2.6.2011 | 23:47
Reynsla og raunhyggja ráði.
Nýleg rannsókn bendir til þess að þegar allt sé lagt saman sé áfengið það fíkniefni sem mestu tjóni veldur.
Þeir, sem samþykktu áfengisbann hér á landi og í Bandríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar höfðu því á réttu að standa varðandi böl vínsins.
Engu að síður voru þessi áfengisbönn óframkvæmanleg. Hér á landi var strax byrjað að fara í kringum bannið með því að læknar ávísuðu á áfengi sem nokkurs konar "læknadóp" þess tíma.
Síðan var leyfður innflutningur á spönskum léttvínum vegna saltfiskviðskipta við Spán (Spánarvínin) og að lokum var brugg orðið svo algengt að banninu var aflétt.
Í Bandaríkjunum leiddi bannið til óviðráðanlegrar glæpaöldu með Al Capone og fleirum slíkum sem höfuðpaurum.
Samkvæmt rannsóknum á vegum heilbrigðisstofunar Sameinuðu þjóðanna fer áfengisneysla vaxandi við ákveðin mörk þess hve auðvelt er að ná í það.
Þetta þekkja allir fíklar sem hafa farið í meðferð. Því minni og fjær sem freistingarnar eru, því betra.
En síðan er komið að þeim mörkum að bann fer að hafa öfug áhrif.
Ég hygg að svipað gildi um reykingar. Það sé vel hægt að íhuga hvort gera eigi aðgengi að tóbaki eitthvað erfiðara og sjálfsagt sé að koma í veg fyrir óbeinar reykingar, þar sem ágætur árangur hefur náðst til að vernda það fólk sem reykir ekki.
En fráleitt finnst mér að banna alfarið að reykingar eða tóbaksnotkun sjáist í kvikmyndum og nógu mikið hafa læknar landsins að gera þótt ekki bætist við að auka við "læknadópið" á þann hátt að þeir ávísi á tóbak.
Sjálfur hef ég aldrei reykt né drukkið vín og það eru ekki einhlít rök að neysla tóbaks og áfengis bitni ekki á öðrum en neytendum þess.
82 milljarðarnir, sem þjóðfélagið greiðir vegna tjóns af völdum áfengis er há tala og kostnaðurinn vegna sjúkdóma og ótímabærra dauðsfalla af völdum tóbakst nemur líka milljörðum, jafnvel tugmilljörðum.
En enda þótt ég vildi bæði tóbak og áfengi í burtu beygi ég mig fyrir því hvað er raunhæft og tek vara við öfgakenndri forsjárhyggju.
![]() |
Heimdallur hafnar tóbaksbanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.6.2011 | 14:49
Gamla góða trixið.
Grændalur er eitt þeirra svæða sem sett var inn í upptalningu í bæklingi sem Samfylkingin gaf út í aðdraganda kosninganna 2007 og bar nafnið "Fagra ísland".
Í þessari upptalningu voru tiltekin ákveðin svæði sem skyldu látin ósnortin.
Grændalur er talinn hafa hátt verndargildi í þeim gögnum, sem sýnd hafa verið úr Rammaáætlun.
Auk Samfylkingarinnar lögðu Framsóknarráðherrarnir Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og formaður flokksins fram lista yfir svæði sem ekki skyldi snert við nema að undangengnum sérstaklega nákvæmum rannsóknum og ekki nema með sérstöku samþykki Alþingis.
Meðal þeirra var svæði sem réttilega var nefnt Leirhnjúkur-Gjástykki.
Tveimur dögum fyrir kosningar leyfði Jón að farið yrði með bora inn í Gjástykki til borana og djöflast var með bora á bakka sprengigígsins Vítis og í námunda við Leirhnjúk við að bora eftir gufu.
Um þetta fréttist auðvitað ekkert fyrr en eftir kosningar.
Það er gamalt og "gott" trix að fá leyfi til "tilraunaborana" á svæðum, sem virkjanafíklar girnast. Við það vinnst tvennt:
1. Með því að eyða nógu miklum peningum í þetta er hægt að vísa til þess eftir á að þetta fé verði "eyðilagt" ef ekki verði haldið áfram og virkjað til fulls. Ef náttúruverndarfólk möglar er því kennt um að valda því fjárhagstjóni sem í raun var stofnað til á ósvífinn hátt af virkjanafíklunum.
2. Þegar búið er að valda nógu mikilli röskun með tilraunaborunum eins og gerist á svæðum þar sem lítið þarf til að valda miklum óafturkræfum umhverfisspjöllum með tiltölulega litlum framkvæmdum, er notuð sú röksemd að "hvort eð er" sé komin það mikil röskun að ekki verði aftur snúið.
Ofangreint trix hefur reynst vel og í ljósi þess má skoða það sem nú er að gerast varðandi Grændal.
![]() |
Engar rannsóknir fyrr en rammaáætlun liggur fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.6.2011 | 11:24
"Climb every mountain!"
Í stórbrotnu lagi í söngleiknum Tónaflóði (Sound of music) er sungið um það að klífa hvert fjall.
Þess vegna er framtak Leifs Leifssonar þörf uppörvun fyrir hvern þann sem stendur frammi fyrir því sem kann að virðast ókleift verkefni.
Leifur ætlar á frábæran hátt að framlengja og gera enn raunverulegri ferð, sem farin var á tind Snæfellsjökuls í maí 1995 þegar ferðaklúbburinn "Flækjufótur" fór í ferð upp á tindinn, en í klúbbnum var fatlað fólk.
Einn klúbbfélaga, sem hafði yndi af jöklaferðum á jeppa sínum, þótt hann væri bundinn við hjólastól, "spólaði" með eigin handafli síðustu 50 metrana upp að Jökulþúfum á hjólastólnum sínum.
Nú skilst mér að Leifur ætli að bæta um betur og fara fyrir eigin handafli alla leið og láta rætast draum, sem virðist við fyrstu sýn ókleift að láta rætast.
Ég hef áður minnst á eftirminnilegan þátt í útvarpinu 1954 um möguleikana á geimferðum, þar á meðal ferðum til tunglsins. Þetta þóttu "geimórar".
Samt stóðu menn á tunglinu aðeins 15 árum síðar.
Þegar brautryðjendur í hvalaskoðunarferðum hófu þá útgerð sögðu sumir að það væru "geimórar".
Annað hefur komið í ljós.
Þegar rætt var um það fyrir rúmum áratug að hugvit og vísindi gætu skilað þjóðarbúinu miklum tekjum ræddu þeir, sem aðeins sáu möguleika í stóriðju um það sem "eitthvað annað" í hæðnistóni.
Ef einhver hefði sagt þá að einn brautryðjandi gæti með hugviti sínu skapað fyrirtæki, sem með framleiðslu á tölvuleikjum gæti gefið meiri gjaldeyristekjur en skapast í störfum starfsmanna í öllum álverum landsins hefði hlegið hátt og lengi yfir slíkum "geimórum".
Þó hefur fyrirtækið CCP nú sannað þetta.
Stundum ætla menn sér þó um of og er "íslenska efnahagsundrið" sem endaði með Hruninu gott dæmi um það. Því miður hefur það komið óorði á útrás því að sé raunsæi, hyggindi og öryggi með í för, má ná miklum árangri á því sviði þótt sígandi lukka sé best.
Bankabólan sem sprakk var hins vegar blásinu upp undir merkjum taumlausrar græðgi og blekkinga sem hlutu að enda með hruni.
Orsök Titanic-slyssins var ekki sú, að hraðskreiðum stórskipum mætti ekki sigla yfir Atlantshafið og setja hraðamet, heldur áhættufíkn einnar af sjö dauðasyndunum, græðginnar.
![]() |
Á Snæfellsjökul í hjólastól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)