Golf-flokkurinn er dæmi um umferðarvandann, sem stækkun bíla veldur.

Síðan Volkswagen Golf kom fram á sjónarsviðið 1973 hefur þessi bílgerð verið með einna mestu söluna í Evrópu og því gott dæmi um þróun bíla í álfunni á þessum tíma. 

Meira að segja hefur ákveðinn stærðar- og verðflokkur bíla í Evrópu verið nefndur Golf-flokkurinn. 

Fyrsti Golfinn var 3,70m á lengd og 1,61m á breidd og 750 kíló. 

Núna er Golf 4,27 m á lengd og 1,79 á breidd og meira en 1200 kíló. 

Hann hefur lengst um meira en hálfan metra, breikkað um 18 sentimetra og þyngst um næstum hálft tonn. 

Keppinautarnir, svo sem Ford Focus, Opel Astra og Toyota Corolla, eru bæði lengri og breiðari en Golf, og það er einkum breikkunin sem fólk verður vart við, því að það munar um hverja 20-25 sentimetra breikkun, þegar lagt er í stæði. 

Sem dæmi um það hve þessi breikkun er mikil má nefna, að sex sæta bílar í efri verðflokkum hér áður eins og Toyota Crown, Volvo 240 og Ford Zephyr voru 10 sentimetrum mjórri en Golf er nú. 

Krafan um sífellt stærri og voldugri bíla er í raun umhverfisvandamál í borgum, þar sem flatarmál gatnakerfisins er takmarkað. 

Sem dæmi má nefna, að ef bílarnir 100 þúsund, sem ekið er daglega um Miklubrautina yfir Elliðaárnar, væru hálfum metri styttri hver að jafnaði, myndu losna daglega samtals 50 kílómetrar af malbiki, sem myndu vera auðir í stað þess að vera þaktir bílum.   


mbl.is Bílarnir þykkna og þyngjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við bara ekki að færa fleira líka? "Sannleikurinn sjálfur er..."

Það myndi að sjálfsögðu vera þægilegra fyrir marga að sum fyrirbæri, sem hafa gert Ísland frægt, yrðu nær Keflavíkurflugvelli en þau eru og spöruðu þannig ferðafólki sporin. 

Í Grímsey ergir það marga, að heimsskautsbaugurinn skuli ekki vera niðri við þorpið, heldur í nokkurra kílómetra fjarlægð fyrir norðan það. 

Sá möguleiki, sem nefndur er, að færa bara kúluna til sem nú er á baugnum gæti gefið varasamt fordæmi. 

Til dæmis að búa til öfluga gjósandi borholu á Öskjuhlíð og nefna hana Geysi. Heitið Geysir varð alþjóðlegt heiti yfir fyrirbæri goshveri, þannig að engu er beinlínis logið með þessu snjalla bragði, þótt hálfsannleikur sé oft meiri lygi en lygin sjálf. 

Fordæmið hefur blasað við strax við komuna til landsins með risaauglýsingu Landsvirkjunar þar sem stendur að öll orka (100%) sem framleidd er á Íslandi sé endurnýjanleg og hrein. Auglýsing Landsvirkjun

Þetta er fullyrt þótt vitað sé að rétt tala er aðeins um 70 prósent vegna þess að stóru gufuaflsvirkjanirnar á Reykjanesskaganum eru á niðurleið vegna rányrkju. 

Líka væri upplagt að setja upp skilti við Holtsós með heitinu Reynisfjara, svo að ferðamenn geti tekið sjálfsmyndir þar og sloppið við að fara alla leið á rétta staðinn. 

Það er nefnilega þannig, að enda þótt heimskautsbaugurinn sjáist ekki er hann þó á ákveðnum stað hverju sinni og færist ekki. 

Ef á annað borð á að gefa ferðafólki færi á að taka af sé mynd við bauginn, þar sem hann sannanlega er, er það hvorki gott afspurnar né heiðarlegt að ljúga til um það hvar hann er. 

Það er ekki gott afspurnar fyrir íslenska ferðaþjónustu og land og þjóð almennt.

En það, hvernig heimsskautsbaugurinn færist sífellt til og gerir staðsetningu frá í fyrra ranga í ár, minnir mig á stöku, sem ég man ekki nákvæmlega hvernig var, en læt mína útgáfu samt flakka hér í lokin. 

 

Falsfréttirnar sóma sér

á sínu efsta stigi

því sannleikurinn sjálfur er

sennilega lygi. 


mbl.is „Vildum óska að hún hefði aldrei komið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband