19.8.2011 | 23:43
Óverjandi að treysta á svona hundaheppni.
TF-LÍF bjargaði fólki úr sjálfheldu í Býðargili í kvöld þegar engin önnur ráð voru til björgunar. Og er ekki allt gott um það að segja? Jú, vissulega en hvað ef þyrlan hefði enn verið óflughæf eins og hún var í gær. Í miðnæturfrétum útvarpsins sagði að hún hefði orðið flughæf rétt fyrir útkallið í kvöld.
Ef hún hefði ekki verið lofthæf hefði bara verið kallað á þyrlu Norðurflugs eins og í Kverkfjöllum, segja einhverjir. En þannig er það bara ekki. Í Búðargili gat aðeins sérbúin björgunarþyrla komið að notum, því að aðeins úr slíkum þyrlum er hægt að hífa fólk upp í þyrluna af jörðu niðri.
Það er verið að spila rússneska rúllettu um mannslíf með því að Landhelgisgæslan hafi aðeins tvær björgunarþyrlur.
"Algert lágmark" sagði innanríkisráðherra í fréttum í kvöld.
Rangt.
Hið rétta er að þetta er fyrir neðan algert lágmark og því lengur sem þetta er látið viðgangast því meira aukast líkurnar á mannskaða af völdum óverjandi stefnu í þessum málum.
![]() |
Þyrlan bjargaði fólkinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.8.2011 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.8.2011 | 12:33
Réttar tölur uppi á borðinu!
Ef Alþingi samþykkir þingsályktun um Rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma þar sem 20 hugsanleg virkjanasvæði verða sett í verndarflokk hefur unnist stærsti áfanga-varnarsigurinn í íslenskri náttúruverndarbaráttu.
Verndun Þjórsárvera og björgun fossanna fyrir neðan þau að mestu (búið er að taka 30- 40% af þeim) markar endalok 40 ára baráttu. Ég á mér samt þann draum að opnast muni síðar möguleikar til að láta Dynk, flottasta stórfoss Íslands, fá aftur aflið sem haf honum hefur verið tekið.
Þegar hins vegar er sagt að 22 séu í "nýtingarflokki" (rangnefni, nýting getur líka falist í verndun, samanber Gullfoss) gleymist að þegar hafa 28 stórar virkjanir litið dagsins ljós á Íslandi og þar með er meiri hluti allra virkjanakosta (50 af 97) kominn inn á borð virkjanafíklanna.
Skiptingin hefur nefnilega hingað til verið í svipuðum dúr og þegar uglan skipti ostbitanum í dæmisögunni góðu, - það er alltaf látið í veðri vaka að skiptingin sé jöfn þótt þegar sé búið að taka bróðurpartinn til annars aðilans.
En hlutfall verndaðra svæða er enn minna en ofangreindar tölur sýna, því að enn á eftir að taka 32 virkjanakosti til meðferðar.
Alls 129 kostir, þar af 50 með grænt ljós, búið að virkja eða á að gera það.
28 þegar virkjaðir.
22 í "nýtingarflokki"
27 í biðflokki
32 óafgreiddir
20 í verndarflokki.
Af þessu sést að af 129 kostum gerir þingsályktunin aðeins ráð fyrir að 20 verði settir í verndarflokk eða aðeins 15,5 %
Ekki hefur fengist fram vernd á Skaftársvæðinu, heldur það sett í biðflokk. Það er slæmt, þótt slagurinn sé ekki endanlega tapaður.
Og meðal þeirra kosta sem á eftir að fjalla um eru Askja, Kverkfjöll og fleiri af allra helstu náttúruundrum Íslands.
Þótt Gjástykki sé í orði bjargað, fer það eftir skilgreiningu hvort eldstöðvunum frá Kröflueldum er í raun bjargað, því að virkjanafíklar nota sér úrelta skilgreiningu landamerkja til að fá það fram að virkja í Vítismó, sem sannanlega er óaðskiljanlegur hluti í þeirri landslagsheild, sem Gjástykki-Leirhnjúkur er.
Vítismór er núna flokkaður undir viðbót við Kröfluvirkjun og fær grænt ljós!
Af fréttum má ráða að ekki eigi að virkja á Torfajökulssvæðinu en samt er óákveðið með Reykjadalli, sem eru hluti af þeirri landslaugsheild.
Nú þarf aðeins að hnykkja á því að framkvæma ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um að allt ósnortna svæðið milli Suðurjökla (Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls) og Vatnajökuls verði friðað.
Virkjun Hólmsár og Skaftár yrði inni á þessu svæði og því má það ekki gerast að ráðist verði í þær.
Þegar Bretum tókst á ævintýralegan hátt að bjarga 338 þúsund hermönnum yfir Ermasund úr herkví í Dunkirk vorið 1940 í stað þess að þeir féllu í hendur Þjóðverjum fögnuðu margir þessu óvænta kraftaverki.
En Churchill sagði eitthvað á þá leið að óvæntum höppum í undanhaldi bæri að vísu að fagna en jafnframt hafa í huga að "ekkert stríð vinnist með vel heppnuðu undanhaldi".
Enn hefur 101 af 129 virkjanakostum Íslands ekki verið slegnir af, eða 84,5%. Ef einhver heldur að baráttan fyrir íslenska náttúru sé á enda er það mikill misskilningur, rétt eins og það reyndist mikill misskilningur að vel heppnað undanhald frá Dunkirk 1940 hefði tryggt sigur yfir nasistum.
![]() |
Samstarfinu við AGS lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.8.2011 | 11:30
Sögur af prófessorum.
Löngum hafa gengið sögur af því hve utan við sig mestu andans menn geta orðið. Hafa prófessorar oft verið nefndir af því tilefni.
Á miðri síðustu öld gengu slikar sögur af einum af prófessorunum i Háskólanum og var ein þeirra alveg sérstaklega fleyg.
Prófessorinn ætlaði að fara út með barn sitt í barnavagni í góðu veðri á sunnudagsmorgni og fá sér göngutúr í leiðinni. Þetta þurfti undirbúning og fer ekki sögum af honum, en skömmu síðar var prófessorinn kominn af stað með barnavagninn í blíðviðrinu og allt gekk vel til að byrja með.
Hann gekk fram á slatta af fólki og heilsaði því eða veifaði, stoltur faðirinn.
En siðan kom að því að fólk sem hann mætti og þekkti vel, gaf sig á tal við hann, afar hrifið af framtaki hins lærða föður.
Það bað um að fá að sjá barnið en þá kom í ljós að ekkert barn var í vagninum, prófessorinn hafði gleymt því kappklæddu heima !
Önnur saga úr Háskólanum hér forðum daga var sú að prófessor ætlaði að fara að kenna í tíma og skundaði til kennslustofu. Hann opnaði dyrnar, leit inn í tóma stofuna og sagði stundarhátt: "Afsakið, ég vissi ekki að það væri enginn hérna!"
Sjálfur færi ég að kasta úr stóru glerhúsi ef ég hneykslaðist yfir svona löguðu. Ég var kallaður prófessorinn sem strákur vegna legu minnar yfir bókum og því sem ég kalla "smáhlutagleymsku".
![]() |
Áfallið er mest fyrir foreldrana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2011 | 10:03
Óhjákvæmileg þróun.
Stærstu krossgötur Íslands eru á svæðinu í kringum Elliðárdal, í línunni Ártúnshöfði-Mjódd-Smárinn.
Þungamiðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er austast í Fossvogi.
Þungamiðja atvinnufyrirtækja höfuðborgarsvæðisins er austan við Kringlumýrarbraut.
Afleiðingarnar hafa lengi blasað við án þess að tekið hafi verið eftir því: Hvers kyns starfsemi leitar inn að miðjunni, og ekki er hægt að færa þessa miðju til, því að bein lína Akureyri-Mosfellsbær-Suðurnes liggur um Elliðaárdal og bein lína Selfoss-Reykjavík liggur líka um Elliðaárdal.
Hvarf síðasta bankans af Laugavegi og Bankastræti og færsla hans í austurátt er eitt af mörgum dæmum um þetta.
Sumir hafa sagt sem svo að með því að gera nýja samgönguæð um Sundin og gamla miðbæiinn yfir á Álftanes og þaðan suður úr sé hægt að búa til nýjar krossgötur.
Allir sjá að svo tröllaukin risaframkvæmd er útilokuð.
Aðrir segja að með því að leggja flugvöllin niður og reisa þar tugþúsunda íbúðabyggð sé hægt að láta verslun og þjónustu færast nær Kvosinni.
Þetta er sömuleiðis alveg óraunhæft, því að krossgöturnar færast ekkert við þetta og það er alþjóðlegt lögmál að krossgötur soga til sín verslun og þjónustu.
Og hvaðan á það fólk að flytja, sem á að eiga heima í þessu nýja hátimbraða borgarhverfi? Standa ekki þúsundir íbúða auðar á höfuðborgarsvæðinu?
Þá er sagt að með tímanum muni þurfa þetta nýja Vatnsmýrarhverfi vegna fólksfjölgunar á þessari öld. En hve langan tíma mun það taka?
Sagt er að milljarðatugir muni græðast vegna kaupa manna á lóðum á fyrrum flugvallarsvæði.
Detta þessir peningar af himnum ofan? Einhverjir hljóta að borga þá og hætta við að nota þá í eitthvað annað.
![]() |
Síðasti bankinn hverfur af Laugaveginum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)