Gleymda bensínlokið.

Gleymda barnið á norskri bensínstöð minnir mig á atvik á norskri bensínstöð fyrir þrjátíu árum.

Þegar við Jón bróðir minn vorum á leið frá Osló til Karlstad til að keppa í heimsmeistarakeppninni í ralli í febrúarbyrjun 1981 áttum við leið um lítið þorp Noregsmegin við landamærin.

Þar uppgötvaði ég að ég hafði týnt bensínlokinu á bílnum og sá fram á að kaupa nýtt bensínlok.

Ég fór því inn í bensínstöð sem við komum að og bað um bensínlok en afgreiðslumaðurinn skildi mig ekki.

Ég reyndi nú, auk dönskunnar, að nota ensku og þýsku en ekkert gekk.

Þetta þótti mér alveg óskiljanlegt og var farinn að halda að eitthvað vantaði í þennan Norðmann.

Bað hann að koma út með mér sem hann gerði.

Þegar ég benti á opinn áfyllingarstútinn, birti yfir andliti Norðmannsins þegar hann sagði: "Ja, benzinlok!"

Það var þá eftir allt sama orðið sem frændþjóðirnar tvær notuðu um þennan hlut ! 

Hvernig í ósköpunum átti mér að detta það í hug?!


mbl.is Gleymdi barninu á bensínstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á ferðirnar á sjöunda áratugnum.

Á síðari hluta sjöunda áratugarins voru vinsælar rútuferðir farnar í apríl yfir Skeiðarársand.

Rútur frá Guðmundi Jónassyni og Páli Arasyni gátu komist yfir árnar, því að á þeim árstíma er einna minnst í þeim.

Til er upptaka á texta um þetta sem ég söng við lagið "Yellow Submarine" undir heitinu "Glöð við hristumst í gamla kagganum.

Í Yellow Submarine er millikafli þar sem eru talstöðvarskipti um borð í kafbátnum, og auðvitað notfærði ég mér það í íslenska textanum og bjó til skopstælingu af íslenskum talstöðvarsamtölum þess tíma:  "Gufunes radíó! Gufunes radíó!  R-7670 kallar, - ég skipti!"  o. s. frv.

Nú er komin svipuð staða á Mýrdalssandi en nú er ekki lengur kallað á Gufunes radíó, heldur á þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Baslið í ferðunum fyrir rúmum 40 árum höfðu aðdráttarafl, en kannski er atburðurinn í dag of mikið af því góða.


mbl.is „Auðvitað var fólk hrætt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múlakvísl er háð leysingu á jöklinum.

Múlakvísl er jökulá. Það þýðir að lofthiti hefur mikil áhrif á vatnsmagn og framburð auk þess sem úrkoma hefur svipuð áhrif á vatnsmagnið og í bergvatnsám.

Nú er að koma hlýr loftmassi upp að landinu sem færi með sér bæði hærri lofthita og úrkomu í ofanálag.

Það þýðir að vatn í ánni getur vaxið allmikið yfir daginn, þegar lofthitinn er mestur.

Að undanförnu hefur verið mikill munur á hita dags og nætur og loft frekar svalt.

Á landinu hefur frostmarkshæð verið á bilinu 900 til 1500 metrar en stór hluti Mýrdalsjökul er í þeirri hæð og því engin snjóbráð þegar loft er svo svalt.

Af framangreindum sökum má leiða líkur að því að í eðlilegum sumarhita verði erfitt að nota miðjan daginn til aksturs yfir ána og frekar að sæta færis á þeim tíma sólarhringsins sem hitinn er minni.


mbl.is Lokað yfir Múlakvísl til 18
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðir hugann að Skaftárkötlum.

Ísbráðnunin í Kötlu er eitt af nokkrum dæmum um það að jarðfræðingar hafa velt vöngum yfir því hvort eldsumbrot hafi valdið stórum jökulhlaupum.

Þetta hefur verið í umræðunni eftir hlaupið í Múlakvísl 1955 og einnig 1999, en hefur jafnvel komið upp varðandi hlaup úr Skaftárkötlum.

Í einum katlinum í Kötlu er vatn í botninum og botn hrunsins líkist hringlaga strompi. Í Skaftárkötlum er líka lítil tjörn í botninum eftir hvert sig, en þar hef ég ekki séð hringlaga strompa.

Helgi Björnsson telur þennan mismun benda til þess að kvika hafi komist upp á yfirborðið.

Ég sem leikmaður velti því þó fyrir mér hvort þessi mismunur geti stafað af mismunandi landslagi en ætli það verði ekki að fallast á skýringu sérfræðingins og þar með að telja afar ólíklegt að kvika hafi komist upp undir Skaftárkötlum.

 

 og að þess vegna standist það ekki að eldsumbrot geti hafa valdið hlaupi úr Skaftárkötlum.


mbl.is Katlarnir benda til kvikuinnskots eða lítils eldgoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðir af sjálfu sér en þarf samt auglýsingu.

Fjallabaksleið nyrðri liggur í 700 metra hæð yfir sjó þar sem vegurinn fer hæst. Þegar ekið er inn á leiðina að vestanverðu blasir strax við ökumönnum að vegurinn er niðurgrafinn troðningur eða slóð en ekki venjulegur vegur.

Þetta kemur ekki alveg eins fljótt í ljós þegar ekið er í hina áttina upp úr Skaftártungu, en gamanið tekur fljótlega að kárna.

Blindhæðirnar eru margar alveg sérstaklega krappar og þröngar og verður að fara þar fetið.

Ef vegagerðartæki verða á ferð á leiðinni gætu óheppnir ökumenn ekið fram á þau á afar hættulegum augnablikum.

Eins og vegurinn er nú er hann víða alveg sérstaklega holóttur svo að ökumenn á bílum með lága hjólbarða verða að aka mjög hægt til að eiga ekki á hættu að sprengja hjólbarða.

Fólk verður því að taka sér afar góðan tíma til að fara þessa leið og reynslan sýnir, að enda þótt leiðin sé merkt með bókstafnum F á kortum sem hálendisvegur, er fáfræði stórs hluta þjóðarinnar um landið okkar stundum með ólíkindum og full ástæða hjá Vegagerðinni að benda fólki á þetta.

Sem dæmi má nefna að í spurningakeppninni "Gettu betur" var spurt um skriðjökul, sem lægi austan við Öræfajökul.

Svöruðu nemendur því til að þetta væri Mýrdalsjökull. Verður að ætla að fáfræði af þessu tagi sé útbreidd fyrst nemendur sem taldir eru búa yfir mestri þekkingu í framhaldsskólum vita ekki meira um landið.


mbl.is Fjallabaksleið er hálendisvegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband