Ófær "haltu mér - slepptu mér" stefna.

Nasistar gengu hreint til verks á árunum 1933-1945. Þýskaland gat ekki brauðfætt sig og sú tilhugsun að hinn "æðri kynþáttur" Aríar, sem byggja skyldu landið, gætu ekki framfleytt sér kallaði á "lausn". (Raunar hefur verið sýnt fram á það að kenningin um hina "hreinu Aría" fær ekki staðist)

"Lausnin" var einföld. Herraþjóðin (Herrenvolk) skyldi leggja undir sig alla Evrópu austur að Uralfjöllum og slavnesku þjóðirnar, sem væru "óæðri kynþáttur" skyldu beygja sig undir vald herraþjóðarinnar í einu og öllu og starfa sem ódýr vinnukraftur við að fæða herraþjóðina og klæða hana.

Á síðustu árum hefur komið í ljós að hinar ríku þjóðir Vestur-Evrópu hafa vegna velmegunarinnar hætt að fjölga sér og því hefur orðið að flytja inn ódýrt vinnuafl frá austanverðri og sunnanverðri álfunni til þess að vinna þau grundvallarstörf láglaunastéttanna, sem eru í raun undirstaða framleiðslunnar og velmegunarinnar.

Hér á landi hefur svipað gerst. Vestfirðir væru að líkindum að fara endanlega í eyði ef ekki hefði komið til stórfelldur innflutningur á útlendingum, aðallega Pólverjum, til þess að vinna í fiskvinnslufyrirtækjum og öðrum framleiðslu- og þjónustugreinum, þar sem laun eru lág og ekki lengur samboðin Íslendingum, "hreinræktuðum" Íslendingum.

Raunar eru hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig sem "hreina norræna þjóð" að stórum hluta bull, því að minnst þriðjungur landnámsmanna kom frá Bretlandseyjum og jafnvel víðar að.

Það er ekki Pólverjum og öðrum útlendingum að kenna að hér á landi skuli nú vera talað um "innflytjendavandamál", "gettó í Breiðholti" og "útlendan glæpalýð."

Við sjálfir berum ábyrgð á launakerfi sem býr til slíka skiptingu og þar er líka um að ræða mismunun á milli karla og kvenna, sem John Lennon lýsti þannig: "Konan er negri heimsins."

Þegar ég var ungur var mér og jafnöldrum mínum innrætt að öll vinna göfgaði manninn og enginn væri svo merkilegur eða yfir aðra hafinn að hann gæti ekki verið stoltur af því að vinna með höndunum í sveita síns andlitis.

Nú snýst allt um að mennta fólk sem best og það er nauðsynleg stefna, sem þarf að halda á lofti. En það þýðir ekki að sú erfiðis- og þjónustuvinna, sem inna þarf af hendi eigi að vera lítils metin og illa launuð.

Pólverjar eru langfjölmennastir innflytjenda á Íslandi og eru í raun orðnir að þjóðarbroti á svipaðan hátt og sænskumælandi Finnar.

Ég fæ ekki séð annað en að Pólverjar hafi samlagast íslensku þjóðfélagi vel og hef ekki séð neinar tölur um það að hegðun þeirra, framlegð og löghlýðni standi neitt að baki því sem hefur verið hjá okkur, hinum "hreinu Íslendingum" nema síður sé.

Þeir hæst geipa um "innflytjendavandamál" og níða niður "fjölmenningarsamfélag" ættu að koma til Vestfjarða og vera þar á árlegri hátíð sem kölluð er "Þjóðahátíð".  Þar geta þeir  séð hvernig fólk frá mörgum löndum hefur auðgað og gætt nýju lífi menningu og listir fyrir vestan.

Við lifum í tæknivæddum heimi alþjóðasamfélags. Enginn er lengur eyland þótt hér á landi sé útbreiddur sá hugsunarháttur að við getum alveg verið hér einir og lokað okkur af frá öðrum þjóðum.

 Við getum ekki haldið uppi þeirri haltu mér - slepptu mér stefnu, sem felst í því að flytja inn ódýran vinnukraft af því að við viljum ekki sjálf vinna láglaunastörf, en bölva jafnframt því fólki sem vinnur þessi störf fyrir okkur.

Nú gerast þeir háværir bæði á Norðurlöndum og hér á landi sem vilja "hreinsa til" og "leysa innflytjendavandamálið" til þess að hugsjón þeirra um "hreina Íslendinga" eða "hreinan norrænan kynþátt" sem byggi landið, verði að veruleika.

Þessir menn verða að segja okkur hvernig við ætlum okkur að framkvæma þetta í raun. Hvaða "hreinir Íslendingar" eða "hreinir norrænir menn" eiga að vinna störf Pólverjanna og annarra innflytjenda?

Í frumskógum Afríku þróaðist í öndverðu samfélag ættflokka sem áttu í innbyrðis ófriði þar sem tilvera hvers ættflokks skiptist í andstæðurnar "við" og "þeir".  Ættflokkastríð hafa verið böl álfunnar frá öndverðu og Vesturlandabúar hafa litið niður á hinar "frumstæðu þjóðir".

Samt hafa kristnar vestrænar þjóðir staðið fyrir mestu manndrápum síðustu aldar í tveimur heimsstyrjöldum og sú síðari var háð undir formerkjunum "við - þeir", "herraþjóðin - hinir óæðri og undirgefnu".

Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé meðal innflytjenda rétt eins og hjá okkur sjálfum.

En það vill gleymast að meðal þeirra er líka margt afburða fólk. Um miðja síðustu öld auðguðu innfluttir tónlistarmenn íslenska tónlistarmenningu svo mjög að segja má að þeir hafi verið burðarásar í íslensku tónlistarlífi og tónlistarsköpun hér.  Víða um landsbyggðina má sjá hvernig slíkt fólk auðgar menningu og mannlíf.

Á þessu ári hef ég átt því láni að fagna að kynnast Pavel Bartozsek sem er fæddur í Póllandi og telst vera "innflytjandi". Hann er stærðfræðingur að mennt og afar fær á sínu sviði. Honum var falin formennska í einni af þremur nefndum Stjórnlagaráðs og er skemmst frá því að segja að honum fórst það afburða vel á alla lund. Ég get gefið honum mín bestu meðmæli hvenær sem er.

Pavel er aðeins eitt dæmi af þúsundum um góða og gegna "innflytjendur" sem hafa auðgað þjóðfélag okkar.

Vandamálin, sem sumir tala um, eru mest af völdum okkar sjálfra en ekki þeirra sem flust hafa til landsins.

Það erum við sem höfum fengið þessu fólki láglaunastörf að vinna sem við erum orðin of fín til að vinna sjálf.

Við skulum því líta í eigin barm þegar við leitum að betra samfélagi.

 

 


mbl.is Gagnrýna innflytjendastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband