Úr öskumistri í dýrðina.

Eftir hádegi í dag var veðrinu misskipt á landinu. Á öllu Suðurlandi og við Faxaflóa var öskumistur, en norðan Vatnajökuls eitthvert mesta dýrðarveður sem ég man eftir, en ég flaug á TF-REX frá Tungubökkum í Mosfellsbæ austur á Sauðárflugvöll.

September er nefnilega besti mánuður ársins til kvikmyndatöku, þar sem landslag þarf að njóta sín.

Fyrr á sumrinu fer sólin of hratt, of bratt og of hátt upp á himininn og afleiðingin er að skugga vantar í landslagið og loft verður ókyrrt vegna þess að sólin hitar jörðina.

Í dag hreyfðist flugvélin ekki frekar en að að kvikmyndavélin mín væri á þrífæti.

Fór síðan á Mývatn og þaðan til Akureyrar, en er nú að leggja af stað akandi á gamla Subaru-fornbílnum suður eftir einhvern magnaðasta kvikmynatökudag, sem ég minnist.

Um leið og tími og tækifæri gefst skutla ég kannski einhverjum myndum inn á bloggið.


Aftur 1991?

Íslensk stjórnmál geyma ýmis dæmi um það að ákveðnir flokkadrættir, ýmist milli flokka eða innan flokka, haldast áfram löngu eftir að aðstæður hafa breyst og aðrir komið fram á sjónarsviðið til að gegna áhrifastöðum.

Á meðan Gunnar Thoroddsen lifði var skipting Sjálfstæðismanna í Gunnarsarm og Geirsarm áberandi og nú er svo að sjá að átakalínur frá árunum í kringum 1990 séu í fullum gangi, bæði á hægri og vinstri armi íslenskra stjórnmála, annars vegar endurómur af átökum Davíðs Oddssonar og Þorsteins Pálssonar og hins vegar af átökum armanna í Alþýðubandalaginu. 

Þótt hinn pólitíski vígvöllur hafi breyst virðast víglínurnar bera keim af helstu flokkadráttum fyrir tuttugu árum eða jafnvel enn lengra aftur í tímann. 

Svo virðist einnig sem það eitt að sumir af helstu foringjum þess tíma séu enn á meðal vor nægi til þess að línurnar leggist í svipað far í kringum þá og á meðan þeir leiddu mismunandi fylkingar fyrir áratugum. 


mbl.is Styrmir: Forsetinn hyggur á endurkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Denver, mjög áhugaverður kostur.

Denver í Kólóradóríki í Klettafjöllunum er afar áhugaverður kostur sem áfangastaður vegna þess að þaðan er hentugt að hefja ferðir um suðvestanverð Bandaríkin, sem Íslendingar eiga eftir að uppgötva sem eitthvert magnaðasta og skemmtilegasta ferðamannasvæði Vesturheims.

Frá Denver er hægt að aka upp á Pikestind, einn af hæstu tindum Bandaríkjanna, hærri en Mont Blanc, og njóta útsýnisins sem varð kveikjan af ljóðinu "America the beautiful", en það er ígildi "Hver á sér fegra föðurland?" eða "Blessuð sértu sveitin mín" hjá okkur. 

Síðan tekur við röð af fjölbreyttum náttúrufyrirbærum eins og Sandöldurnar miklu, Svartagljúfur, Mesa Verde, Miklagljúfur, Brycegljúfrið, Minnismerkjadalur, Zion, Bogaþjóðgarðurinn, Giljalönd - og vestar bíða Yousemeteþjóðgarðurinn, elstu tré heims og Dauðadalurinn, - en norðar sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn. 

Inn á milli eru síðan einstæð og fjölbreytt mannvirki og borgir, Las Vegas, Salt Lake City, Hoover- og Glen Canyon stíflurnar, Route 66, - og á leið til baka til Denver fjalla- og skíðabæirnir Aspen og Avon. 

Ef menn hafa tíma er ekki svo langt að teygja ferðina alla leið vestur til Los Angeles eða jafnvel San Fransisco. 

Ekki má gleyma því að afar þægilegt er að ferðast um þetta svæði á eigin bíl, með bestu fáanlega tónlist í eyrum eftir smekk, tiltölulega lítinn ferðakostnað og fjölbreytt úrval gististaða. 

Af ferðum mínum með Helguvíða um heim eru ferðirnar um Klettafjöllin og Suðvesturríkin einna minnisverðstu gimsteinarnir í fjársjóði minninganna. 


mbl.is Icelandair boðar aukin umsvif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband