Ólíkt veðurfarinu í fyrravor.

Í fyrra voraði afar vel. Stórir hlutar hálendisins voru orðnir auðir í apríl og langir kaflar komu í maí þar sem mjög hlýtt var á norðausturlandi og hægt að lenda af öryggi á Sauðárflugvelli, sem er í 660 metra hæð á Brúaröræfum, 6. júní.

Nú er annað tíðarfar en þó er hálendið autt á svæðinu frá hringveginum á Mývatnsöræfum alla leið inn fyrir Herðubreiðarlindir. 

Og fyrir viku var Sauðárflugvöllur alauður og líklega hægt að lenda á honum, þótt það væri ekki gert. 

En svona er íslenskt veðurfar og hefur alltaf verið. Sumarið á eftir að koma eins og venjulega og það fyrr en siðar. 


mbl.is Esjan alhvít
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandfangari við Landeyjahöfn ?

Sandfangarinn svonefndi við Vík á sér margar hliðstæður því að bæði á sjó og landi er hægt að nota þau lögmál sem gilda um sandfangara til að hefta landbrot og snúa því jafnvel við með því að láta strauma safna saman sandi og aur.

Aðferðir felst í því að byggja varnargarð þvert á ríkjandi straum þannig að straumurinn stöðvist og myndi hringiðu og þar með sekkur sandurinn á því svæði til botns og byggir upp nýtt land.

Þetta virkar best þar sem aurugar ár streyma meðfram bökkum og má sjá dæmi víða um land, til dæmis við austurbakka Skeiðarár, sem reyndar hefur þornað upp hin síðari ár.

Þegar horft er til Landeyjahafnar sést, að út frá hafnarmynninu stendur hlaðinn garður til að mynda hlé fyrir skip sem sigla þurfa inn.

En augljóst er að þessi garður getur verið "sandfangari" sem veldur því að sandur safnist upp hlémegin við hann, sem einmitt það sem ekki má gerast við Landeyjahöfn.


mbl.is Sandfangari í Vík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarinn mikli, Brúarjökull.

Rétt áður en Seinni heimsstyrjöldin skall á kom þýski jarðfræðiprófessorinn Emmy Todtmann í pílagrímsferð til Íslands til þess að komast að Brúarjökli og rannsaka hann og þau náttúruverðmæti sem hann hafði skapað. 

Hún kom aftur til landsins  1963 í svipaða ferð og afrakstur vinnu hennar var ritgerð um jökulinn. 

Emmy áttaði sig á því að Brúarjökull á sér enga hliðstæðu í heiminum, ekki einu sinni á Íslandi. 

Hér skal það nefnt að ekki er vitað um neinn skriðjökul sem hleypur fram jafnlangt og hratt í einu. 

Árið 1934 heyrði fólk úti á Jökuldal mikla drunu. Þá sagði gamall maður á einum bænum: "Þar hljóp hann!" 

"Hver"' spurði fólkið. 

"Brúarjökull" svaraði sá gamli. "Svona heyrðist í honum 1890 þegar hann hljóp síðast." 

Vegna þess að Brúarjökull hleypur fram svona hratt og af svona miklum krafti og dregur sig síðan hratt til baka gefst honum ekki tími, ef svo má segja, til að grafa sig niður og ýta fram háum jökulöldum. 

Í þess stað ýtti Brúarjökull fram gróðurþekjunni, sem fyrir honum varð, eins og gólfteppi og rúllaði þekjunni upp þannig, að þegar jökullinn stöðvaðist, var við jökulröndina löng hólaröð, margra kílómetra löng. 

Nefnist þetta fyrirbæri Hraukar og er hvergi að finna annars staðar í heiminum, þótt raunar sé að finna brot af því eftir framhlaup Eyjabakkajökuls. 

Fyrir sex árum var grafið þversnið í Hraukana í Kringilsárrana og var sárið líkast því sem er þegar skorið er í rúllutertu og hægt að sjá hringlaga grá eða svört öskulög úr Heklugosinu 1104 og Öræfajökulsgosinu 1362. 

Auk þessa  þær náttúrugersemar sem Sauðá, Kringilsá og Jökulsá á Brú bjuggu til, í raun verk meistara Brúarjökuls, því að þær byggðust á því að framburður jökulsins gerði árnar aurugri og þar af leiðandi mun mikilvirkari en nokkurs annars fljóts á Íslandi. 

Af þeim sökum gróf Jökla Hafrahvammagljúfur að mestu á aðeins 700 árum, og hið litskrúðuga gljúfur við svonefnda Stapa á botni Hjalladals, gróf hún á innan við öld. 

Oddur Sigurðsson jöklasérfræðingur óttast nú að sú Íslandssaga frá landnámi, sem jöklarnir hafa geymt, fari forgörðum við bráðnun þeirra og þarf að bregðast við því. 

Af mannavöldum hafa nú verið eyðilögð náttúruverðmætin sem sökkt var undir Hálslón og grafast muni í þykkan aur þegar dalurinn fyllist upp af framburði Jöklu og Kringilsár. 

Sömuleiðis er tekið fyrir það að Jökla viðhaldi Hafrahvammagljúfri með því að sverfa í burtu hrun ofan í það með þeim tíu milljónum tonna af grófum auri, sem það notaði til þessa mikla verks. 

Náttúra Íslands hefur skrifað og skrifar enn stórbrotna sögu sem tengist lífi, högum og heiðri þjóðarinnar jafnvel enn frekar en þær bókmenntir og heimildir, sem skrifaðar eru í landinu. 

Á sama hátt og náttúra Íslands á sér enga hliðstæðu í heiminum er þessi saga sem hún skrifar afar dýrmæt. Fram að þessu hefur ríkt fáfræði og skilningsleysi um þetta stærsta verðmæti landsins, sem þjóðinni er falið til varðveislu, og eiga kynslóðir framtíðarinnar eftir að fella sinn dóm yfir okkur, sem nú lifum, fyrir það hvernig við höfum gegnt þessu hlutverki. 

Mér býður í grun að sá dómur verði, þvi miður, harður. Ég, fyrir mitt leyti, tek á mig þá ábyrgð sem felst í því að hafa allt of lengi látið hjá líða að kafa almennilega ofan í þetta málefni með því að skoða það á heimsvísu og sjá það í því samhengi. 

Er mér ofarlega í huga í hvaða sjokki ég kom heim til Íslands eftir ferð mína til Bandaríkjanna 1999, sem bættist ofan á það áfall, sem Noregsferð árið áður hafði valdið. 

Eftir ferðina 1999 sá ég fyrir það, sem stefndi í í heimalandi mínu, og satt að segja var ég svo sleginn, að ég orðaði það við konu mína að flytja úr landi því að ég afbæri vart það sem í vændum væri. 

Niðurstaðan varð samt sú þegar þetta hugarástand bráði af mér, að slíkt væri heigulskapur.

 


mbl.is Íslandssaga náttúrunnar er að bráðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband