Hleranir sjálfsagt mál hér á landi.

Í raun eru símhleranir sjálfsagðar hér á landi og óhugsandi að "símhlerunarhneyksli" geti komið upp hér.

Fyrir nokkrum árum kom fram að símar hefðu verið hleraðir hjá mörgum íslenskum stjórnmálamönnum í Kalda stríðinu og þrátt fyrir nokkra umræðu um þær um stund, dó hún út og aldrei kom til greina að biðja viðkomandi afsökunar eða kafa nánar niður í málið. 

Öðru máli gegndi um svipað mál í Noregi, sem var kannað til hlítar og birt afsökunarbeiðni. 

Ég hef áður í þessum pistlum sagt frá rökstuddum grun um ótrúlega víðtækar símahleranir síðsumars 2005 í framhaldi af sérstakri æfingu á vegum NATÓ þar sem æfð voru viðbrögð við aðgerðum "umhverfishryðjuverkamanna", en sá skilgreindi hópur þótti greinilega hættulegri en nokkur annar hér á landi og ógna mest öryggi landsmanna. 

Ekki urðu nein viðbrögð við þessu og virðist svo sem Íslendingar sætti sig við þá miklu skerðingu á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs sem hleranir eru, og sætti sig líka við að enginn í þjóðfélaginu geti verið óhultur fyrir hlerunum. 

Hins vegar er slíkt ástand talið hneyksli erlendis og óþolandi. 


mbl.is Allir vissu um hleranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig þarf stjórnmálalandslagið að breytast?

Lögfræðingur lögfræðistofunnar Logos, sem hefur milligöngu um erlendar fjárfestingar á Íslandi, segir að "stjórnmálalandslagið" hér á landi hafi ekki boðið upp á erlendar fjárfestingar alþjjóðlegra banka að undanförnu.

Þá vaknar spurningin hvernig stjórnmálalandslagið þarf að breytast til þess að alþjóðlegir bankar vilji fjárfesta hér, en í frétt um þetta á mbl.is er sagt að þeir sýni mikinn áhuga á því upp á síðkastið. 

Er hægt að draga þá ályktun af þessu að hér sé á penan hátt verið að setja fram vilyrði til Íslendinga um að þeir fái lán ef þeir breyti stjórnmálalandslaginu hér? 

Síðasta árið sem lánsfé streymdi til landsins var 2006 og entist það ástand fram á mitt ár 2007. 

Á þeim tíma var stjórnmálalandslagið þannig að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu farið með stjórn landsins í 12 ár. 

Ber að skilja það sem kemur fram í fréttinni sem svo að Íslendingar geti aftur fengið aðgang að lánsfé ef stjórnmálalandslagið breytist í það horf sem var til 2007, sem sé að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fari hér með örugg völd ?

Sé svo er ljóst að hið alþjóðlega auðræði vill fá að ráða því hverjir séu við stjórnvölinn á Íslandi og lofar gulli og grænum skógum ef við Íslendingar makka rétt. 


mbl.is Hafa mikinn áhuga á að lána til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn er það sem hann étur og brennir ekki.

Allt fram til 2009 stundaði ég reglubundna líkamsþjálfun sem byggðist á gríðarlegri brennslu og áreynslu í u.þ.b 50 mínútur.  Þetta hafði ég gert áratugum saman og það nægði til að halda líkamsþyngdinni nálægt svonefndri kjörþyngd og allt að fimm kílóum niður fyrir hana auk þess sem þetta gaf ómetanlegt úhald og snerpu miðað við aldur.

Á árunum 2006 til 2009 þurfti að gera tvær aðgerðir á hnjám vegna slits og of mikils álags og það þýddi að ekki var hægt að hlaupa af sama ákafa og jafn lengi og áður, heldur varð að minnka álagið og láta hraða göngu bæði á jafnsléttu og upp stiga koma í staðinn. 

Eftir fótbrot 2009 versnaði þetta enn frekar. 

Þetta kom fram á líkamsþyngdinni sem óð upp um tólf kíló þegar verst lét, þrátt fyrir viðleitni í mataræði til að hafa hemil á henni. 

Jónína dóttir mín sagði mér að miklu skipti að álagskafli æfinganna væri lengri en 20 mínútur í samfellu en þegar hnén gáfu sig var erfitt að halda því. 

Þegar þetta og það, sem Ágústa Johnson er að benda á, eftirbruninn, leggst saman verður útkoman þynging því að takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að komast á aðhaldi í mataræði einu saman. 

Allt myndar þetta eina heild þar sem hið grimma lögmál gildir að maðurinn er það sem hann étur og það sem hann brennur ekki. 


mbl.is Svona áttu að fara að því að grennast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband