26.7.2011 | 17:16
Góð sigling á nýrri stjórnarskrá.
Nú stendur yfir lokaatkvæðagreiðsla hjá Stjórnlagaráði um nýja stjórnarskrá. Síðustu dagar hafa verið krefjandi í starfinu, því að sjónarmið, bakgrunnur og skoðanir okkar eru afar mismunandi.
Segja má að síðustu daga hafi skipið okkar verið á leið gegnum brimgarð í skerjagarði en í atkvæðagreiðslunni, sem nú stendur yfir, virðist fleyið komið í gegnum rótið og nú er svo komið að búið er að samþykkja um helming stjórnarskrárinnar, og eru þar með taldir stórir og mikilvægir kaflar um mannréttindi, náttúru og kosningar, sem geta markað tímamót í íslenskum stjórnmálum, ef ná fram að ganga.
Nú eru að skila sér heilindi, drengskapur, sáttfýsi, samvinnuvilji og ötult starf, sem hefur einkennt starf okkar frá upphafi, raunar allar götur aftur til nóvember síðastliðins.
Atkvæðagreiðslurnar sýna mikla eindrægni, mun meiri en ég átti nokkurn tíma von á, og það, að við ætlum okkur að taka sameiginlega ábyrgð á þessu verki okkar, þótt ekkert okkar hafi að sjálfsögðu fengið sínar ítrustu óskir uppfylltar.
Þetta er eitthvert mest gefandi starf, sem ég hef lent í á alllangri ævi, alveg burtséð frá því hvaða viðtökur þetta plagg okkar fær.
![]() |
Til höfuðs fjölmenningarstefnunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2011 | 15:58
Ótrúleg umskipti.
Það eru ekki mörg ár síðan Fiat var eitt þeirra fyrirtækja í Evrópu sem virtust eiga hvað erfiðasta framtíð framundan ef um nokkra framtíð var þá að ræða, svo illa var komið fyrir fyrirtækinu.
Fiat mátti svo sannarlega muna sinn fegri. Oft á síðustu hálfri öld unnu bílar fyrirtækisins hin eftirsóttu verðlaun "bíll ársins í Evrópu" og má þar sem dæmi nefna Fiat 124, 127 og Fiat Uno.
Þegar svo virtist sem Fiatsamsteypan væri að niðurlotum komin kom síðan þessi stórkostlega endurkoma og upprisa, sem hinn nýi Fiat 500 er gott dæmi um.
Síðustu árin hefur Fiat verið í fremstu röð í gerð dísilvéla og nú síðast í gerð bensínhreyfla með hinum frábæru Twinair-hreyflum.
Þetta gleður mjög mann, sem í gegnum tíðina átt sex gerðir af Fiat og oft dáðst að hönnun fyrirtækisins, allt frá Fiat Topolino Giacosa til hins nýjasta Fiat 500.
![]() |
Chrysler hefur góð áhrif á Fiat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2011 | 13:53
Voru Hitler, Himmler, Göring og kó geðveikir ?
Oft hefur verið minnst á það að skammt geti verið milli geðveiki og annarra þátta í persónuleika og sálarlífi manna.
Anders Behring Breivik er ekki fyrsti eða eini maðurinn sem hefur "lifað í eigin heimi" og skapað sér heilt kerfi ritverka og athafna í samræmi við það.
Adolf Hitler var dæmi um mann sem "lifði í eigin heimi" yfirgengilegra fordóma um fólk og þjóðir.
Hann trúði því að Gyðingum mætti kenna um flest það sem aflaga færi og því þyrfti að útrýma þeim.
Hann setti fram hugmyndir um það "þúsund ára ríkið" þar sem yfirburðakynþátturinn Aríar (tómt bull) ætti að verða herraþjóð í veröldinni og ráða yfir öðrum óæðri kynþáttum sem þjónuðu hinn guðdómlegu yfirþjóð.
Þýskaland skyldi verða miðja hins guðdómlega þúsundára ríkis en hinar slavnesku þjóðir í Austur-Evrópu skyldu sjá herraþjóðinni fyrir matvælum allt austur á sléttur Rússlands og Úkrainu og tryggja "lífsrými" Þjóðverja.
Í stríðglæparéttarhöldunum í Nurnberg kom það ekki til álita að úrskurða að Himmler, Göring, Keitel og allir hinir meðreiðarsveinar Hitlers sem framkvæmdu hin viðbjóðslegu ódæði Helfararinnar væru geðveikir.
Þegar litið er yfir hugmyndafræðina að baki þessum glæpum gegn mannkyni sést að hún var ekki geðveikislegri en það að nasistunum tókst að taka hundruð milljóna manna með sér í þá vegferð fjöldamorða sem Hitler hafði raunar lýst fyrirfram í bók.
Hún var útfærð á kaldrifjaðan hátt af sérstakri og ítarlegri vinnu samkvæmt einhverri nákvæmustu og yfirgripsmesti áætlun sem mannkynssagan kann frá að greina.
![]() |
Segir Breivik vera geðsjúkan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)