Uppvakningur: Gamall draugur varðandi umferðaröryggistæki.

Tengd frétt á mbl.is um starfsmenn hjá slökkviliði Reykjavíkur, sem færðu níu ára gamalli stúlku nýjan reiðhjólahjálm eftir að hjálmur hennar hafði skemmst í umferðarslysi fyrir rúmri viku, sýnir í hnotskurn eðli hjólreiða- og vélhjólaslysa. Hjálmar

Á myndinni hér við hliðina er mynd af tveimur hjálmum, opnum og lokuðum, en sá lokaði veitir miklu meiri og betri vörn. 

Hann sést á myndinni af Náttfara, rafreiðhjóli mínu, fyrir neðan. 

Aðgerð sjúkraflutningsmannanna varpar ljósi á fánýti þess þegar gamall draugur varðandi umferðaröryggistæki hefur verið vakinn upp með baráttu að því er virðist fjölda fólks gegn skyldunotkun reiðhjóla- og vélhjólahjálma. 

Draugur þessi er sama eðlis og harðvítug barátta fjölda fólks var sett af stað gegn notkun bílbeltanna á sínum tíma. Náttfari í Elliðaárdal

Alveg nýlega var sú barátta rifjuð upp hér á síðunni en hún tafði svo mikið fulla lögleiðingu bílbeltanna hér á landi, að nú blasir við að töfin kostaði mörg mannslíf og alvarleg slys. 

Síðuhafi lenti í hjólreiðaslysi fyrir þremur árum, þar sem hann var að fara eftir gangbraut yfir bílakstursfrárein gegn grænu ljósi á rafknúnu reiðhjóli. 

Aðvífandi bíll, sem kom eftir Grensásveginum að gangbrautinni, hægði á sér og bílum þar á eftir og virtist engin hætta á ferðum.

En samkvæmt frásögn bílstjórans eftir á, varð honum litið fram til vinstri og sá, að ef hann gæfi í gæti hann komist inn í umferðina. 

Hann gaf því í þótt á því augnabliki horfði hann beint upp í lága kvöldsól og sæi mig ekki. Ég var kominn það langt að ég sá hann ekki, enda lenti hann harkalega aftan á reiðhjólinu, svo að ég hentist upp á framrúðu bílsins og braut hana með hjálminum.

Í sömu svipan snögghemlaði bílstjórinn að sjálfsögðu en við það flaug ég fram yfir húddið og lenti í hörðum árekstri við gatnakerfi Reykjavíkur, og fékk annað höfuðhögg.

En svo er að skilja, að notkun hlífðarhjálma hafi ekkert að segja, fram koma menn sem andmæla því harðlega að hjólafólk verði skyldað að vera með hjálma.

Muni það koma í veg fyrir að unglingar á aldrinum 15-18 ára vilji nota hjól og bent á reynslu þess efnis frá Nýja-Sjálandi. 

Og fjöldi manna tekur undir þetta með alls konar rökum, svo sem þeim, að úr því að ekki sé talin ástæða til að hafa hjálma í bílum, sé það heldur engin ástæða á hjólum. 

Er engu líkara en að þessir menn telji þetta tvennt sambærilegt.

Bílbelti og loftpúða eru vörn fyrir fólk í bílum, en þessu tækjum verður ekki við komið á hjólum. 

Þar eru eðli málsins samkvæmt einu varnirnar fólgnar í hlífðarhjálmum, ökklaklossum, hnévörnum, olnbogavörnum og bakvörn. 

Tvö fyrstnefndu atriðin auk alveg sérstaklegs vara á varðandi uppátæki þeirra sem eru í kringum hjólamanninn í umferðinni og þess að vera edrú á hjólinu. 

Allt byggt á tölulegum staðreyndum. 

En það er dapurlegt eftir að loks var hægt að kveða andófið gegn bílbeltunum niður, að nú skuli slíkur draugur vera kominn á kreik á ný.  

 


mbl.is Færðu stúlkunni nýjan hjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt að fara um svæði "vetrarveðursins".

"Búast má við slyddu eða snjókomu á fjallvegum" er setning, sem heyrst hefur um einstaka landshluta undanfarna daga. Færð á vegum 3.6.19 (1)

Ekki veldur sá sem varar, segir máltækið. Þegar hitinn er rétt við frostmark getur úrkoma fallið í formi snjókomu og því rétt að vara vegfarendur við. 

Af þessum sökum þorði síðuhafi ekki annað en að breyta ferðaáætlun sinni í ferð til Akureyrar síðastliðinn föstudag til þess að skemmta þar á laugardagskvöld og til baka aftur í gær að því leyti til, að hann fór ekki á vespuvélhjólinu sínu vegna þess að það var komið á sumardekk. Færð á vegum 3.6.19 (2)

Á hjóli er gildir allt annað en á bíl varðandi það, að það má alls ekki skrika til í hálku á hjólinu, en gerir minna til á bíl.

Bíll konu minnar, sem var sá ódýrasti og ódýrasti í rekstri þegar hún fékk sér hann fyrir tæpum fimm árum, var á sumardekkjum, en það kom ekki að sök, því að allan tímann, að meðtöldum deginum í dag, hefur verið greiðfært um allar helstu leiðir á norðan- og austanverðu landinu, þrátt fyrir aðvaranir um mögulega hálku og snjóþekju. Þetta sést þegar litið er á kort Vegagerðarinnar af vegum á norðanverðu og austanverðu landinu nú síðdegis, mánudaginn 3. júníHvammur 31.5.19

Að vísu var alveg einstaklega napurt í fyrrinótt á Akureyri og jaðraði við slydduhraglanda. 

En á suðurleiðinni var jafn snjólétt í fjöllum og verið hafði á leiðinni norður. 

Raunar hefur veðurlagið í vor gert það að verkum, að ég hef ekki séð fjöllin í Húnavatnssýslum jafn auð síðan ég fór að ferðast árlega um allt land fyrir réttum 60 árum. 

Ég fór venjulega í sveitina í Langadalnum 2. júní á sjötta áratugnum, og þá voru skaflar ofarlega í Hvammsfjallinu, svo sem í Tröllaskarðinu, sem héldu stundum velli vel fram á sumar. Langidalur 31.5.19

Nú er enginn skafl eins og sést á myndinni, sem var tekin á leiðinni um Langadalinn, þótt það glytti í ræfilsskafl í fjallsbrún í rúmlega 700 metra hæð á Holtastaðafjallinu.

Neðri myndin er tekin utarlega í Langadal með útsýni yfir til Svínadalsfjalls og Vatnsdalsfjalls.

Ástæðan er sú, að heimskautaloftið sem þrýstist úr norðri yfir landið, er svo þurrt, að snjókoma nær sér ekki á strik þrátt fyrir hryssinginn.

 


mbl.is Spá snjókomu eða slyddu á fjallvegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband