Tólf þúsund, varla orð, 13 þúsund, stanslausar fréttir.

Nú er ég staddur á Akureyri í hita og logni og hér eru 12 þúsund gestir og fjölbreytt dagskrá. Í Eyjum eru 13 þúsund gestir og fjölbreytt dagskrá. 

Varla hefur verið minnst á Eina með öllu í fréttum fyrr en aðeins allra síðustu dagana og þá vart nema stutt í fréttatímum.

Hins vegar hefur verið nær stanslaus fréttasíbylja af Eyjahátíðinni vikum saman og ekki líður sú klukkustund þessa helgi að hún sé í umfjöllun í þáttum og fréttum.

Hvernig stendur á þessu?

Jú, á Eyjahátíðinni koma helstu poppstjörnur Íslands fram og það gerir gæfumuninn. Þar að auki hefur rysjótt veður nú bæst ofan á fréttnæm atriði til að moða þar úr.

Fréttamatið miðast við þetta og þannig hefur það verið lengi.

Þetta minnir mig á það þegar umbi nokkur bað mig og Guðrúnu Símonar að skemmta á sveitaballi á Hvoli.

Ég spurði umbann hvort hann héldi að besta óperusöngkona Íslands fengi nokkurt hljóð á samkomu öskrandi og ölvaðra ballgesta.

"Það skiptir engu máli" svaraði umbinn. "Aðalatriðið er að auglýsa nógu fræga skemmtikrafta. Þá hugsar lýðurinn með sér: Úr því að þau skemmta þarna þá verða allir þar. Og við ætlum að fara þangað sem allir eru."

Við létum til leiðast og sjaldan hef ég lent í eins erfiðu verkefni, tókst þó að sleppa með að hafa fengið athygli einhverja stund.

Ekki heyrðist mannsins mál fyrir hávaða á meðan Guðrún söng og var hún öskureið þegar hún fór og hellti sér yfir umbann, sagðist aldrei hafa verið niðurlægð svona fyrr. 

Hann skildi hana ekki. "Þú færð borgað vel fyrir þetta og hefur ekki yfir neinu að kvarta." 


Táknræn frétt: "Einn gisti fangageymslur..."

Eftir ótal ekkifréttir helgarinnar kom loksins ein, sem stenst kröfur erlendra tungumála um "news" eða "nyheder", eitthvað alveg nýtt. 

Aðeins einn gisti fangageymslur á Akureyri, það er raunverulega nýtt.  Hitt hefði verið ekkifrétt að fangageymslurnar væru fullar.  


mbl.is Einn gisti fangageymslur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bara nokkrir dropar..."

Það hefur verið spaugilegt að heyra í mótshöldurum víða um land nú um helgina. "Bara nokkrir dropar..." sagði sá sem talaði frá Eyjum og á öðrum mótshöldurum mátti skilja að nú væri í gangi blíðviðriskeppni á öllu landinu. 

Það vill svo til að hægt er að fylgjast með raunverulegu veðri t. d. hér á mbl.is og einnig veðurspá og þá kemur allt annað í ljós. Enginn þessara mótstaða hefur sloppið við rigningu og í öllum þeim landshlutum, sem ég hef komið í um helgina hefur rignt, meira að segja líka uppi á norðurhálendinu.

Veðurfræðingar eru undir pressu að tala varlega, því að eitt orð á ská gæti kostað einhvern mótshaldarann eða jafnvel þá flesta milljónir króna.

Nú stefnir í að með  veðrinu í helgarlok muni rigning og rok ná einhvers konar endasprettshámarki, og er hætt við að ekki dugi alls staðar að segja: "Bara nokkrir dropar, annars logn og blíða".

Ekki eru fjölmiðlar undir minni pressu, heldur steðjar að þeim einhver mesti "plöggtími" ársins svo notað sé orðalag þeirra sem hafa úti allar klær vikum saman á undan þessari miklu ferða- og skemmtanahelgi, þar sem peningaveltan er númer eitt, tvö og þrjú.

En, eins og Jón Ársæll segir, "þetta er Ísland í dag". 


mbl.is Rigning og rok á Þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband