Vel að þessu kominn.

Fyrir ellefu árum átti ég þess kost að hafa Steinþór Birgisson með mér í að gera fjórar heimildarmyndir fyrir Sjónvarpið undir heitinu "Fólk og firnindi".

Steinþór sá um klippingu og dagskrárgerð þessara þátta og vann stundum dag og nótt með mér við að ná því marki sem við settum okkur um vinnslu þáttanna, en þar þurfti oft að eyða gríðarlegum tíma í ákveðin myndskeið. 

Steinþór var einhver færasti samstarfsmaður sem ég hef haft og þessar fjórar heimildarmyndir finnst mér vera eitthvað það skásta sem ég hef gert á löngum ferli, einkum sú síðasta, sem hafði undirtitilinn "Flökkusál" og fjallaði um Fjalla-Eyvind fyrr og nú og útlagana í íslensku samfélagi fyrr og síðar. 

Þegar ég var á ferð á Ströndum fyrir meira en áratug frétti ég af séra Jóni Ísleifssyni og sá þá strax, að þar gat verið á ferð magnað viðfangsefni fyrir kvikmyndagerð mína.

En yfir mig helltust viðfangsefni sem tengdust náttúru Íslands og urðu að hafa forgang, því miður, verð ég að segja, og á þá við það, að hefði allt verið með felldu hefði ég ekki átt að þurfa að gera þau mál að aðal viðfangsefni mínu. 

En nú hefur Steinþór bætt úr þessu svo um munar varðandi Jón Ísleifsson. 

Ég þurfti að leita til hans með viðvik fyrir nokkrum árum og þá var hann byrjaður á myndinni og ég vissi að verkið var í góðum höndum. 

Viðurkenningin til hans gleður mig og ég óska honum hjartanlega til hamingju. 

Þetta er punkturinn yfir i-ið í dásamlegri ferð okkar hjóna til fæðingarstaðar hennar og á vit Uppsala í Selárdal. Meðfylgjandi ætla ég að láta verða myndir úr ferðinni, þar sem hið fallega samkomuhús Skjaldborg er hægra megin á þeirri fyrri, en hátíðin, sem kennd er við húsið og það sjálft er dæmi um mikinn dugnað og myndarskap þeirra sem hlut eiga að máli. 

Sum verk taka lengri tíma en önnur eins og myndin "Jón og séra Jón" ber vott um. p6120092.jpg

Ég fór vestur á bíl með númerinu "Örkin" sem leika mun hlutverk í samnefndri mynd, sem ég byrjaði fyrst að taka í á eigin vegum fyrir tíu árum, en sagan, sem liggur að baki myndinni spannar á fjórða tug ára í lífi mínu og þjóðarinnar. Bíllinn, sem er 22ja ára gamall var sá ódýrasti og minnsti sem ég fann til að geta á löglegan hátt dregið bátinn á kerru og komist með hana upp á hálendið um snævi þakið land. 

Hann er því jöklajeppi, sá minnsti af Toyota-gerð, sem til er, og því kandiat í Örbílasafn Íslands.  p6120094.jpg

Ekkert verkefni á ferli mínum hefur verið eins tímafrekt og dýrt og þessi mynd. Ég hef enn ekki getað lokið við allar kvikmyndatökur vegna hennar og á eftir að sigla Örkinni töluvert í viðbót á sögusviði myndarinnar. 

Að baki liggja hátt í hundrað ferðir upp á hálendi norðausturlands og vinnudagarnir í þessum ferðum einum samsvara heils árs vinnu. 

Verkið mjakast örlítið áfram en önnur brýnni verkefni hafa þó forgang, myndir sem verða að klárast á undan. 

Ég er viðbúinn því að myndin "Örkin" klárist ekki á meðan ég lifi en hugga mig við það, að ef handritið að henni er klárað og hið einstæða myndefni varðveitt, muni hún komast á tjaldið einhvern tíma. 

Þannig er veruleikinn hjá mörgum íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. 

 


mbl.is Jón og Séra Jón vann Skjaldborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efla þarf þingnefndirnar.

Það er skref í rétta átt að fækka nefndum Alþingis og gera þær jafnfram öflugri hverja og eina.

Þetta er í takt við þær tillögur sem nú má sjá í áfangaskjali Stjórnlagaráðs. Þar er gert ráð fyrir auknum verkefnum og völdum þingnefndanna og því að það verði í framtíðinni allt að því ígildi ráðherradóms að vera nefndarformaður auk þess sem embætti forseta Alþingis eru ætluð aukin virðing, völd og áhrif. 

Hugmyndin er að þeir Alþingismenn sem verða ráðherrar, víki af þingi og að eingöngu þingmenn geti lagt fram frumvörp.  Það mun sjálfkrafa færa nefndarformönnum, nefndarmönnum og þingmönnum aukin verkefni og áhrif, jafnvel þótt ráðherrar muni reyna að komast í kringum þessi ákvæði. 

Undanfarna áratugi hefur framkvæmdavaldið seilst til æ meiri áhrifa á kostnað löggjafarvaldsins og haft rík ítök í skipan dómsvaldsins og riðlað með þessu þrískiptingu valdsins. 

Í nýju stjórnarskránni verður sérstaklega tiltekið að valdið komi frá þjóðinni og í mínum huga eru valdþættirnir orðnir fleiri en áður var og sérstök ástæða til að huga að heppilegri valddreifingu og valdtemprun. 

Það getur stefnt í það í endurbættri stjórnskipan að litið verði til þess að allt að sjö valdþættir hafi aukið vægi þjóðaratkvæðataumhald hver á öðrum og sér þess víða stað í nýrri stjórnarskrá. 

:  Þessir valdþættir geta að mínum dómi verið sjö: Þjóðin (aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna) framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið, dómsvaldið, eftirlitsvaldið og forsetinn, fjölmiðlavaldið og fjármagnsvaldið. 

Að þeim öllum verður að huga þótt það geti verið misjafnlega auðvelt. 


mbl.is Nefndum Alþingis fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

63 ár Ísraelsmönnum í hag.

Fyrir 63 árum var Palestínu skipt á milli Gyðinga annars vegar og hins vegar þjóðarbrota, sem fengu sameiginlega nafnið Palestínumenn, því að það voru vestræn áhrif sem ollu því að þeir sem búið höfðu í landinu fóru að líta á sig sem eina þjóð andspænis Gyðingum.

Margt væri nú öðruvísi ef sátt hefði náðst um þetta fyrsta Ísraelsríki, sem var miklu minna en það sem nú er orðið í kjölfar tveggja styrjalda sem Arabaþjóðir háðu til þess að koma Ísraelsríki fyrir kattarnef. 

Ísraelsmenn höfðu betur í báðum þessum styrjöldum og að mörgu leyti vinnur tíminn þeim í hag og lengri tími líður sem þeir komast upp með að brjóta alþjóðalög með því hersetu Vesturbakkans. 

Á hinn bóginn er engin þjóð heims eins hervædd og lifir í stöðugri spennu vegna ótta um tilveru sinnar og þeir og leitun að fólki, sem er haldið í viðlíka fangabúðum skorts og kúgunar og íbúum Gazasvæðisins er haldið af Ísraelsmönnum. 

Ástandið þarna er fleinn í holdi alþjóðasamfélagsins og uppspretta haturs og ótta, sem er eim af helstu ógnum við frið í heiminum.

Erfitt er að sjá hvernig sá draumur helstu hatursmanna Ísraelsríkis getur ræst að það verði upprætt.

Tímatöf á því að friður komist þarna á á milli tveggja ríkja, Israels og Palestínu, virðist því vinna á móti Hamas og heitustu andstæðingum Ísraels.

Því fyrr sem þeir átta sig á því og breyta stefnu sinni í samræmi við það, því betra, einkum vegna þess hvernig Ísraelsmenn komast því miður upp með það að ná undir sig eignum Palestínumanna með landnemabyggðum og öðrum aðferðum sem eru í raun ólöglegir landvinningar og eignarán.

 


mbl.is Andstæðingar fallast í faðma.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband