Flottasta gella allra tíma !

Kannski segi ég þetta af því að ég var á táningsaldri þegar sól Marilyn Monroe skein hæst. Kannski finnst mér að enginn hafi nálgast James Dean að áhrifamætti sem kvikmyndaleikari vegna þess að hann var líka uppi á sama tíma.

Kannski finnst mér tími Elvis Presley, Chuck Berry og Ray Charles töffasti tími sem um getur af því að maður var á þessum aldri. 

Og þó. 

Umskiptin sem urðu á árunum 1955-65, þegar unglingar gátu í fyrsta skipti í veraldarsögunni veitt sér munað, sem var óþekktur áður, voru án hliðstæðu og einstök.

Byltingin, sem varð í tónlist, kvikmyndum og afþreyingariðnaði hvers konar, spratt af þessum ytri aðstæðum. 

Ungt fólk hafði efni á að gera uppreisn gegn grónum hefðum og hafa áhrif á tíðarandann.  Ungt fólk varð að einhverjum mikilvægasta markhópi hvers kyns iðnaðar og það skóp þessa miklu byltingu þar sem unga fólkið varð leiðandi og fullorðna fólkið neyddist til að berast með þessari bylgju. 

Þegar hippabyltingin varð tíu árum síðar og pönkið kom tíu árum á eftir því, var það í raun ekki eins mikil bylting, því að þarna ráku unglingabyltingar hver aðra, gagnstætt því sem var upp úr 1955, þegar þetta snerist um unglingana sem hreinar andstæður við hina eldri sem höfðu ráðið ferðinni í aldarfjórðung án mikilla breytinga, þótt jassinn hefði haslað sér völl 20 árum fyrr. 

Myndin af Marilyn Monroe í hvíta kjólnum sem lyftist upp í straumi lofts upp úr rist í gólfinu er hreint meistarastykki, hvar sem á er litið, hvert einasta smáatriði. 

Hún og ljósmyndin af Ali þar sem hann stendur yfir föllnum Liston og manar hann til að standa upp, túlka þessi ár sennilega betur en nokkrar aðrar myndir.  Þessi ljósmynd Neil Leifer hefur verið talin besta íþróttaljósmynd allra tíma.

Bæði augnablikin eru til á kvikmynd, en stundum er það svo að ljósmyndirnar segja meira en kvikmyndir af því sama. 

Ljósmyndin hefur það fram yfir kvikmyndina, að hún leyfir ímyndunarafli hvers og eins að skapa þá hreyfingu og umgjörð sem einstaklingurinn kýs.  Í því felast yfirburðir hennar. 


mbl.is Frægur kjóll seldur á uppboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo rammíslenskt !

Íslendingar geta verið ólíkindatól. Í umferðinni sést til þeirra meiri og almennari frekja og skeytingarleysi um aðra ökumenn en dæmi eru um á byggðu bóli á vesturlöndum. Þar á ofan er þetta sérlega heimskulegt því að það bitnar á öllum þegar til lengri tíma er litið.

En síðan eiga Íslendingar til einstakt örlæti, þakklæti og hjálpsemi þegar vandi er á ferðum og fólk á erfitt.  Er líkast til leitun að öðru eins.

Þetta kom fallega fram í "Meistaraleik Steina Gísla" á Akranesi í gær. Bjartur geisli úr djúpum þjóðarsálarinnar. 


mbl.is Um 4000 manns mættu á völlinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætis gata.

Við bjuggum í tvö og hálft ár í kjallara í Sörlaskjóli 86.  Það voru góð ár.  Þegar vil fluttum þangað voru Jónína og Ragnar fædd, og Þorfinnur var þar fyrsta árið sitt.

Það var stutt að fara niður að sjó og börnin nutu þess. Eitt sinn datt þó Þorfinnur í sjóinn en var bjargað. 

Hið eina sem ég hafði við staðinn að athuga var kaldur norðanvindurinn sem leikur oft um Vesturbæinn þegar lyngt er og hlýrra í Austurbænum.

Þótt ég væri og sé enn gegnumblár Framari truflaði það mig ekkert að eiga heima í miðju KR-svæðisins. 

17. júní 1966 er mér enn minnisstæður.  Dagana á undan og sjálfan þjóðhátíðardaginn var einmuna veðurblíða, svo mikil, að ég tók málmblæjuna, sem var á nýja Bronkónum mínum, af honum og ók honum opnum þesssa daga.

Nóg var að gera 17. júní og flugið notað til að komast á milli staða, meðal annars flogið upp á Akranes og lent á Langasandi. 

Frábært var síðan að renna yfir miðborgina í bakaleiðinni og horfa í góðviðrinu yfir mannfjöldann. 

"Those were the days" var lag þessara ára, eða "Ó þessi ár!" eins og ég þýddi það og setti í fyrrahaust inn á ferilsdiskinn. 


mbl.is Sörlaskjól er gata Ellerts B. Schram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband