum, að við myndum hefna líka öllum, hvar sem við kæmum, allt frá forsetanum til áhorfenda að knattspyrnuleikjum á erlendri grund. 

Í bókinni er rakin söguskoðun Jóns Jónssonar Aðils sem skipti þjóðarsögunni í fjóra kafla, gullöldina til 1262, hnignunarskeiðið 1262-1550, niðurlægingarskeiðið 1550-1750 og endurreisnarskeiðið eftir það.

Á gullöldinni voru Íslendingar með glæsilegustu þjóðarhagi og atgervi sem þekkst hafði allar götur til Rómaveldis og Forn-Grikkja, síðan komu hnignunarskeið og niðurlæginartímabil, að mestu að kenna vondum útlendingum, og loks endurreisnarskeiðið þar sem framsækin þjóð barðist við erlenda kúgara. 

Þegar farið er hratt yfir árin 2003-2009 liggur við að þjóðin hafi farið í gegnum þrjú fyrstu skeiðin á ljóshraða og sé nú á niðurlægingarskeiði, sem speglast í fréttum hvers einasta dags, svo sem eins og í dag: Læknaskortur og íslendingar meðhöndlaðir eins og þriðja heims þjóð á skipi, sem heldur uppi samöngum við landið. 

Spurningin er hins vegar, burtséð frá réttmætri andspyrnu við illa framkomu við íslenska farmenn, hvort við getum í þetta skipti reynt að líta aðeins meira í eigin barm og skoðað, hvort við vorum og erum slík yfirburðaþjóð, sem við höfum talið okkur hafa verið á Þjóðveldisöld og Gróðabóluárunum eða hvort við ætlum nú loks að læra eitthvað af þeim ósköpum sem þjóðarsagan fyrr og síðar á að geta kennt okkur. 

Hvort eigum framvegis kost á því með því að líta í eigin barm að komast hjá því að lenda í aðstæðum, sem þriðja heims þjóðir svokallaðar þurfa að sætta sig við. 


mbl.is Mótmæla lægra kaupi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldahvörf óhjákvæmleg.

Velsæld olíualdar hefur náð hámarki og leiðin liggur aðeins niður á við. Ef reynt er að fresta því verður fallið niður á við aðeins hraðara og afleiðingarnar verri þegar ósköpin dynja yfir. 

Mikilvægasta verkefni hagvísindanna verður því að finna aðra leið en endalausan hagvöxt til að tryggja hamingju jarðarbúa. 

Ráðamenn í lýðræðisríkjum er um megn að grípa til raunsærra ráða því að þeir horfa aðeins fjögur ár hið mesta fram í tímann. 

Það á líka við um íslenska ráðamenn, sem eru enn fastir í gróðasókninni sem skóp Hrunið í stað þess að setja af stað markvissa umbreytingu í orkubúskap og þjóðlífi sem nýtir sér þá einstöku stöðu sem við höfum varðandi innlenda og endurnýjanlega orkugjafa, sem hægt er að nýta án þess að fórna fyrir það ómetanlegum náttúruverðmætum landsins og bera hagsmuni komandi kynslóða fyrir borð.


mbl.is Eldsneytisverðið lamar efnahag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband