Snilld!

Það er oft ekki það sama að skora mark og skora mark. Hvet fólk til að skoða hvernig Kolbeinn Sigþórsson fær boltann í erfiðri stöðu, dekkaður af tveimur varnarmönnum, leikur á þá báða og sneiðir boltann síðan framhjá markverðinum.

Hreyfingar, tímasetningar, jafnvægi, útsjónarsemi, - allur pakkinn!


mbl.is Kolbeinn skorar fyrir Ajax gegn PSV (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílar, sem geta ekki dáið.

Rafknúin farartæki ættu að geta orðið algengari hér á landi og gert meira gagn en víðast annars staðar vegna þess að við eigum vistvæna orku handa þeim. 220px-volkswagen_e-up.jpg

Mér líst afar vel á Volkswagen up! en mér sýnist Angela Merkel vera að stíga út úr einhverjum öðrum bíl á mynd með tengdri frétt. 

Sumir nýju bílanna eiga að ryðja eldri bílum úr vegi en í sögu bílsins hefur þó oft komið fyrir að það hefur ekki tekist, sá gamlli neitaði að deyja.

Það er eins og sumir bílar geti ekki dáið.

Gamla VW bjallan þraukaði í Mexíkó til síðustu  aldamóta og sömuleiðis gamli Mini og Fiat 126, sem var í raun Fiat 500 frá 1957 með annarri yfirbyggingu. 

250px-porsche911-001.jpg

Eitt besta dæmið um bíla, sem neituðu að deyja, er Porsche 911.

Fyrir 35 árum var talið, að hann væri að renna sitt síðasta skeið, enda grunnhönnunin orðin 40 ára gömul og flest fundið honum til foráttu.

Hann var með loftkælda vél, en þær voru á útleið og vélin var vel fyrir aftan afturhjólið sem alla jafna var talið gefa hvaða bíl sem var hættulega og óviðráðanlega aksturseiginleika. 

Ofan á þetta bættist að hann var allt of stuttur á milli hjóla til að hægt væri að laga þetta. 250px-1987_porsche_928_s4_front.jpg

Eini kosturinn við staðsetningu vélarinnar var sá að hún gaf afar góða spyrnu og aksturssnillingar eins og Per Eklund gátu kreist furðu góðan árangur út úr bílnum í rallakstri. 

Nýr Porsche framtiðarinnar var kjörinn bíll ársins 1978, Porsche 928. Mun þægilegri bíll og rúmbetri fyrir bílstjórann og farþegann, vélin V-8, vatnskæld frammi í og til að gefa bestu þungadreifingu voru drif og gírkassi afturí. 

En Porsche 911 neitaði að deyja og svo fór að hann ruddi bæði 928, 912 og 914 bílunum úr vegi. 

Það kom í ljós að hinn krefjandi akstursmáti, sem 911 bíllinn krafðist, heillaði menn, og ekki dró úr gleðinni að smám saman tókst snillingunum hjá Porsche að endurbæta aksturseiginleikana svo mjög, að hinn "óakandi" bíll er dýrlegur gæðingur. Þeim tókst hið ómögulega. 220px-porsche_carrera_4s_front_20080519.jpg

Porsche 911 á að vísu fáa hluta sameiginlega með eldri gerðum, en vélin er samt á sama "ómögulega" staðnum aftur í rassi, þótt nú sé hún vatnskæld, og útlitinu hefur verið breytt eins lítið og unnt var. 

Annar bíll sem neitar að deyja, er Lada Niva, sem fékk nafnið Lada Sport á Íslandi. images.jpg

Bíllinn var að vísu langt á undan sinni samtíð þegar hann kom fram 1977, en vélar- og drifbúnaður voru afar grófgerð, þrátt fyrir nýtískulega hönnun og léleg samsetning, hráefni og gæðakröfur gerðu hann oft erfiðan í viðhaldi. 

Fyrir meira en áratug voru kynntir arftakar Laca Niva, Lada (Chevrolet) 2123 og Lada Nadeschda. img_0908_1110067.jpg

Á hverju ári síðan hefur það verið gefið út að Lada Niva væri á síðasta snúningi. Gæðum hans hrakaði á tíunda áratugnum þegar óprúttnir gróðapungar ætluðu að græða á því að kaupa lélegri hráefni í hann og láta vöruvöndun lönd og leið. 

En Niva tókst að harka þetta allt af sér og síðustu árin hafa gæðin skánað.

Þó er það svo að hver einasti bíll hefur mikil einstaklingseinkenni. 

Það er fylgifiskur að hlutir detti í sundur eða losni í þessum bílum, enda eru þeir enn settir saman með gamla laginu en ekki með róbótum.

Timburmenn og annað í þeim dúr hjá starfsmönnum eru taldir geta haft talsverð áhrif. 120px-lada_1600_1110076.jpg

Ég er með tvo svona bíla í umferð, þvi ódýrari jeppar finnast ekki, - þann eldri fékk ég raunar nánast gefins. Það var ekki hægt að opna vinstri dyrnar, fyrsti og fjórði gír voru farnir og margt annað eftir því, til dæmis má alls ekki fylla bensíngeyminn, því að þá byrjar að leka af honum. 

En þessi bíll hefur gengið og gengið og aðeins þarf að skipta um tvær spindilkúlur til að hann standist skoðun 100%. Hann hefur þjónað mér afar vel um allt land. 

Á hinum bílnum, sem er til taks við kvikmyndagerð við Mývatn, er bensínpedallinn laus o. s. frv. 250px-morris_cowley_1956.jpg

Nýrri bíllinn er afar hávær í álagi upp brekkur eins og alltaf hefur verið á þessum bílum, en eldri bíllinn er hins vegar miklu lágværari en ég man eftir á nokkrum svona bíl, af algerlega óskiljanlegum ástæðum.  

Lada Niva nýtur vaxandi vinsælda í heimalandi sínu, Þýskalandi og jafnvel Bretlandi og þeir eru farnir að sjást hér aftur, því að útlendingar vilja taka þá á leigu hjá bílaleigum. 

Þótt hann væri fyrsti jeppinn í heiminum 1977, sem var "crossover" með sídrifi, sjálfberandi byggingu, gormum á öllum hjólum, sjálstæðri fjöðrun að framan og yfirliggjandi kambás, er Niva hvað eiginleika snertir, ósvikinn alvöru jeppi, með háa veghæð og hátt og lágt drif.  

Lada Nova (Fiat 124), nær hálfrar aldar gömul hönnun, neitar líka að deyja í heimalandinu. 120px-tata_jeep_monuc_dr_congo.jpg

Morris Cowley 1954 varð ekki langlífur í heimalandinu, Bretlandi, og aðeins tveir eða þrír slíkir voru fluttir hingað til lands. Þetta var frekar hábyggður fólksbíll sem myndi nú vera í flokki með Toyota Verso eða Golf plus. 

Þess vegna þótti hann hallærislegur þegar mun lægri bílar og rennilegri komust í tísku. En núna eru hlutföllin í honum alveg í samræmi við tískuna, þótt útlitið að öðru leyti sé gamaldags. 220px-jeep_wrangler_rubicon.jpg

Indverjar fengu leyfi til að framleiða hann undir nafninu Hindustan Ambassador, og þrátt fyrir margar tilraunir til að slá hann af og taka í staðinn í notkun mun nýtískulegri bíla, er hann enn framleiddur í Indlandi, næstum sex áratugum eftir að hann var hannaður. 

Annar ódauðlegur bíll í Indlandi er Mahindra jeppinn, sem er í raun Willys Cj5 og CJ7 frá því fyrir hálfri öld.

Þeir bílar voru í raun útfærsla á Willysjeppanum, sem kom fram á sjónarsviðið fyrir 70 árum. 120px-uaz-469.jpg

Nýjustu Jeep-jepparnir í Rubicon útfærslu eru afar trúir uppruna sínum þótt gormar hafi tekið við af blaðfjöðrum, bil milli hjóla þvers og kruss aukin verulega og vél og drif nútímaleg.  Enn sér þess ekki merki að ameríski Willys-jeppinn geti dáið út að fullu. 250px-land_rover_defender_front_20070518.jpg

Frá 1948 hefur Landrover Defender haldið velli óbreyttari en dæmi eru um varðandi slíka bíla í svo langan tíma. Aðeins breyting frá blaðfjöðrum yfir í gorma og breyttur vélar- og drifbúnaður hafa tekið breytingum og breikkað hefur verið á milli hjóla, þó ekki nærri eins mikið og á Willysjeppannum. 

Nú hefur verið ákveðið að slátra þeim gamla endanlega eftir tvö ár og því miður sýnist mér, að arftakinn muni varla minna neitt á forföðurinn.  

Í lokin má ekki gleyma tveimur rússneskum bílum, sem ekki geta dáið, þótt yfirlýsingar hafi verið gefnar um nýrri og fullkomnari bíla og þeir sýndir á sýningum. 

Þetta eru UAZ jeppinn sem kom fram 1972 en var í raun gamli Rússajeppinn frá 1953 með annarri yfirbyggingu og sýnu ljótari. 

Þessi jeppi er að vísu loksins kominn á gorma að framan en ennþá eru sömu hásingarnar og upphaflega voru hannaður upp úr drifunum á Ford A 1928. 120px-uaz-bus.jpg

Sennilegasta er þetta minnst breytti bílinn af þeim sem enn eru á lífi og eru orðnir meira en 50 ára gamlir á markaðnum. 

Lada Niva telst þó kannski vera magnaðri hvað snertir langlífi, af því að hann heldur enn velli í furðu mörgum löndum víða um heim en ekki bara í Rússlandi.

