Meira að segja líka "stærsti jólasveinn í heimi."

Samar, í nyrstu héruðum Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, þökkuðu kærlega fyrir sig þegar Íslendingar færðu þeim jólasveininn á silfurfati um miðja síðustu öld. 

Íslendingar færðu Löppum líka fjögur önnur dýrmætustu atriðin í að laða ferðamenn norður úr öllu valdi. 

Á þeim tíma trúðu evrópsk börn því að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og skrifuðu honum bréf í tugþúsundatali. 

Utanáskriftin var einföld og eðlileg í huga barnanna: "Jólasveinninn. Íslandi."  

Að sjálfsögðu. 

En Íslendingar litu á þetta sem leiðinda vandamál. Blaðafulltrúi Ríkisstjórnarinnar reyndi að svara börnunum, en komst ekki yfir nema lítið brot af staflanum. 

Því var þessu vikið burtu, en þörfin var áfram fyrir hendi og nú fóru börnin að skrifa Lappland í staðinn fyrir Ísland. 

Og í nyrstu héruðum Evrópu er búið að stimpla Lappland sem heimkynni jólasveinsins með Rovianemi sem miðstöð, sem græðir á tá og fingri á þeim rauðklædda, allan tíma ársins, en þó helst á veturna. 

Íslendingar töldu, og telja margir líklega enn, að fernt væri það versta, sem þjóðin byggi við: Myrkur, kulda, þögn og ósnortna náttúru. 

Fyrir 15 árum voru ferðamenn að vetrarlagi orðnir miklu fleiri í Lapplandi en allt árið á Íslandi. 

Ástæðan var ferföld: "Myrkur, kuldi, þögn og ósnortin náttúra" og engin hætta á neinni samkeppni frá Íslendingum, sem hafa þrettán jólasveina, auk Lepps, Skrepps, Láps, Skráps, Grýlu, Leppalúða, jólakattarins, álfa, trölla, álfadrottningar og álfakóngs, og eldfjöll og mikilfenglegt landslag í viðbót við heiðar, frosin heiðavötn, hreindýr og skóga á austanverðu landinu. 

Jólasveinavinsældir í nyrðri hlutum Skandinavíu virðast eiga sér fá takmörk. 

Á landleið norður Noreg fyrir tveimur áratugum var ákveðið að fara styttri leið norður frá Tromsö með því að taka ferju yfir einn fjörðinn. 

Þetta var í júlílok og viti menn: Þegar í land var komið blasti við, - ja, hvað haldið þið, - nema milli 5 og 10 metra há risastytta af eldrauðum jólasveini í fullum skrúða með áletruninni: "Stærsti jólasveinn í heimi"!  

Nú erum við loks farnir að átta okkur á möguleikum til vetrarferðamennsku, en eitt er víst: 

Samarnir í Skandinavíu munu ekki afhenda okkur jólasveininn, sem þeir hirtu af okkur fyrir rúmri hálfri öld. 


mbl.is Á meira en 40.000 jólasveina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómantíkin: Hvít og lognblíð jól. Tunglið til bjargar.

Vinsælasta jólalag allra tíma gæti verið lagið White Christmas með Bing Crosby. Að minnsta kosti seldist það langbest allra laga um miðja síðustu öld og sló öll met. 

Lagið bendir til þess að í norðausturríkjum Bandaríkjanna hafi verið stærsti markhópurinn fyrir texta af þessu tagi og þar verið ráðandi öfl í tónlistar- og skemmtanalífi.

Þetta átti líka við um norðanverða Evrópu. Krafan um hvít og lognblíð jól var og er enn sterk. 

Í dimmasta mánuði ársins munar mikið um birtuna, sem snjórinn gefur og þess vegna er sudda- og rigningartíð ekki í hávegum höfð. 

En jafnvel þótt það sé alauð jörð eins og í júníbyrjun getur heiðskírt veður með mánaskini bjargað miklu, ekki síst þegar máninn er óvenjulega stór og bjartur. 

Sú varð raunin í ferð síðuhafa til Akureyrar í fyrradag og afar gefandi, ekki aðeins sem ljúf og einkar rómantísk upplifun, heldur einnig vonandi í afrakstrinum, sem var nýtt lag, innblásið af jóla- og áramótastemningunni, sem við sækjumst svo mikið eftir. 

Reikna með að setja tignarlegt tónlistarmyndband á facebook-síðu mína nú á eftir og sendi öllum nær og fjær hinar bestu jóla- og nýjárskveðjur frá okkur Helgu. 


mbl.is Tunglið lýsti upp næturmyrkrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...eða, - aktu eins og kona."

Hinn mikli munur á tíðni alvarlegra bílslysa hjá körlum var stundum reynt að skýra með því, að karlar ækju miklu meira en konur. 

En sá munur hefur minnkað svo mikið, að hann einn er langt í frá að útskýra muninn á slysatíðninni og muninn á því hve miklu fleiri konur eru teknir ölvaðir eða fyrir umferðarlagabrot en karlar. 

Á leiðinni í gegnum Hvalfjarðargöng nýlega hafa tvívegis komið lúxusjeppar aftan að mér í gangamunnanum og pressað stíft á að ekið væri yfir 70 km/klst hámarkshraða. 

Öðrum jeppanum var gefið inn og farið fram úr mér yfir heila línu. 

Báðir þessir ökumenn óku á öðru hundraðinu og vel það, þannig að þeir hurfu fljótt sjónum. 

Þó mátti sjá snögga nauðhemlun skömmu áður en þeir komu að myndavélunum í göngunum, en síðan var allt gefið í botn á ný. 

Öðrum jeppanum var ekið svo hratt, að það sést ekkert meira til hans eftir fyrstu myndavél. 

Í báðum tilfellunum komu bílar á móti, og auðvelt að ímynda sér ástandið í göngunum, ef þeim er ekið á sömu lund. 

Það tekur aðeins fimm mínútur að aka í gegnum þessi göng á 70 km hraða og vandséð hvaðan einstaka ökumönnum kemur sú vissa og sú brýna nauðsyn til að álykta sem svo, að þau mörk séu sett að óþörfu. 

Fyrr í haust var stórum Landcruiser jeppa ekið á ofsahraða í þéttri umferð þannig að ökumaðurinn var að spila rússneska rúllettu í hraðakstri á minnst 120-140 km hraða eins og skíðamaður, sem sveiflar sér í gegnum hlið í stórsvigi.

Niðurstaðan er ekki sú, að þessir ökumenn séu svona lélegir í að stjórna bíl, heldur hitt, að það myndi stórauka öryggi í umferðinni ef þeir "ækju eins og konur."   


mbl.is Látið konuna um aksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband