5.7.2011 | 21:47
Flug snýst um þyngd og rými.
Flug snýst um það að yfirvinna þyngdarkraftinn og flytja þannig þunga á milli staða.
Þunginn þarf þar að auki rými í loftfarinu.
Oft er svo að sjá sem fólk átti sig alls ekki á þessu, - telji sjálfsagt að eigendur loftfara skaffi hvorutveggja skilyrðislaust.
En þannig er það ekki og verður aldrei.
Glíman við þyngd og rými er eitt helsta viðfangsefnið í fluginu, mun frekar en í landsamgöngum og flutningum á sjó.
Dæmi um þetta er að þungi farþeganna kostar mikla peninga. Meðalþyngd þeirra hefur aukist svo mikið að flugvélar, sem áður tóku að jafnaði fjóra í sæti, bera nú aðeins þrjá.
Flugrekendur hafa þurft að bregðast við þessu og það kostar peninga, því að auðsætt er að það kostar mikla orku að lyfta hundruðum farþega upp í meira en tíu kílómettra hæð og flytja þá þúsundir kílómetra.
Skrokkar nútíma þotna voru hannaðir fyrir 60 árum og eru nú orðnir heldur þröngir vegna stækkunar farþeganna.
Séu flugvélabúkarnir stækkaðir kostar það bæði auka þunga og meiri loftmótstöðu.
Krafan um jafnrétti án tillits til líkamsþunga eða fyrirferðar sýnist vera sjálfsögð en til eru þeir sem hafa dregið í efa að 130 kílóa farþegi eigi kröfu á að borga sama fargjald og 60 kílóa farþegi.
Þeir benda á að oftast sé ofþyngdin hinum þungu sjálfum að kenna og að þeir eigi að greiða þann umframkostnað sem af hlýst.
Aðrir benda á að þetta sé ekki einhlítt, sumir séu einfaldlega af náttúrunnar hendi minni og léttbyggðari en aðrir og efnaskiptin séu misjöfn.
Hitt virðist ljóst að ekki er hægt að gera þá kröfu að sumir geti krafist meira rýmis en aðrir án þess að borga fyrir það.
Í tengdri frétt um aukagreiðslu fyrir þá sem vildu færa sig í rýmri sæti í þotu Iceland Express er á tvennt að líta.
Af fréttinni má ráða að vegna þess að sætin hafi hvort eð er verið auð eftir að flugið var hafið hefði það ekki skipt neinu máli fyrir flugfélagið þótt farþegum hefði verið leyft að færa sig án sérstakrar aukagreiðslu.
Í fréttina vantar upplýsingar um það hvort allir hefðu getað fært sig á þennan hátt.
Raunar verður að efast um það vegna þess að takmörk eru fyrir því hvernig hægt sé að hafa alla farþegana í öðrum enda vélarinnar.
En síðan vantar einnig upplýsingar um það hvort þessi rýmri sæti voru í miðju vélarinnar eða fremst, en hið síðarnefnda finnst mér líklegra.
Farþegaþota er um margt líkt móður Jörð. Þeir sem um borð eru eiga ekki um annan verustað að velja á meðan á ferðinni stendur og þau gæði, sem eru fólgin í rými og þyngd, eru takmörkuð.
Rétt eins og flugvélin, ber Jörðin ekki nema ákveðinn fjölda fólks og það er ekki um aðra jörð að ræða.
![]() |
Boðið meira fótapláss fyrir 33 evrur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2011 | 14:49
Of stórt til að horfast í augu við það?
Á síðari hluta 18. aldar hófst Iðnbyltingin og þar með öld jarðefnaeldsneytis, sem til hægðarauka mætti kalla olíuöldina.
19. öldin var mörkuð hraðvaxandi þörf fyrir orkunotkun.
20. öldin var einstæð í sögu mannkynsins, "Olíuöldin" í öllu sínu veldi.
21. öldin mun óhjákvæmlega marka hrun olíunotkunarinnar en enda þótt allir ættu að geta séð hvert stefnir virðist vandamálið of stórt til að horfast í augu við það af þeirri alvöru sem til þarft.
Því seinna sem menn munu bregðast við af einhverri alvöru, því óviðráðanlegra verður það að komast í gegnum það sem framundan er í þessum efnum.
Fyrr á öldum hrundu stórveldi á borð við Persaveldi, Fönikíu, Rómaveldi og Tyrkjaveldi.
Nú blasir við hrun heils heimsveldis sem spannar allar þjóðir heims á tímum alþjóðavæðingar sem gerir ekkert ríki eða stórveli óháð öðrum.
![]() |
Þurfa trilljarða í græna tækni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.7.2011 | 10:55
"...það er óviðjafnanlegt..."
Ég var svo lánsamur hér fyrr á árum að eiga þess kost að sigla á nokkrum stöðum meðfram strönd Íslands.
Fyrsta skiptið var það sigling frá Siglufirði til Akureyrar í júnílok 1959 með bátnum Drangi frá héraðsmóti Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði á leið á héraðsmót flokksins á Akureyri.
Ég hef óteljandi sinnum flogið inn og út Eyjafjörðinn og ekið með ströndum hans en það jafnast einfaldlega ekkert á við að sigla inn fjörðinn.
Í apríl 1962 fór ég aftur með skipi og í þetta sinn frá Sauðárkróki yfir til Akureyrar á leið frá Sæluviku Skagfirðinga til Skíðalandsmótsins á Akureyri.
Einnig hef ég siglt með varðskipi frá Ísafirði til Hornbjargsvita og enda þótt ég hafi flogið ótal sinnum þessa leið er það svo stórkostlegt að sigla meðfram Kögri, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi að það er einhver mesta upplifun sem ég hef notið í íslenskum ferðalögum.
14 ára gamall naut ég þess láns að sigla á skipinu Dronning Alexandrine frá Reykjavík til Kaupmannahafnir og var siglt bæði á útleið og leið heim um færeysku sundin til Klakksvíkur, Þórshafnar og Trangisvogs á Suðurey í blakalogni og heiðskíru veðri.
Þetta var svo stórkostlegt að ég er enn hikandi við að fara aftur til Færeyja vegna þess að samanburðurinn við siglinguna 1955 verði óhagstæður.
Ég hef einnig siglt frá Hornafirði til Vestmannaeyja og frá Reykjavík til Vestmannaeyja, og ekki svíkur sú sigling né heldur siglingar um Breiðafjörð, bæði með Baldri og með Tryggva Gunnarssyni í Flatey.
Í Noregi er "Hurtigruten" afar vinsæl siglingarleið og varð um daginn óvænt einhvert vinsælasta sjónvarpsefnið þar í landi þegar sjónvarpað var beint frá siglingunni.
Spurningin er hvort eitthvað hliðstætt gæti gengið á Íslandi og fyrst útlendingar geti þolað sjólagið við landið á erlendum skemmtiferðaskipum geti Íslendingar og útlendingar þolað það og notið þeirrar einstöku upplifunar sem sigling á stóru og góðu skemmtiferðarskip er.
Enda þennan pistil með textanum "Að sigla inn Eyjafjörðinn" sem Ragnar Bjarnason söng fyrir mig með undirleik Grétars Örvarssonar fyrir sjónvarpsþáttinn "Fólk og firnindi - Á slóð Náttfara."
Lagið er að finna á CD og DVD diskunum "Ómar lands og þjóðar".
AÐ SIGLA INN EYJAFJÖRÐINN. (Lag: Cruising down the river)
Að sigla´inn Eyjafjörðinn
það er yndislegt um vor
í björtu veðri´er býr sig fugl
við bjarg og klettaskor.
Er sólin heit í heiði
baðar dali´og haf og fjöll.
Í háum hamrabjörgum
heilsa okkur þjóðfræg tröll.
Hrísey, fjarðardjásnið frítt
mót fagurgrænum dal.
Við Múlann vaggar bátur blítt
við bjargsins hamrasal.
Um háu hamraskörðin
hoppa lömb í friði´og spekt.
Að sigla´inn Eyjafjörðinn
það er óviðjafnanlegt.
Allir hér nú afar vel
una sínum hag
á skemmtiferðaskipunum
sem skríða inn í dag.
Þar ferðamannahjörðin
kyrjar frjáls í ró og spekt:
Að sigla´inn Eyjafjörðinn
það er óviðjafnlegt!
![]() |
Farþegum fjölgar með skemmtiferðaskipum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)