Og svo má ekki gleyma Volgunni, sem í grunninn hefur ekkert breyst í 40 ár og selst enn í Rússlandi eins og heitar lummur. 

 


mbl.is Rafbílar stela senunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustið er komið.

Það var sextán stiga hiti á Sauðárkróki í dag og svona hefur það verið undanfarna daga. Þetta er ekkert sjálfsagt mál, því að meðalhiti í Reykjavík um miðjan september er aðeins 7,5 stig.

Við erum  orðin góðu vön undanfarin ár varðandi haustmánuði, sem eru hlýrri en í meðalári. 

Hitt breytist ekki að nú fara "haustlægðirnar" að sækja í sig veðrið og í dag fór vindurinn á Hellisheiði hátt í 30 metra á sekúndu í hviðunum, en ofsaveður telst vera, þegar vindur er kominn upp i þá tölu. 


mbl.is Vindhviður og öskufok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðfræði forréttindahópsins.

Siðfræði forréttindahópa byggist oft á því að vegna þess hve fáir einstaklingar séu í viðkomandi hópum muni þjóðfélagið ekkert um að lofa þeim að njóta auðsöfnunar og jafnvel að komast upp með að borga hlutfallslega minna til þjóðfélagsins en aðrir.

Nú virðist sem heill stjórnmálaflokkur í Bandaríkjunum ætli að halda þessari siðfræði fram, og það svo fast, að orðið "stríð" er nefnt um það að dirfast að snerta við þessu. 

Ég var rétt í þessu að blogga um þetta og varla búinn að setja punktinn við næsta blogg á undan þessu, þegar "stríðsyfirlýsing" öldungardeildarþingmanns repúblikanaflokksins þrumar um öldur ljósvakans. 


mbl.is Sakar Obama um stéttastríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Republikana vilja hlífa mönnum með 10 millur á mánuði.

Ég man þá tíð þegar Þorvaldur Guðmundsson greiddi hæstu skatta einstaklinga á Íslandi og sagðist gera það með glöðu geði og ekki draga af sér að telja tekjur sínar fram.  Það væri heiður að geta lagt af mörkum til velferðarmála og annarra þarfra málefna.

Nú hefur bandarískur auðkýfingur, sem varla veit aura sinna tal, kvartað yfir því að hann og aðrir slíkir séu látnir sleppa mun billegar en þeir sem minnst bera úr býtum og beðið um að hann og hinir ríkustu séu látnir axla byrðar eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. 

Þegar Obama hyggst framkvæmda þetta bregður hins vegar svo við republikanar ætla að leggjast hart gegn þessu. 

Það er ekki eins og Obama ætli að ráðast fólk, sem eigi erfitt með að láta eitthvað af hendi rakna. 

Tekjumarkið samsvarar rúmum tíu milljónum íslenskra króna á mánuði, en það verður greinilega ofraun fyrir menn að samþykkja að eitthvað af því fari í það að taka þátt í því að bregðast við vánni vegna kreppunnar, sem óhjákvæmilega mun verða eitt aðal viðfangsefni þessarar aldar. 

Röksemdin fyrir því að hlífa þeim allra ríkustu og láta þá sleppa eru þekkt: Rétt eins og að í kommúnistaríkjunum áttu menn að verða jafnir en í staðinn urðu sumir jafnari en aðrir, eiga allir í landi frelsisins að vera frjálsir, en í staðinn verða sumir frjálsari en aðrir og ráða því sjálfir, hvort og í hvað þeir þeir ráðstafi auði sínum. 

Reynslan sýnir hins vegar að mikill minnihluti hinna ofurríku tímir því þótt aðrir geri það myndarlega. 

Efnahagshrunið varð vegna þess að yfirgnæfandi meirihluti þeirra ríkustu bruðluðu og yfirspenntu allt af tómri græðgi í að verða enn ríkari.  Nú á að hlífa þeim, svo að þeir geti haldið áfram á sömu braut og áður.


mbl.is Obama undirbýr hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviplegt fráfall. Hverjum "líkar þetta"?

Ég hef áður sett spurningarmerki við það að þegar fólk vill lesa einhverja frétt á netinu, smelli það við merkið "líkar þetta" þar sem til áherslu er hönd með þumalinn upp í loftið.

Þegar þessi pistill er hripaður sé ég að þrettán manns hafa merkt við það að þeim "líki það" að Kara Kennedy hafi látist sviplega á besta aldri, aðeins 51 árs gömul. 

Það verður að finna eitthvað skárra en "líkar þetta" ef maður vill láta það í ljós að manni finnist frétt þess efnis að hún sé þess virði að lesa hana vel. 

Það er svo hallærislegt að sjá þegar fjöldi fólks gefur út þessa yfirlýsingu: "Líkar þetta" þegar mannslá, slys, hamfarir og aðrar slæmar fréttir dynja yfir. 


mbl.is Ein úr Kennedyfjölskyldunni látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband