5.6.2011 | 23:51
Einstakt fólk.
Fólkið, sem búið hefur á Kvískerjum í Öræfum í meira en hálfa öld hefur verið alveg óviðjafnanlegt fyrir fræða- og vísindastörf. Ég var svo lánsamur að kynnast því fyrst fyrir 54 árum þegar við bræðurnir, Edvard og ég, heimsóttum Jón bróður okkar sem var í tíu sumur í sumardvöld að Hofsnesi.
Ég gat ekki annað en minnst á Hálfdan Björnsson í umræðum hjá Stjórnlagaráði í vikunni um ákvæði í stjórnarskrá um frelsi fræða og vísinda.
Í upprunalegri tillögu að þessu var talað um æðri vísindi en sem betur fer var orðinu "æðri" kippt út, enda afar erfitt að draga línu á milli "æðri" og "óæðri" vísinda.
Stór hluti menningararfs okkar Íslendinga er fólgin í fræðastörfum, sem oft á tíðum hafa verið unnin af tiltölulega lítið skólamenntuðu fólki en því betur sjálfmenntuðu.
Hálfdan og verk hans eru mikils metin meðað náttúruvísindamanna og meðal annars má nefna, að ákveðin tegund af húsflugu, sem hann fann í Esjufjöllum hér á árum áður, var gefið alþjóðlegt nafn þar sem nafn Hálfdans er hluti nafnsins.
Einn afrakstur starfa bræðranna birtist vafalítið í verkum Ragnars Axelssonar, RAX, sem nam sem ungur maður visku þeirra og lífssýn.
Bræðurnir voru vísindamenn fram í fingurgóma og má sem dæmi nefna, að þegar ég tók við þá viðtal er þeir höfðu fundið og mælt næst hæsta foss landsins, spurði ég þá hvað hann væri hár.
Sigurður færðist undan og taldi mælinguna ekki nógu vísindalega nákvæma.
"Með hverju mælduð þið?" spurði ég.
"Með bandi, sem ekki var hægt að hafa alveg lóðrétt og því er óvíst að mælingin sé nógu nákvæm", svaraði hann. "
"Getur gefið mér einhverja grófa ágiskunartölu um hæð hans?" spurði ég.
Sigurður hikaði en svaraði svo: "Hann mældist svona sirka 134,5 metrar".
![]() |
Hálfdán fékk Bláklukkuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2011 | 18:09
"Ekki er ég vel góður enn!"
Þegar ég var í Bandaríkjunum haustið 2008 var gaman að fylgjast með kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar.
Gamanið var þó full mikið þegar Sarah Palin átti í hlut því að varla var hægt að hugsa sér óhönduglegri kosningabaráttu en hún háði. Hvað eftir annað kom hún upp um vanþekkingu sína og fljótfærni og þegar hafður var í huga hár aldur John Mc Caine leist mönnum ekkert á blikuna við þá tilhugsun hvað gæti gerst ef hann gæti fallið frá.
Má segja að Palin hafi, án þess að vilja það, lagt Barack Obama lið því að axarsköft hennar voru margfalt fleiri en varaforsetaefni George Bush eldri á sinni tíð, sem tókst að ná kjöri þrátt fyrir mistök varaforsetaefnis síns.
Nú hefur Sarah Palin haft þrjú ár til að læra af óförunum 2008 en virðist lítið hafa farið fram.
Hún minnir mig á söguna, sem faðir minn sagði mér af því þegar Jón nokkur hækill mistókst á hjólaferð sinni niður Túngötuna.
Þá stóð húsið Uppsalir á horni Túngötu og Aðalstrætis og var veitingastaður í kjallaranum.
Dag einn, þegar menn sátu grandalausir við borð inni í Uppsalakjallaranum kom Jón Hækill hjólandi í gegnum glugga og féll með hjólinu og glerbrotum niður á milli tveggja borða. Brá mönnum, sem sátu við borðin mjög við þetta.
Jón stóð upp, reisti hjólið við og sagði stundarhátt við sjálfan sig: "Ekki er ég vel góður enn."
Leiddi hann síðan hjólið upp tröppurnar að dyrunum að kjallaranum og fór út.
Mér sýnist Sarah Palin vera á svipuðu róli og geta sagt svipað og Jón Hækill forðum: "Ekki er ég vel góð enn."
![]() |
Söguþekking Palin gagnrýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)