21.8.2011 | 21:00
"Sic semper tyrannis".
Þessi þrjú latnesku orð hafa oft hljómað við fall valdhafa, sem oftast hafa réttilega verið kallaðir harðstjórar en ekki alltaf átt það skilið.
Brútus er sagður hafa kallað þau þegar hann stakk Sesar og John Wilkis Booth þegar hann skaut Lincoln.
En ekki þarf að fara í grafgötur um það hvers konar valdhafi Gaddafi hafi verið og ekki ólíklegt að þessi upphrópun eigi eftir að heyrast aftur þarna við Miðjarðarhafið eftir 2054 ára hlé frá því að þau voru hrópuð norðan hafsins þar til að ástæða er til að hrópa þau aftur sunnan hafsins.
![]() |
Segir Gaddafi ekki lifa af valdaskipti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.8.2011 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.8.2011 | 13:18
"Þegar Bryndís fánann fellir..."
Það er ekki nýtt fyrirbæri að flaggað hafi verið flíkum á fánastöngum. Ég veit um tvö dæmi þess.
Einhvern tíma á áttunda áratugnum kom ég fljúgandi ofan af hálendinu til Akureyrar og þurfti að hafa hraðann á við setja bensín á vélina og halda sem snarast áfram suður.
Á hálendinu hafði ég farið í ullarnærfatnað og fór úr honum í flýti á Akureyrarflugvelli og flaug síðan rakleiðis upp í Kerlingarfjöll.
Þegar ég var á bakaleiðinni náði ég sambandi við flugturninn á Akureyri, en æringinn Húnn Snædal var þá á vakt.
Húnn sagði mér að hann ætlaði að flagga í tilefni af væntanlegri komu minni.
Ég taldi það nú fullangt gengið en hann sagðist samt ætla að gera þetta og að ég hefði enga ástæðu til að vera vanþakklátur. Ég sagðist ekki skipta mér af þessu, hann hefði völdin á vellinum.
Þegar ég kom inn til lendingar brá mér í brún. Húnn hafði dregið bláleitar síðar ullarnærbuxur að húni á flaggstönginni og sá ég það þetta voru nærbuxur sem ég hafði gleymt í flýtinum nyrðra fyrr um daginn!
Húnn sagðist hafa gert þetta af geiðasemi við mig svo að ég gleymdi nærbuxunum ekki öðru sinni og ég þóttist vita að það hlakkaði í honum að geta svarað forvitnum flugfarþegum, sem komu til flugstöðvarinnar, um það hvers vegna þessi viðhöfn væri höfð.
Í þætti hjá Hemma Gunn á sínum tíma kom fram að Jón Baldvin Hannibalsson hefði gert það sér til gamans eitt kvöld í Edinborg að draga nærbuxur Bryndíar Schram að húni á flaggstöng við Edinborgarkastala.
Þegar hagyrðingurinn Jóhannes Benjamínsson heyrði þetta gerði hann tvær eftirfarandi stökur á stundinni, og skal tekið fram að ekki er víst að ég muni þá fyrri þeirra nákvæmlega upp á orð:
Ástir krata ættu´að skána,
einkum þó hjá þessum hrók,
ef hann notar fyrir fána
frúar sinnar undirbrók.
Voðalegir verða smellir.
Víst er þetta herleg sjón:
Þegar Bryndís fánann fellir
flaggstöngina reisir Jón.
![]() |
Flaggaði flík um miðja nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2011 | 01:16
Hálffalin flugeldasýning og daufur hjúpur.
Hvaða snillingi datt það í hug að þegar metfjöldi fólks var staddur á Arnarhóli, hafði óhindrað útsýni til vesturs og norðvesturs og var búinn að horfa í þá átt allt kvöldið, að hafa flugeldasýninguna í öfugri átt, þar sem háu húsin við Skúlagötu földu allan neðri hluta hennar?
Þessum sama skara áhorfenda, sem stærstum hluta stóð all fjarri Hörpu, var búið að telja trú um það dögum saman, að þegar ljósin yrðu kveikt í glerhjúpi Hörpu yrði það einhver mesta ljósadýrð og bjarmi allra tíma, svo mikið hafði verið gert úr þessu.
En allir þeir, sem ég hitti þarna, voru sammála um að uppblásin stóryrði um ofurbjarma allra tíma hefðu gert það að verkum að þeir urðu fyrir miklum vonbrigðum.
Flestir héldu að eitthvað hefði farið úrskeiðis og að aðeins hluti ljósanna hefði kviknað, enda virkuðu þau mjög dauf þegar staðið var fjarri þeim, eins og öllum þeim, sem auglýstu þetta hefði mátt vera ljóst.
Mér sýnist ljóst að listaverkið njóti sín ekki nema séð tiltölulega nálægt húsinui af Geirsgötunni og í stað þess að þessi frumsýning ylli vonbrigðum hefði átt að taka þetta fram og hafa lýsinguna á því sem í vændum var heldur hófstilltari.
Að öðru leyti skóp eindæma blíðviðrið og metfjöldi fólks með tilheyrandi stemningu eftirminnilega kvöldstund.
Það stefnir í að sumarið 2011 verði skráð í sögubækurnar á sunnanverðu landinu sem blíðviðrissumarið mikla og lendi þar á pari með blíðviðrissumrinu mikla 1939.
P. S. Mér finnst rétt að geta þess að mér finnst ljósaskreyting glerhjúpsins bæði falleg og vel heppnuð. En uppspennt kynningin í langan tíma á á undan vakti væntingar langt umfram það sem í vændum var.
![]() |
Glerhjúpur Hörpu tendraður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)