Golfvöllurinn í Avon.

Ungu piltarnir, sem iðkuðu golf inni á götum Kópavogskaupstaðar voru í skökku bæjarfélagi því að í Colorado í Klettafjöllunum er bær sem heitir Avon, og þar liggur golfvöllurinn niður eftir miðjum bænum sem stendur neðst í hlíðum mikils fjalls fyrir ofan hann.

Avon hefur sett sér það takmark að fara fram úr Aspen að vinsældum og er allt gert sem hægt er að hugsa sér til að laða ferðafólk þangað.

Sem dæmi má nefna, að ef menn vilja geta menn farið í skíðalyftu um jarðgöng upp á topp skíðabrautarinnar fyrir ofan bæinn ef þeim finnst of kaldsamt að nota venjulega lyftu.

Þaðan geta þeir svo skíðað niður í bæinn, gengið út úr lyftunni, skipt skíðabúnaðinum út fyrir golfgræjur og byrjað að spila golf niður eftir golfvelli sem nær alveg upp að skíðabrekkunni!

Avon er bara fyrir ríka og fræga fólkið, svo sem krónprinsinní Sádi-Arabíu, sem þangað kemur árlega, tekur meira en hundrað herbergi á hótelinu frá fyrir sig og fylgdarlið sitt og hefur þyrlur og glæsibíla til umráða.

Hætt er því við að Kópavogspiltarnir eigi langt í land með að öngla sér inn fyrir ferð til Avon þar sem þeir geta látið draum sinn rætast.


mbl.is Í golfi í miðjum bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarharmleikur.

Íslensk saga geymir mörg dæmi um það að í þessu fámenna landi var oft ekki unnt að innlent dómskerfi gæti komist að nógu yfirvegaðri og ótruflaðri niðurstöðu.

Í mörgum tilfellum kom danskur hæstiréttur í veg fyrir að hér yrðu framin dómsmorð og á okkar dögum má finna dæmi á borð við það, þegar mannréttindadómstóllinn í Strassborg dæmdi í máli hjólreiðamanns á Akureyri, sem andmælti því að sami aðili rannsakaði, ákærði og dæmdi í máli hans.

Fram að því höfðu Íslendingar unað réttarkerfi af þessari tegund, en neyddust til að breyta því í samræmi við dóminn.

Aðdragandi Guðmundar- og Geirfinnsmálanna var slíkur að í raun var ómögulegt að hægt yrði að komast að nógu yfirvegaðri sanngjarnri niðurstöðu vegna einstæðs þrýstings samfélagsins á dómstólana.

Áður en þessi mál komu upp höfðu nokkrir menn horfið, sem annað hvort fundust ekki eða fundust ekki fyrr en seint og um síðir.

Í augum þjóðarinnar voru síðustu mannshvörfin dropinn sem fyllti mælinn og þess var krafist að þessi mál yrðu upplýst, morðingjar fundnir og þeir dæmdir.

Ofan á þetta bættist að við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna myndaðist ástand æsinga og hysteríu sem á sér enga hliðstæðu í sögu landsins hinar síðustu aldir.

Stjórnmál og sakamál blönduðust auk þess saman á einstakan hátt og í þjóðfélaginu myndaðist sífellt háværari krafa um að fá "niðurstöðu" í þessum málum.

Þegar lokadómur var kveðinn upp lýsti þáverandi dómsmálaráðherra yfir því að "þungu fargi væri létt af þjóðinni".

Þessi orð segja betur en flest annað í hverju málið var í raun fólgið og lýstu því hugarfari, sem lá að baki og má jafna við nornaveiðar.

Þegar bornir eru saman tveir dómar í "morðmálum" frá þessum árum, sýknudómur vegna morðsins á Gunnari Tryggvasyni og hins vegar sektardómur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, blasir við hrópandi ósamræmi sem sést best með því að bera saman nokkur atriði:

Gunnarsmálið:  Fyrir hendi var lík, stolið morðvopn í vörslu sakbornings og hugsanleg ástæða.

Guðm- og Geirfinnsmálið:  Ekkert lík, ekkert morðvopn, engin hugsanleg ástæða.

Ofan á þetta bætist að í Gunnarsmálinu var sakborningur ekki beittur neinum þvingunum við yfirheyrslur eða í gæsluvarðhaldi, en sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu voru sannanlega beittir miklu harðræði, sem jafna má við pyntingar auk þess sem spunnar voru upp nýjar og nýjar játningar sem þeir skyldu gera.

Saklausir menn voru settir í löng gæsluvarðhöld og það gert á þann hátt að þeir bíða þess aldrei bætur.

Báðir þeirra lýstu því þannig að á tímabili hefðu þeir verið komnir á fremsta hlunn með að játa á sig sakargiftir til þess að sleppa út, því að hið sanna um sakleysi þeirra hlyti að koma í ljós.

Annar þeirra sagðist á tímabili hafa verið orðinn svo andlega þjakaður að hann hefði verið farinn að trúa því að hann hlyti að hafa drýgt ódæðið sem hann var sakaður um, annars væri hann ekki búinn að vera í gæsluvarðhaldi svona langan tíma!

Það eitt að halda fyrir mönnum vöku, eins og reynt var, er nú viðurkennd sem einhver árangursríkasta pyntingaraðferð, sem völ er á, og sú allra lúmskasta. Um það get ég sjálfur vitnað eftir að hafa vegna ofsakláða af völdum lifrarbrests og stíflugulu verið rændur svefni í þrjá mánuði.

Þetta er aðferðin sem notuð er í Guantanamo og öðrum hliðstæðum fangelsum.

Eftir þá lífsreynslu fann ég til mikillar samkenndar með sakborningunum í Geirfinnsmálinu.

Ég get ekki varist þeirri hugsun, að niðurstaðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafi verið dómsmorð, sem íslenska þjóðin bar í raun ábyrgð á en getur því miður ekki horfst í augu við enn í dag.

Þeim þjóðarharmleik lýkur ekki fyrr en löngu tímabært uppgjör fer fram.

Ég ætla að vona að sá dagur þessa endanlega uppgjörs komi, en því miður virðist það svo, að meðan ég og aðrir eru á lífi, sem voru uppi á tímum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, sé þjóðinni fyrirmunað að stíga þetta nauðsynlega skref.


mbl.is Sævar Ciesielski látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband