14.6.2011 | 16:03
"Gúmmídúkkan" enn og aftur ?
Fyrir aldarfjórðungi var mikið um það rætt hver bylting það væri að fá til sögu ákveðinn hjálpartækjabanka, og ég segi um hann eins og "Kristján heiti ég Ólafsson": "Við förum ekki nánar út í það."
Ég get varla séð að einhver tækjabúnaður hótelkeðju muni valda neitt meiri byltingu en hjálpartækjabankinn góði á sínum tíma.
Ekki frekar en að ráðamenn risaveldanna muni láta sér nægja einhver tækjabúnaður til mikilvægustu leiðtogafunda frekar en að hittast í návígi.
Persónuleg kynni með ilmi, augnaráði, snertingu og staðbundinni útgeislun persónutöfra getur aldrei skilað sér með einhverjum tækjabúnaði á milli fjarstaddra manneskja.
Á sínum tíma gerði ég gys að ofurtrú á tæknina í samskiptum fólks, þóttist hafa heyrt afdalabónda einn sitja með gúmmídúkku sína í fanginu úti á túni og kveða við raust:
Ýmsir dúkkur ákaft lofa.
Eru þær hið mesta þing.
Gúmmí-Dísu í dalakofa
dreymir margan Íslending.
Einnig söng ég lagið "Living Doll" sem jafnaldri minn, Cliff Richard gerði frægt á sínum tíma, með íslenskum texta, svohljóðandi:
Ég fékk mér allra bláeygustu´og bestu gúmmídúkkuna.
Blíð hún var og minnti mig á skæslegustu hjúkkuna.
Ég tók hana í bíltúr, já, ég bauð henni´upp í Súkkuna.
Ég dýrkaði og dáði íturvöxnu dúkkuna.
Sjáðu á henni hárið, alveg ekta, -
og augun svo blíð og skær.
Og hún var alltaf jafn upplögð, aldrei í fýlu
þessi yndislega mær.
Hún varð mér svo kær að ég fór að kafa´eftir hennar löngunum
og kynna fór mér það, sem kannski passaði dúkkuhugsunum.
(Talað innskot:) Ég sé eftir að hafa gert það.Því núna er hún farin að halda framhjá mér með vin sínum
og fór í ból með rafmagnsknúna draumaprinsinsum.
![]() |
Kynlífið verði í gegnum netið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2011 | 15:03
"Það þarf tvo til."
Alltaf finnst mér það einföldun mála að kenna einhverjum öðrum um en sambýlismanneskju þegar hún fer að vera með öðrum.
Til er danskt orðtak um ástamál: "Það þarf tvo til."
Það sýnist mér eiga við í máli Jennifer Aniston og Justin Theroux þar sem sambýliskona hans kennir Jennifer um að Justin sé farinn frá henni, rétt eins og Justin sé einhver óreyndur táningur.
Að sama skapi finnst mér heil frétt um þessi umæli um Jennifer frekar lítil frétt.
![]() |
Jennifer Aniston stal manninum mínum. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2011 | 10:22
Samt best að búa hér.
Skordýr hafa aldrei heillað mig beinlínis, það er að segja að vera í of nánu samneyti við þau, þótt ég geti hrifist af hinu stórfenglega vökvaknúna aflkerfi, sem knýr vængi jötunuxanna, sem hinn frábæri sjálfmenntaði vísindamaður, Hálfdan Björnsson, bóndi á Kvískerjum, lýsti fyrir mér.
Ef ég er spurður, af hverju ég eigi heima á Íslandi, er svar mitt: Ástæðurnar eru fimm:
1. Ég er fæddur og uppalinn hér.
2. Það er minna af skordýrum hér en í öðrum löndum.
3, 4 og 5: Ýsa, smjör og kartöflur.
Ég skal játa að ég er varla hræddari við nokkurt fyrirbæri en köngulær og stafar það af ógleymanlegri reynslu minni sem sex ára strákur, þegar ég vaknaði í Kaldárseli um miðja nótt með eina slíka risastóra skríðandi yfir augun á mér, enda var gríðarlegur fjöldi af þeim í hrauninu nálægt selinu.
Þessa dagana glími ég við köngulær, sem komust í litla gamla Fox jeppann minn (minnsta jöklajeppa á Íslandi) í það rúma eitt og hálfa ár sem hann var bilaður í grasinu fyrir utan Ljósstaði í Flóa og virðast alveg ótrúlega þrjóskar og lífseigar.
Hef ég þegar þessi pistill er skrifaður þurft að fjarlægja alls 23 köngulær sem hafa sett upp vefi sína inni og utan á bílnum, nú síðast þrjár á meðan ég var í ferðalaginu tll Patreksfjarðar.
Það að ég tel köngulærnar sýnir hve þetta mál er mér mikilvægt.
Ég hef haft hálfan sigur í þessu stríði, því að þær setja ekki lengur upp vefi innan í bílnum, heldur aðeins utan á honum.
Áfanginn náðist með því að loka örlitlu ryðgati við hægri afturglugga og virðist mega ráða af því, að miðstöð og aðalhreiður köngulóanna sé einhvers staðar utan á bílnum eða undir honum.
Þótt skordýrum fjölgi nú hér á landi vegna hlýrra veðurfars hugga ég mig við það að þeim fjölgi líklega einnig í hlýrri löndum þar sem loftslag fer líka hlýnandi, þannig að ég lít svo á að atriði númer tvö varðandi búsetu mína hér á landi sé í fullu gildi.
![]() |
Smádýrunum fjölgar hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)