11.7.2011 | 10:30
Aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Stórir trukkar að ferja bíla yfir Múlakvísl, ég tala nú ekki um ef þeir geta ferjað rútubíla, væri stórkostleg upplifun fyrir erlenda ferðamenn.
Enn og aftur sjáum við dæmi um að glíma Íslendinga við óblíð náttúruöfl getur verið "söluvara" og orðið mótvægi við alla þá röskun sem hlaupið hefur valdið.
P. S. Eftir að hafa séð ýmislegt í bloggi og athugasemdum um það að áhyggjur ferðaþjónustufólks á sunnanverðu landinu sé "væl", má benda á, að á Hornafirði eru 40% af öllum gistinóttum ársins í júlímánuði einum og missir þessa háannatíma er hliðstæður við það að tvær vikur fyrir jól yrði hliðstæð röskun á jólaversluninni í Reykjavík.
![]() |
Trukkur sá um ferjuflutningana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.7.2011 | 10:20
Of seint að fara í það að nota rör?
Ég var að koma út úr viðtali við þáttinn "Í Býtið" í morgun þegar Elías Sveinsson koma þar að, en hann vann á sínum tíma í Ameríku og kynntist vel "ameríska hraðanum" sem þar var stundum talin nauðsynlegur hugsunarháttur þegar mikið lá við.
Elías benti á þá leið að leggja Múlakvísl í mörg rör með því að fikra sig yfir hana á þann hátt, að leggja fyrst niður eitt stórt rör við vesturbakkann og nota krana til þess, bæði til að leggja rörið þannig niður að það snúi rétt í straumnum.
Nota síðan stórvirk tæki og malarflutningabíla til að fylla upp yfir rörið.
Þegar áin er farin að renna þar í gegn, sé uppfyllingin yfir rörið notuð til að leggja niður næsta rör við enda hennar og endurtaka leikinn.
Þegar komið er á þennan hátt langleiðina yfir ána, verður svo mikið af henni farið að renna í gegnum rörin, að fljótlegt verður að klára verkið.
Ég get vel ímyndað mér að þessi aðferð sé miklu fljótlegri en brúargerð, teiknaði þetta upp og fór með Ella upp á fréttastofu Stöðvar tvö þar sem við skildum teikninguna eftir.
Fór síðan á á fund hjá Stjórnlagaráði en ætla að slá á þráðinn til fréttastofuna.
Nú virðist Vegagerðin hafa ákveðið að fara af stað í brúargerðina og kannski ekki hægt "að skipta um hest í miðri á" í þessu efni.
![]() |
Byrja á brúargerð í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2011 | 09:54
Lúlli Karls flaug líka á gaddavírsgirðingu.
Það eru fleiri en keppendur í frönsku hjólreiðakeppninni sem hafa "flogið á gaddavírsgirðingu" og það í bókstaflegri merkingu.
Í tilefni af Íslandsmeistaramóti í svifflugi, sem nú er að ljúka á Hellu, rifjast upp saga af Lúðvíki heitnum Karlssyni, sem lenti á gaddavírsgirðingu á sínum tíma í aðflugi að lendingarstað á svifflugu sinni.
Lúlli var látinn gefa skriflega skýrslu um óhappið en var síðan kallaður á teppið vegna þess að skýrslan stæðist ekki.
"Hvað stenst ekki?" spurði Lúlli.
"Þú segir hér í skýrslunni að þú hafir verið í vinstri beygju en rekið hægri vænginn í girðinguna. Það er ekki hægt, - vinstri vængurinn liggur neðar í vinstri beygju og útilokað að taka hana slíka beygju öðruvísi."
Lúlli lét sér hvergi bregða og svaraði um hæl: "Jú það stenst einmitt, því að ég flaug svo lágt að ég rak hægri vænginn upp undir girðinguna!"
Lúðvík Karlsson var mesti sagnasnillingur sem ég hef kynnst og var jafnvel meiri sagnameistari á ensku en íslensku.
Af honum á ég margar óborganlegar sögur.
![]() |
Flaug á gaddavírsgirðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2011 | 09:47
Þjóðarskömm auglýst fyrir útlendinga.
Erlendir ferðamenn óku í gær um hringveginn við Gaddstaðaflatir með rusl á báðar hendur.
Í hátíðum erlendis, þar sem koma saman milljón manns, sést ekki eitt einasta karamellubréf.
Í stað þess að hafa plastpoka hangandi á gírstöng henda Íslendingar í stórum stíl rusli út um glugga bílanna.
Þegar snjó leysir á vorin eru haugar af sígarettustubum við umferðarljós í Reykjavík.
Ef lögð er saman fyrirhöfnin við það að skrúfa niður rúðu, henda rusli út, og skrúfa rúðu aftur upp, fer miklu meiri tími í sóðaskapinn heldur en ef settur er plastpoki á gírstöng og ruslið sett í hann næstu dagana.
Þetta snýst ekkert um hagkvæmni heldur um einhverja sjúklega nautn af því að sóða út að óþörfu.
Hálf milljón erlendra ferðamanna á ári verða vitni að þessari þjóðarskömm sem virkar eins og auglýsing fyrir heimskulega þörf landsmanna til að haga sér eins og bavíanar.
![]() |
Ekki góð umgengni á hátíðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.7.2011 | 09:36
Kemst þótt hægt fari.
Ragnar "álskalli" þáverandi forstjóri álversins í Straumsvík, ók Mini um Fjallabaksleið nyrðri í haustralli, sem haldið var í október 1977 þegar vegurinn var miklu verri en nú og auk þess kominn snjór sem dró í skafla.
Þá voru líklegast um tvöfalt fleiri ár og lækir óbrúað en nú, meðal annars erfiðustu árnar, sem síðan hefur verið lagður vegur framhjá.
Í fyrradag mætti ég Yaris á Fjallabaksleið. Varla er hægt að mæla með því að fara leiðina á svo lágum bíl en glúrinn ökumaður getur þó komist leiðina á slíkum bíl ef hann tekur sér nógan tíma og hefur vaðið fyrir neðan sig, sem reyndar ætti frekar að orða þannig að hann fari yfir árnar á réttum vöðum, sem venjulega liggur í sveigum þar sem er "brot".
Nokkrar ár eru dýpri en aðrar og þá er sniðugt að hafa þegar bundið band í dráttarkrók á bílnum að framan og láta það liggja aftur yfir vélarhlífina og sinn um framgluggann svo að það falli ekki ofan í ána.
Síðan er bara að bíða og biðja einhvern á jeppa að draga sig yfir, og ef bíllinn stöðvast óvænt úti í á er bandið tilbúið.
Ekki þarf að orðlengja að vera helst í vöðlum eða minnsta kosti í stígvélum.
![]() |
Ferðamenn fari varlega um hálendisvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)