17.6.2011 | 23:57
Lögmál framboðs og eftirspurnar?
Ekki hef ég séð skýringar á því af hverju mun færri voru á þjóðhátíðartónleikum núna en undanfarin ár.
Varla er slæmu veðri um að kenna því að 14 stiga hiti var síðdegis í dag í Reykjavík og þurrt veður.
Skýringin hlýtur að vera samkeppni við aðrar samkomur og tónleika. Framboð af slíku hefur verið afar mikið að undanförnu með tilkomu Hörpu og síðan má ekki gleyma því að Menningarnótt í Reykjavík er orðin gríðarlega fjölmenn hátíð.
Ofan á þetta bætist að vegna þess þjóðhátíðardagurinn lengdi helgina upp í þrjá daga og það freistar margra að fara út úr bænum og nýta sér hina löngu helgi.
![]() |
Óvenju fámennt á tónleikum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2011 | 22:08
Ánægjuleg hátíð.
Þótt svalt væri í veðri á Hrafnseyri í dag var afar ánægjulegt fyrir okkur, sex fulltrúa úr Stjórnlagaráði, að vera þar og taka þátt í að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar, sem var í forsvari fyrir "stjórnlagaþingið" 1851 sem hlaut nafnið Þjóðfundur og var kosið með sérstöku beinu persónukjöri, aðgreint frá kosningum til Alþingis.
Við flugum þangað á TF-TAL, sex sæta flugvél í eigu Sverris Þóroddssonar, en slíkt sparar mikinn tíma miðað við það að aka fram og til baka.
Með ólíkindum var hve marga maður þekkti þarna og var yfirdrifið nóg að spjalla við fjölmarga á meðan á tæpra fjögurrra stunda viðdvöl okkar stóð.
Sem dæmi má nefna að Kjartan Gunnarsson tók myndina hér við hliðina þar sem vinstra megin eru Þorvaldur Gylfason, Silja Bára Ómarsdóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson, en hægra megin Gísli Tryggvason og Salvör Nordal. Í baksýn eru gamli bærinn á Hrafnseyri og kirkjan.
Sýningin nýja um Jón Sigurðsson er aldeilis afbragð og gefur færi á að kynnast lífi hans og starfi á sérstaklega áhugaverðan hátt.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var svo sannarlega í essinu sínu á heimavelli þegar hann flutti afbragðs góða hátíðarræðu.
Ég hef áður verið viðstaddur þegar hann hefur flutt ræðu um Jón sem var snilldarverk. Það var við styttu Jóns í Winnipeg þar sem hann flutti blaðalaust á ensku einhverja bestu tækifærisræðu sem ég minnist.
Eitt af því sem mér líkaði vel var það að hann dró það fram betur, en flestir gera, hve umdeildur Jón var á stundum, svo mjög að hann treysti sér ekki heim til Íslands í sex ár og annar var kjörinn forseti Alþingis en hann.
Sömuleiðis var hann ekki á þjóðhátíðinni 1874.
Ástæðan var sú að Jón var óhræddur við að standa við sannfæringu sína í viðkvæmum deilumálum, þótt ekki væri slíkt til vinsælda fallið þá og þá stundina.
Hugrekki hans, framsýni og stefnufesta voru að mínum dómi langstærstu kostir hans.
En Jón var ekki eina íslenska stórmennið sem þurfti að sæta því að vera settur til hiðar um stund.
Rétt eins og hann var ekki á þjóðhátíðinni 1874 var stórskáldinu Einari Benediktssyni ekki boðið á Alþingishátíðina á Þingvöllum.
Það var ekki fyrr en eftir hans dag sem honum var valinn grafreitur við hlið Jónasar Hallgrímssonar í Þjóðargrafreitnum á Þingvöllum.
![]() |
Menningarsetur á Hrafnseyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.6.2011 | 11:11
Um margt líkur Dynk.
Nýi fossinn, sem fellur niður hamrabelti neðst í Morsárjökli er um margt líkur fossinum Dynk í Þjórsá, sem er flottasti stórfoss Íslands vegna hins óvenjulega lags síns, en hann er samansafn af 12-20 fossa, sem allir falla niður með miklum hávaða í sama fossstæðinu.
Hávaðinn í Dynk og útlit hans, sem hafa leitt til nafngiftarinnar, er mismunandi mikill eftir vatnsmagninu í honum og því miður er búið að taka í rólegheitum með Kvíslaveitu þriðjunginn burtu af vatninu, sem annars félli ótruflað um þennan mikla foss, sem er á stærð við Gullfoss.
En það er að vísu afturkræf aðgerð ef vatninu frá Kvíslaveitu verður einhvern tíma á ný veitt um þennan mikilfenglega foss.
Ég hef áður bloggað um það að nýi fossinn/fossarnir í Morsárdal ættu að heita Morsárfoss/Morsárfossar en líst við nánari athugun betur á heitið Morfoss/Morfossar, sem vísa til þess að allt sé morandi í fosssum í þessu stækkandi fossstæði.
Hann er fjarri því að ná sama mikilleik og Dynkur en svipar á sinn hátt til Hraunfossa, sem eru margir litlir samhliða fossar og kannski merkilegustu fossar hér á landi.
![]() |
Fossafansinn í Morsárjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)