4.7.2011 | 20:05
Drepur fleiri en flest önnur fíkniefni.
Nikótín er erfiðast allra fíkniefna fyrir fíklana að losa sig við. Munar töluverðu á því og næst erfiðasta fíkniefninu sem er heróin.
Fyrir 20 árum hefði það þótt fráleitt að setja á bann við reykingum á opinberum stöðum eins og nú hefur verið gert.
Tóbakið er sem betur fer á undanhaldi en líklega er frumvarp Sivjar Friðleifsdóttur álíka langt á undan samtíð sinni og frumvarp um bann við reykingum á opinberum stöðum hefði verið á sínum tíma.
Gallinn við framkvæmd svona frumvarps felst líklega í því hve mikill kostnaður og fyrirhöfn myndi fylgja því að gera sígarettur lyfseðilsskyldar.
Ef hægt yrði að sýna fram á að reykingar myndu minnka svo mikið við þetta að heilsufarslegur ávinningur yrði meiri en kostnaðurinn vegna lyfseðlanna yrði kannski mögulegt að fá sölubann sett á nema gegn lyfseðli.
En líklega verður engin leið að segja til um slíkt fyrirfram og þess vegna borin von að frumvarpið verði samþykkt.
Og miðað við mikla umræðu undanfarið af svonefndu "læknadópi" má búast við að lyfseðilskyldar sígarettur sem "læknadóp" fái á sig frekar leiðinlegan blæ.
![]() |
Guardian fjallar um tóbaksfrumvarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.7.2011 | 11:42
Spurning um mannréttindi barna og jafnrétti kynjanna.
Ég er áhugamaður um vernd og viðgang íslenskrar tungu og tel mannanafnasið okkar frábæran og segi útlendingum frá honum með stolti.
Eitt af því sem hefur veitt þessum sið ákveðna ógn er hinn útbreiddi siður að nefna börn tveimur nöfnum.
Ástæðan er sú að í mörgum tilfellum vill nafn foreldrisins detta niður og jafnvel gleymast þegar rætt er um viðkomandi manneskju.
Af þessum sökum bera öll börn okkar hjóna aðeins eitt nafn hvert.
Ég hef auk þessa býsna róttækar skoðanir hvað varðar það að öll börn eigi helst að kenna við móður sína en ekki föður.
Það minnir mig á ákveðinn meting sem fram kom í máli tveggja þekktra Íslendinga fyrir um 80 árum þar sem annar stærði sig af því að vera kominn í beinan karllegg frá einum þekktasta Íslendingi 19. aldar.
Hinn benti þá á það að hann væri kominn í beinan kvenlegg af heldur minna þekktari Íslendingi.
Sagði þá hinn fyrri að sín ættfærsla leiddi sig til þekktari Íslendings og væri sín ættfærsla því merkilegri.
"En mín er öruggari" svaraði þá hinn.
Þrátt fyrir nokkuð harða afstöðu mína gagnvart nauðsyn þess að varðveita íslenska tungu og mannanafnasið hennar tel ég að mannréttindasjónarmið eigi að vera í fyrirrúmi við úrskurði um mannanöfn og einkum mikilvægt að koma í veg fyrir að börn séu nefnd nöfnum sem beinlínis verði þeim til trafala og geti jafnvel ýtt undir það að þau verði fyrir einelti.
Stundum finnst mér úrskurðir mannanafnanefndar orka tvímælis og til dæmis, varðandi nafnið Castelius, erfitt að halda því fram að stafurinn c sé ekki notaður í íslenskum nöfnum á sama tíma og hann er leyfður í eldri nöfnum eins og til dæmis ættarnafninu Thorlacius.
Mig grunar að ættarnafnasiðurinn sé það sem ógnar hinum dásamlega íslenska mannanafnasið sem vinnur gegn nútíma hugmyndum um jafnrétti kynjanna að því leyti að kona verði að taka upp ættarnafn manns síns við giftingu.
Ef allir þeir sem bera ættarnöfn viðhalda þeim, mun hann útrýma föður/móðurnafnasiðnum, og teldi ég miður ef svo færi.
Ef veita á íslenskum nafnasið vernd neyðist mannanafnanefnd til að sporna gegn ættarnöfnum þótt það skapi misræmi á milli þess sem viðgekkst áður og þess sem menn vilja taka upp í formi nýrra ættarnafna og mannanafna.
![]() |
Castiel hafnað - Kastíel leyft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)