28.9.2011 | 23:17
Setti Grettir afhoggið höfuð Gláms við "þjóðina"?
Í Grettis sögu segir frá því, eftir því sem mig minnir (60ár síðan ég las söguna) eitthvað á þessa leið: "Hjó Grettir höfuðið af Glámi og setti það við þjóin", það er við rassinn á honum.
Nú þarf að fara endurskoða þessa frásögn og tilgang þessa verknaðar Grettis ef marka má það orðalag sem notað er í frétt á mbl.is um þjóhnappa Pippu og annarra frægra kvenna, því að þeir eru hvað eftir annað kallaðir "þjóðhnappar" í fréttinni.
Er það auðvitað miklu virðulegra heiti en þjóhnappar og hefur rassi kvenna verið lyft með þessu til aukinnar virðingar, því orðið þjóð felur í sér talsverða virðingu.
Grettir hugðist gera Glámi það til háðungar og niðurlægingar að segja haus hann við þjóin en ef hin nýja merking þessa líkamshluta ryður sér til rúms hefur hann sett afhogginn hausinn við þjóðina og þá viljað gera þetta ljóta höfuð að þjóðargjöf, hvorki meira né minna !
P. S. Nú sé ég að búið er að breyta þjóðhnöppum í þjóhnappa í frétt mbl. is og er það vel, eins konar þjóþrifaverk, sem er ágætis nýyrði yfir sögnina að skeina.
![]() |
Þjóhnappar Pippu vinsælastir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.9.2011 | 19:28
Yndislegt að heyra.
Ég kynntist Þuríði Sigurðardóttur fyrst þegar ég gerði fyrir hana texta fyrir fyrstu plötuna, sem hún söng inn á, aðeins 17 ára gömul "unglingastjarna".
Síðan tók við samstarf með henni, Magnúsi Ingimarssyni og Vilhjálmi Vilhjálmssyni á héraðsmótum Sjálfstæðisflokksins um allt land og æ síðan, meðal annars í Áramótaskaupinu 1967, sem var fyrstu árin dálítið öðruvísi en síðar, - hugsað sem kabarett eða revía.
Á árunum 1976 til 1979 lék hún stórt hlutverk í Sumargleðinni og síðan þá hefur hún verið einn af mínum bestu vinum, skemmtileg, uppbyggileg og gegnheil.
Varla er hægt að hugsa sér betri mótsöngvara í dúett en hana.
Það er yndislegt að heyra að tónleikarnir gangi vel hjá henni. Einn af mörgum textum sem ég hef gert fyrir hana kom fyrir tilviljun upp í hugann fyrir tveimur dögum, en það var íslenskur texti við lagið Blue Bayou, sem hún söng alveg sérstaklega vel í þætti Hemma Gunn á sínum tíma.
Nú hef týnt þessum texta en mikið væri gaman ef hún fyndi hann fyrir mig, að ég nú ekki talaði um ef hún syngi hann á ný.
![]() |
Þuríður Sigurðardóttir fær krílið lánað reglulega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2011 | 11:06
Endurreist ?
KB-höllin í Kaupmannahöfn var eitt þeirra fyrirbæra sem fangaði huga 14 ára íslensks unglings sumarið 1955 þegar hann dvaldi í sex vikur á heimili góðra danskra hjóna skammt frá höllinni í þeim hluta borgarinnar, sem tilheyrði Friðriksbergi, og teygaði í sig andrúmsloft Borgarinnar við Sundið.
Þá var stærsta íþrótta- og sýningarhús Íslands hermannabraggi við býlið Hálogaland, ekki langt þar frá sem Vogaskóli er núna.
Ég var á ferli daglega í könnunarferðum um borgina og finnst ég æ síðan ævinlega vera kominn heim, ef ég staldra við í Höfn á leið til Íslands frá fjarlægari löndum.
Allt var svo framandi og miklu stærra en heima, trén, húsin, umferðin, strætin. Líka hitinn, enda var sumarið 1955 eitt það sólríkasta og heitasta, sem komið hafði í Kaupmannahöfn, en sumarið 1955 var hins vegar eitt mesta rigningasumar, sem komið hefur á Suðurlandi.
Reykjavík var þá lágreist 50 þúsund manna bæjarfélag, hæstu íbúðar- og skrifstofubyggingar aðeins 4-6 hæðir, og aðeins tveir turnar í borginni, Sjómannaskólaturninn og turn Landakotskirkju.
Meirihluti gatna í Reykjavík voru malargötur og braggahverfi enn víða um borgina.
Siglingin frá Íslandi allt inn að hafnarbakka í hjarta Kaupmannahafnar var ævintýri.
Á þessum tíma fóru íslensk börn og unglingar yfirleitt ekki til útlanda. Flugið hafði ekki öðlast sinn núverandi sess og það var talað um að fara í siglingu, þegar fullorðna fólkið fór í utanlandsferð.
Íslenskt alþýðufólk átti þar að auki þess yfirleitt ekki kost að fara til útlanda nema þá helst sjómennirnir og farmennirnir.
Það eina á Íslandi, sem var stærra en í Danmörku, voru bílarnir, sem flestir voru stórir amerískir bílar heima, en hins vegar litlir evrópskir í Danmörku og reiðhjólin yfirgnæfandi í umferðinni, svo að stóru göturnar sem lágu að Ráðhústorginu voru oft þaktar reiðhjólafólki á álagstímum.
Þegar ég sagði Dönunum frá amerísku bílunum heima trúðu þeir mér varla.
Kókakóla fékkst ekki í Danmörku, aðeins danskur kóladrykkur, Jolly Cola.
Eitt hinna eftirminnilegu fyrirbæra í Höfn var KB-höllin, risasmíð á þess tíma mælikvarða.
Danir rækta vel menningarsögu sína og er gott dæmi um það hvernig þeir fluttu upphaflegu flugstöðina á Kastrup um set og settu niður á nýjum stað þegar þeir reistu aðra í staðinn.
Vonandi verður KB-höllin endurreist með bættum brunavörnum, en það hlýtur að verða rannsóknarefni hvernig hægt var að tala um stórbættar brunavarnir í húsi sem brann svo gersamlega, að slökkviliðsmenn gáfust upp við að reyna að berjast við eldinn.
![]() |
KB-hallen verður ekki bjargað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)