1.7.2011 | 10:36
Fagmaður fram í fingurgóma.
Í mars síðastliðnum voru 15 ár síðan samstarf okkar Bubba Morthens hófst við að lýsa hnefaleikum á Stöð tvö og á þessum tíma hefur tekist með okkur gróin vinátta, svo gróin, að ég tel hann í fremstu röð hvað snertir nánustu vini mína.
Ég áttaði mig á því hvað sú mynd af ákveðnu fólki getur verið brengluð eftir því hvað helst kemur fram á yfirborðinu um það.
Um þetta kann ég mörg dæmi.
Öllum, sem þekktu Bessa Bjarnason, var ljóst að hann væri í fremstu röð meðal fjölhæfustu leikrara landsins.
En það háði Bessa alla tíð að einn þessara þátta í snilld hans var það hve góður gamanleikari hann var, en það er fágæt náðargáfa. Fyrir bragðið fékk Bessi aðeins fá bitastæð alvarleg hlutverk og var það miður.
Alfreð Andrésson var svo góður gamanleikari að hann fékk aldrei að spjara sig í alvarlegum hlutverkum utan einu sinni þar sem hann var borinn inn á svið sem liðið lík en þá "sprakk salurinn úr hlátri"
Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason eru frábærir alhliða leikarar, svo góðir, að Spaugstofustimpillinn nær sem betur fer ekki að koma í veg fyrir að þeir fái alvarleg hlutverk.
Bubbi Morthens ruddi sér braut sem pönkari og grófgerður uppreisnarmaður, enda kom hann fyrst fram einmitt á þeim tíma sem sú tónlistarstefna og hegðun tónlistarmanna var í hámarki.
Af þessum sökum var ég ekki einn um það að samsama þetta almennum karakter og hegðun hans sem grófur og stundum ruddalegur bæði sem persóna og tónlistarmaður.
Við nánari kynni birtist mér allt annar og margfalt merkilegri maður en ég hafði haldið hann vera.
Raunar hefur Bubbi sýnt það í tónlistarsköpun sinni hve fjölhæfur hann er og hver lífsgildi hans eru.
Ég heyrði hann eitt sinn syngja á ensku kántrítónlist á tónleikum og þá áttaði ég mig á því hve fanta góður söngvari hann er, en það vill falla í skuggann af tónlistar- og textasmíð hans.
Að því kom að ég vann með honum að gerð tveggja laga, "Maður og hvalur", en það lag og texta samdi ég með hann einn í huga til að syngja það, og síðan lagið "Landi og lýð til hagsældar" en það lag var forboði þess sem koma skyldi haustið eftir í aðdraganda Jökulsárgöngunnar.
Við flutning og útfærslu beggja þessara laga, einkum þess síðara, áttaði ég mig á þeim kosti Bubba, sem mörgum sést yfir, og þá einkum í ljósi þeirrar myndar sem upphaflega var mest áberandi af honum sem grófs tónlistarmanns.
Þessi eiginleiki, kannski einhver sá allra mikilvægasti, er vandvirkni, 100% vandvirkni og yfirlega yfir því hvernig best sé hægt flytja viðkomandi verk svo að það verði ekki betur gert.
Bubbi hefur heitt og hlýtt hjarta sem snertir hvern þann sem honum kynnist náið og er fagmaður fram í fingurgóma.
![]() |
Vildi gera besta lag sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.7.2011 | 09:47
Vonbrigði eftir bíósýningu.
Þegar stórmyndin Aviator um lífshlaup Howards Hughes var sýnd var það að sjálfsögðu skylduverk fyrir mig að sjá hana, enda efni hennar stórbrotið í meira lagi.
Á ská fyrir aftan okkur hjónin sátu önnur hjón sem lifðu sig mjög inn í myndina og sá ég á viðbrögðum mannsins, að flugatriðin áttu hug hans allan en kona hans virtist njóta best þeirra atriða þar sem Hughes var í slagtogi við fagrar konur og kvikmyndadísir.
Þegar myndinni lauk og fólk stóð upp sagði konan stundarhátt við mann sinn: "Hvað? Er myndin búin? Af hverju var ekkert um Playboy?"
Augljóst var að konan hafði farið mannavillt hvað snerti þann, sem myndin fjallaði um, og haldið að það væri Hugh efner, stofnandi og eigandi Playboy.
Mér var skemmt því að á þessu gátu verið tvær skemmtilegar skýringar:
1. Hjónin stóðu bæði í þeirri trú að myndin fjallaði um glaumgosann og flugmanninn Hughes en héldu að hann hefði líkað stofnað og átt Playboy.
2. Karlinn var svo áfjáður í að sjá hin mögnuðu flugatriði og önnur stórmál í lífi Howards Hughes að hann annað hvort stuðlaði að misskilningi konu sinnar eða gerði ekkert til að leiðrétta hann.
![]() |
Hugh Hefner er eftirsóttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)