15.6.2011 | 13:43
Hvað þýddi "eigi víkja ?
Kjörorð Jóns Sigurðssonar voru: "Eigi víkja!" Sá misskilningur er þó býsna útbreiddur að kjörorð hans hafi verið: "Aldrei að víkja!"
Ástæðan er líklega sú að orðin "...aldrei að víkja!"... koma fyrir í söngnum "Öxar við ána..." sem allir kunna og syngja nokkuð oft.
Til eru þeir sem telja að í þessum orðum felist það beint, að ítrustu kröfur komi einungis til greina varðandi gjörðir manna, sem berjast fyrir ákveðnum málefnum.
Ég lít hins vegar svo á að annað felist í ljóðinu þegar horft er á ljóðlínuna í heild: ..."Fram! Fram! Aldrei að víkja!"...
Í henni felst samkvæmt mínum skilningi hreyfing fram á við þar sem ávallt skuli haft í huga hvert sé stefnt, en ekki það að öllu sé hafnað, sem ekki færir mönnum strax uppfyllingu á ítrustu kröfum.
Þegar litið er á ástandið sem Jón Sigurðsson lifði við, blasir það við að gersamlega útilokað var að ná í einu vetfangi þeirri ítrustu kröfu og markmiði að Ísland yrði algerlega sjálfstætt og fullvalda ríki.
Raunar er hugsjón hans og staðfesta enn meira aðdáunarefni en ella vegna þess að alla ævi hans var það í raun algerlega útilokað að á Íslandi gæti verið sjálfstætt og fullvalda ríki.
Síðustu æviár Jóns hófst mikill fólksflótti frá landinu og framtíðardraumurinn fjarlægðist frekar en hitt.
En Jón missti aldrei sjónar á stóra takmarkinu og þessi staðfasta trú hans og sýn endurspeglaðist í kjörorðum "eigi víkja!"
Mér sýnist að með því hafi hann átt við það að á langri og strangri leið framundan mættu menn ekki, hvað sem á dyndi, víkja út af leiðinni í áttina að takmarkinu, sem náðist ekki fyrr en 65 árum eftir hans dag.
Það þýddi hins vegar ekki að á hverjum tíma tækju menn þau skref, stór eða smá, sem mögulegt væri að taka á þessari vegferð, frekar en að hanga svo fast á ítrustu kröfum að aldrei þokaðist þess vegna.
Þessi vegferð gekk misvel en hver áfangi skilaði þjóðinni í rétta átt, heimastjórnin 1904, íslenski fáninn 1915, frjáls og fullvalda þjóð í konungssambandi við Danmörku 1918.
Aldrei var vikið frá stefnunni að takmarkinu þótt það næðist ekki til fulls í hverju þessara skrefa.
![]() |
Margir viljað eigna sér Jón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.6.2011 | 10:24
Rétt skal vera rétt.
Hvernig getur það verið að hæsti foss landsins "uppgötvist" á þeirri miklu tækniöld sem við lifum á?
Svarið er einfalt: Minnkun jökla landsins afhjúpar landslag, sem áður sást ekki.
Ég minnist þess að fyrir næstum fjörutíu árum gerði ég sjónvarpsþátt um Skeiðarárhlaupið 1972 og sýndi meðal annars það, hvernig Morsárjökull steyptist fram af háu klettabelti og hélt síðan áfram að renna niður í Morsárdal fyrir neðan klettabeltið.
Þegar ég gekk fyrst inn í Morsárdal sumarið 1957 mátti heyra háa bresti þegar stór stykki jökulsins féll niður af hamrabrúninni.
Síðan þá hefur jökullinn neðan við hamrabeltið þynnst og lækkað mikið og æ stærri hluti hamrabeltisins komið í ljós, svo að það blasir nú við í allri sinni dýrð.
Nú þarf að finna nafn á þennan hæsta foss landsins, sem er eini fossinn í Morsá.
En hvort á nafn fossins að vera í eintölu eða fleirtölu úr því að fossarnir eru margir og samhliða.
Þetta getur verið á hvorn veginn sem er. Hraunfossar eru margir samhliða fossar en fossinn Glymur í Þjórsá er líka safn margra fossa, þótt samheitið sé eitt.
Því kemur bæði til greina að kalla fyrirbærið Morsárfossar eða Morsárfoss.
Morsárdalur og Kjósin, stórbrotinn og djúpur dalur sem gengur til vesturs frá botni Morsárdals, er einhver hrikalegasti fjallasalur landsins og aldeilis óviðjafnalegt að upplifa þessa dýrð þegar jökullinn féll í stórum stykkjum fram af hamrabeltinu jafnframt því sem hann rann í sveig fram hjá því og meðfram því.
Í stað þessara aðstæðna stefnir nú í að jökullinn nái ekki fram á hamrabrúnina og þá hverfur það sjónar- og heyrnarspil, sem verið hefur þarna.
En á móti hefur okkur verið færður hæsti foss landsins.
![]() |
Flyst hæsti foss landsins búferlum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.6.2011 | 09:56
Herðubreiðarlindir hafa sérstöðu.
Það er rétt að sýna varkárni við að opna hálendisvegi. Bara það að ákveðinn hálendisvegur sé viðkvæmur á tiltölulega litlum kafla réttlætir það að hann sé ekki opnaður.
Ég hef flogið þvers og kruss yfir hálendið í vor og eins og undanfarin vor sker einn hálendisvegur sig úr, en það er leiðin inn í Herðubreiðarlindir.
Þessi leið hefur orðið snjólaus undanfarin vor og líka í vor langt á undan öðrum leiðum. Því miður virðist ekki hafa verið tekið tillit til þessa undanfarin ár, heldur beðið eftir því að hægt væri að opna alla leiðina upp í Öskju i einu lagi.
Ein af ástæðunum fyrir þessu hefur mér heyrst vera sú, að það sé ódýrara og hagkvæmari að gera þetta í einu lagi í stað þess að fara tvær opnunarferðir, aðra til að opna inn í Herðubreiðarlindir og hina síðari til að opna alla leið upp í Öskju.
Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna, sem sífellt er verið að hvetja til að lengja ferðamannatímann, að vinsælum leiðum sé ekki að óþörfu haldið lokuðum.
Miðað við heildarávinninginn af því að opna leið jafnskjótt og unnt er, skýtur skökku við að mun minni peningarlegir hagsmuni Vegagerðarinnar ráði hér för.
![]() |
Hálendið enn lokað fyrir umferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)