8.7.2011 | 15:27
"Þjófstartar" Katla?
Katla minnir á sig. Hekla er líklegri til að verða fyrri til. Þó vekur síðasta skjálftahrina upp spurningu um það hvort hún muni "þjófstarta" og verða á undan Heklu.
Heklugos verður að líkindum í minna lagi eins og gosin 1980, 1991 og 2000 af því að minni kvika hefur safnast saman en eftir lengri hvíldartímabil.
Katla hefur hins vegar verið að safna í næstum heila öld og Heklugosið 1947 varð jafnstórt og raun bar vitni vegna þess hve hvíldartíminn var langur.
Kötlugos verður því að líkindum mun afdrifaríkari viðburður en Heklugos og einnig verri en gosið í Eyjafjallajökli.
![]() |
Skjálftahrina í Mýrdalsjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.7.2011 | 15:08
In dubio pro reo.
Ofangreind fjögur latnesk orð túlka grundvallarreglu vestræns réttarfars. Þau þýða það að öll vafaatriði í málum beri að túlka sakborningi í vil.
Mál Páls Reynissonar vekur margar spurningar. Hann var nafngreindur í helstu forsíðufrétt Fréttablaðsins. Réttlætti málið jafn stórfellda röskun á högum hans og það gera slíkt? Það þarf yfirleitt að gera af vel yfirlögðu ráði með brýna almannahagsmuni í huga.
Ég set spurningarmerki við að svo hafi verið gert.
Útskýring blaðsins gæti verið sú að aðstæður í málinu hafi verið svo óvenjulegar að ef á annað borð var verið að segja frá vettvangi þess til útskýringar á eðli þess, væri eins gott að viðhafa nafnbirtingu eins og að tala um "safn tengt veiðum á dýrum." Eftir stendur samt: In dubio pro reo.
Þótt nafnbirtingar fjölmiðla tengist ekki refsirétti eru þær oft í raun hluti af refsingu, ekki hvað síst vegna þess að þær koma ævinlega fram áður en málið hefur verið til lykta leitt.
Ef Páll hefur betur í þeim málarekstri sem framundan er efast ég um að það verði eins stór forsíðufrétt sem "selji vel" og upphaflega fréttin.
Við fljótan yfirlestur fréttarinnar og fyrirsagnar hennar, sem flestir lesendur nota, voru upplýsingarnar, sem veittar voru, ekki "sakborningi í vil. "Skaut ölvaður út í loftið". "Hafði 90 skotvopn á heimili sínu."
Nafngreindur í þokkabót.
Nú er málið komið á ákveðinn farveg og vonandi verður reglan um tillit gagnvart meintum sakarefnum metin með hina góðu latnesku setningu að leiðarljósi.
![]() |
Fær ekki vopnin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2011 | 14:18
Óvenjulegt ástand í fyrradag og í gær.
Síðan Veðurstofan tók upp sjálfvirka símsvarann 9020600 fyrr allmörgum árum hef ég reglulega, oft daglega eða oftar, hringt í hann til að fá upplýsingar, meðal annars um flugveðurskilyrði.
Í upphafi þess sem lesið er um þau, er tilgreindur vindur í 5000, 10000 og 18000 feta hæðum og geta tölurnar til dæmis verið þessar: 5000 = 270gr/20 hnútar, 10000 = 300/40 og 18000 = 320/70
Aldrei í öll þessi ár hefur verið logn í öllum þessum þremur hæðum fyrr en í fyrradag. Þá var gefin upp "variable 5 hnútar" í þeim öllum sem þýðir áttleysa. Þetta var aldeilis dæmalaust en af þessu mátti ráða það að loftmassinn yfir landinu væri hreyfingarlaus og að af því leiddi að sólfarsvindar myndu ná sér á strik síðdegis þegar sólin hitaði upp miðju landsins, heita loftið stigi þar upp og þar með myndi svalt loft streyma inn á land frá sjónum.
Greinilegt var að Veðurstofan treysti sér ekki til að spá því hvar þetta loft myndi fyrst streyma inn en síðdegis byrjaði þoka að streyma inn frá Faxaflóa og var með naumindum að ég slapp í loftið af flugvellinum á Tungubökkum í Mosfellsbæ, áður en hann lokaðist.
'i gærmorgun réði þessi þoka ríkjum í Reykjavík framundir hádegi en afar athyglisvert var að fylgjast með því hvernig einstök hverfi í Reykjavík og jafnvel einstakar flugbrautir Reykjavíkurflugvallar fóru út úr því.
Ég komst um það bil 30-60 mínútum fyrr í loftið en ella vegna þess að ég gat veitt mér þann munað að nota hvaða braut sem var, þótt smágola væri á sumum þeirra á eftir mér.
Ég fékk að nota vestur-austur-brautina og það var þétt þoka á vesturendanum, þar sem ég hóf flugtaksbrunið. Þegar komið var inn undir miðja braut létti til og síðan var klifrað í björtu veðri yfir Öskjuhlíðina og austur yfir borgina þar sem sólin skein í heiði.
Vélarnar sem þurftu að nota norður-suður-brautina urðu að fá blindflugsheimild og hurfu upp í þokuna við suðurendann í 30 metra hæð.
![]() |
Milt og gott veður um helgina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)