Löngu fyrirséð og getur orðið verra.

Það var löngu fyrirséð og óhjákvæmilegt að Landhelgisgæslan hefði enga þyrlu tiltæka í útkall. Það lögmál gildir í flugrekstri, að ekki sé nú talað um þyrlurekstur, að helstu þurfi að vera fimm og mikil áhætta að fara niður í þrjár.

Höfuðástæðan er sú að sá tími sem þyrlur eru óflughæfar vegna viðhalds er mun lengri en flugtíminn sem þær fljúga. 

Skoðum fimm þyrlur, eins og voru í flugsveit Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, meðan hún var. 

Af þessum fimm eru að jafnaði minnst tvær óflughæfar vegna viðhalds. 

Þá eru eftir tvær. 

Önnur þeirra getur bilað. 

Þá er eftir ein. 

Upp koma tvö útköll á sama tíma. Þá vantar eina og ekki hægt að sinna öðru útkallinu. 

Að hafa tvær þyrlur er að bjóða hættunni heim. 

Önnur er í skoðun og hin bilar. Þá er engin eftir. Svo einfalt er það. 

Sem betur fór var það minniháttar slys sem varð í Kverkfjöllum. Sem betur fór var tiltæk einkaþyrla. 

Ef þetta ótæka ástand kostar mannslíf má benda á það að íslenskt mannslíf í köldum, beinhörðum peningum er virt á 2-300 milljónir króna.  Þá er ekki tekið með aðaláfallið, hið sálræna og tilfinningalega. 

Það má þakka fyrir að þetta ástand hafi ekki enn kostað mannslíf. En svona háskaleikur er óverjandi. 

Hún getur bilað. 

 


mbl.is „Óviðunandi ástand“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsblekkingin, mesta hættuspil einstaklinga og mannkyns.

Sjálfsblekkingarhæfileiki mannsins er hættulegasti eiginleiki hans. Tökum nokkur dæmi.

Áfengisfíkillinn er sannfærður um það að hann sé "hófdrykkjumaður." Þangað til allt hrynur.

Anorexíusjúklingurinn sér ekkert athugavert við vöxt sinn. 

Heldur ekki offitusjúklingurinn. 

Kjarnorkuveldin telja kjarnavopnabirgðir sinar tryggingu fyrir því að þau verði aldrei notuð. 

Ráðamenn og þjóðir heims eru sífellt að glíma við vanda morgundagsins og dagsins í dag í stað þess að sjá og glíma við hinn raunverulega stóra vanda, offjölgun og orkubruðl sem endar með orkuþurrð og hruni efnahagslífs heimsins.

Íslendingar trúa því og auglýsa fyrir öllum heiminum að jarðvarmavinnslan í núverandi formi sé "nýting á endurnýjanlegri orku" og "sjálfbær þróun" þótt langt sé frá því að svo sé. 

Meirihluti þjóðar okkar trúði á "íslenska efnahagsundrið" og gróðabóluna, sem síðan sprakk í Hruninu.

"Fjármálasnillingarnir" trúðu því að með bókhaldsbrellum gætu skapast verðmæti úr engu og útskýrðu það siðan, þegar þau reyndust vera engin, að "þau hefðu bara horfið, gufað upp." 

Því var fagnað hér á landi að við værum ríkasta þjóð heims þótt allir mættu sjá að gróðærið var uppblásin sápukúla. 

Því var hampað hér á landi að erlend rannsókn sýndi að hér væri einhver minnsta spilling í heimi þótt meginorsök Hrunsins reyndist vera landlæg spilling svo langt aftur sem elstu menn mundu. 

Matfyrirtæki mátu lánshæfi Íslands í efstu hæðum á sama tíma og hér stefndi óhjákvæmilega í það að allt spryngi í loft upp. 

Oft þjást Íslendingar af minnimáttarkennd sem brýst út í oflæti og hroka. Ef eitthvað bjátar á er oft nærtækasta skýringin að það sé útlendingum að kenna og að allir séu vondir við okkur. Skrifuð var heil bók um "Umsátrið um Ísland." 

Á sínum tíma voru veittar undanþágur frá notkun bílbelta á þeim forsendum að hér væru "séríslenskar aðstæður." 

Aðlögunarhæfni okkar getur verið mikil og orðið okkur til bjargar en þegar hún byggist á sjálfsblekkingu getur hún snúist gegn okkur á afdrifaríkan hátt. 

 

 

 


mbl.is Mér fannst ég aldrei vera feit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarvera útsynningsins í sumar.

Vegna umsjónar minnar og "búskapar" á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum hef ég fylgst óvenju náið með veðrinu á svæðinu frá Reykjavík um Suðurland og austur á norðausturhálendið í sumar.

Sérstaka athygli mína hefur vakið, hve sjaldan vindurinn hefur blásið úr vindáttunum frá suðri til vesturs í sumar, en í slíku veðri er þurrt og hlýtt á norðausturhálendinu og mikil bráð á Brúarjökli.

Lengst af í sumar hefur verið þungskýjað norðan jökla og bráðnun lítil. Þess vegna er minna núna í Hálslóni en verið hefur nokkurn tíma frá upphafi þess lóns. 

Það er helst að birt hafi til á dögum þegar bjart hefur verið yfir öllu landinu eins og í dag. 

En gallinn er bara sá, að þótt spáð sé léttskýjuðu veðri loksins í dag, er samkvæmt veðurathugun enn þoka þar og mun varla létta til fyrr en um hádegi. 

Hitinn er á meðan við frostmark uppi á Brúarjökli og bráðnun því lítil sem engin og aðeins lítill hluti sólarhringsins sem hennar nýtur. 

Austanáttir hafa verið afar þrálátar í sumar og virðist ekkert lát ætla að verða þar á. 

Ég man aðeins eftir einu ári þegar suðvestanáttin kom aðeins tvisvar en það var hafís- og kuldaárið 1979. 

Munurinn á þessu ári og því ári er hins vegar sá, að heiti loftmassinn, sem er yfir Evrópu, þenst miklu meira út núna en þá þannig að kaldir loftmassar eiga ekki eins greiða leið suður yfir Ísland og þá. 

Þetta eru góðar fréttir fyrir ferðaþjónustuna á sunnanverðu landinu en á hinn bóginn hefur tíðarfarið ekki verið hagstætt fyrir ferðaþjónustuna fyrir norðan. 


mbl.is Óhætt að elta sólina um Suðurlandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband