20.9.2011 | 19:51
Búið að ákveða og ekki hlustað á neitt annað.
Það eru til fleiri en ein leið til að gera góða leið milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar en að rista stærsta birkiskóg Vestfjarða eftir endilöngu með plássfrekum trukkaveg. Skógurinn er ekki bara djásn Vestfjarða, - hann stendur við Breiðafjörð og er því hluti af merkilegri náttúru hans.
Ég hef skoðað Teigskóg bæði gangandi og margsinnis fljúgandi og hef tekið af honum kvikmyndir, sem aldrei sjást í fjölmiðlum. Þeirra er ekki óskað, heldur er sagt að af því að enginn komi þangað og enginn þekki skóginn sé hann einskis virði og sjálfsagt að rústa honum.
Það sem gerir hann svo heillandi, er að hann nær víðast hvar ekki niður í fjöru, heldur gengur maður meðfram honum og nýtur fjölbreytilegs landslags, gróðurlendis, skerja, klappa og votlendis í bland.
Af því að þessi stórkostlega paradís sem skógurinn er, er langur og mjór og fyrirhugað vegarstæði fer eftir honum endilöngum, og einnig af því krafan er um hraðbraut með 90 kílómetra hámarkshraða og ekkert minna, veldur slík framkvæmd stórfelldum spjöllum á þessum magnaða skógi og landslagi hans, þar sem örninn hefur verið konungur hingað til.
Það var ógleymanlegt á sínum tíma þegar örninn hóf sig til flugs af hreiðri sínu með risavöxnum vængjum sínum og sveimaði yfir mig til þess að forvitnast um þennan gest í ríki hans.
Þeir sem hafa bent á aðrar leiðir fá það framan í sig að "standa í vegi fyrir vegabótum og byggð á Vestfjörðum" þegar alveg eins má benda á það að stífni þeirra, sem ekkert mega heyra nefnt en lemstrun Teigskógar, hefur haldið þessu máli í hnappheldu.
Þegar talað er um "láglendisleið" er gefið í skyn að eina mögulega slík leið sé að fara um Teigskóg.
Ódrjúgsháls liggur í 160 metra hæð yfir sjó, en slík hæð er litllu meiri en Breiðholtsins í Reykjavík og engan veginn hægt að tala um 160 metra hæð sem "hálendi".
Talað er um Ódrjúgsháls sem "einn erfiðasta og hættulegasta fjallveg landsins", en þá er miðað við veginn eins og hann er með sinni snarbröttu krókabrekku Djúpafjarðarmegin en ekki við nýjan nútímaveg.
Aldrei eru nefndar tölur um það hve oft þessi "einn erfiðasti og hættulegasti fjallvegur landsins" er ófær.
En síðan er alveg litið framhjá þeim möguleika að gera jarðgöng undir Hjallaháls og leggja veginn síðan framhjá Ódrjúgshálsi og yfir Gufufjörð.
Báðar þessar leiðir, sem hér hafa verið nefndar, eru "láglendisleiðir" ekkert síður en Teigskógsleiðin.
Nei, menn eru búnir að bíta það í sig að ekkert annað komi til greina nema vegur um Teigskóg.
Þetta er býsna þekkt fyrirbæri hér á landi.
Menn bitu það líka fast í sig þegar sagt var að 99,9% öruggt væri að olíuhreinsstöð ætti að rísa í Hvestudal við Arnarfjörð til að "bjarga Vestfjörðum".
Ég hef ekki enn heyrt neitt um að það hafi breyst, og má væntanlega fá að heyra það áfram að vera "óvinur Vestfjarða" af því að ég hef efast um fyrirætlanirnar um að reisa oliuhreinsistöð á einum af fegurstu og merkustu stöðum á Vestfjörðum á sama tíma og engin slík stöð hefur verið reist á Vesturlöndum í tuttugu ár, vegna þess að enginn vill hafa slik ófögnuð hjá sér.
Í dag fór ég um fyrirhugaðar virkjanaslóðir í Norðurþingi, en þar hanga menn ennþá eins og hundar á roði á álveri á Bakka og þeir, sem benda á aðra og skaplegri kosti eru "óvinir Norðausturlands", "á móti framförum" og "á móti rafmagni."
Ég heyrði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld að "íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hefðu sýnt hug sinn í verki með því að ganga af fundi" Ögmundar.
Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að allir fundarmenn hafi farið út, en af frétt mbl.is má ráða að um 100 manns hafi verið áfram á fundinum.
![]() |
Hefði viljað heyra fleiri sjónarmið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.9.2011 | 19:11
Allar línurnar niður á við.
Þegar líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands var stofnsett á Degi íslenskrar náttúru hinn 16. þessa mánaðar, voru flutt nokkur athyglisverð erindi.
Hið fyrsta þeirra var svo athyglisvert að það ætti að vera skyldulesning allra. Í því sýndi Kristín Ragnarsdóttir fjölda línurita sem táknuðu notkun mannkynsins á helstu auðlindum símum og birgðirnar sem til eru af þeim.
Línuritin sýndu meðal annars orkunotkun, olíunotkun, fosfatnotkun, járnvinnslu og vinnslu margra annarra nauðsynlegra efna til þess að lifa nútíma lífi.
Öll voru þau eins, sýndu sívaxandi ris notkunar og óhjákvæmlegrar minnkunar vegna þess að á engu þessara sviða var notkunin sjálfbær.
Sum línuritin voru með hámark einmitt um þessar mundir, svo sem olíunotkun, en önnur sýndu, að hægt væri að vísu að treina hámarksneysluna fram til 2030 eða í mesta lagi til 2050, en síðan lægi leiðin hratt niður á við.
Ýmislegt kom á óvart, svo sem það að meira að segja stálframleiðsla stefndi í hnignum og fall, og einnig það hve fosfat er mikilvægt á mörgum sviðum og tengist frumþörfum mannkynsins.
En hið sama á við um fosfatið og hin efnin, að hrunið er framundan og óhjákvæmilegt.
![]() |
Mannkynið sprengir skuldaþak náttúrunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.9.2011 | 10:50
Eins og 1944 og 1918.
Fyrir lýðveldissstofnun fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Það breytti því að vísu ekki að Alþingi varð að samþykkja hana á fundi sínum á Þingvöllum 17. júní svo að hún tæki gildi.
Yrirlýst var þá að gera yrði hið fyrsta nýja stjórnarskrá í takt við tímann og með þeim endurbótum sem bestar fyndust.
Þetta dróst í 67 ár, þrátt fyrir að margar stjórnarskrárnefndir væru fengnar til verksins.
Höfuðástæðan var líklega sú að vegna þess hve stjórnarskráin stendur starfi og högum þingmanna nærri, eiga þeir erfitt með að koma sér saman um hana.
Nú hefur verkið, sem helstu stjórnmálamenn og lögspekingar kölluðu eftir 1944, loks verið unnið.
Skoðanakönnun um þetta bendir til að mikill meirihluti þjóðarinnar vill að hið sama verði gert og 1944, - þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráðs og auðvitað verður það svo þingsins, eins og 1944 að ganga frá málinu í samræmi við reglur gildandi stjórnarskrár.
1918 greiddi þjóðin atkvæði um sambandslagafrumvarp, sem hafði í för með sér miklar breytingar á stjórnarskrá áður en Alþingi gekk síðan frá því máli og Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.
Þetta var í raun stærsta skrefið í sjálfstæðismáli þjóðarinnar, því að í sambandslagasamningnum var ákvæði sem tryggði, að Íslendingar gætu gengið úr konungssambandinu eftir 25 ár, kysu þeir að gera það.
Þáttakan var ekki eins og mikil og 1944 og innan við helmingur kosningabærra manna samþykkti sambandslagafrumvarpið. Engu að síður voru úrslitin talin óvéfengjanleg.
Nú verður fróðlegt að sjá hvað verður ofan á í þetta sinn.
![]() |
Mikill meirihluti vill þjóðaratkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)