Sovétmenn áttu stærstan hlut; án D-dags hefðu þeir komist að Rín.

Mikilvægi innrásar Bandamanna í Normandy 4. júní 1944 verður seint ofmetin, jafnvel þótt Sovétmönnum hefði tekist að vinna bug á herjum Hitlers án hjálpar úr vestri.

Það er vegna þess að langmikilvægasta gildi innrásarinnar í Normandy 6. júní 1944 var fólgið í því, að ef hún hefði misheppnast, hefði verið stórhætta á að Sovétherinn, sem 70 prósent stríðsins um Evrópu byggðist á hvað varðaði liðsafla Bandamanna samtals á landi, kæmist alla leið vestur að Rín til móts við lið Vesturveldanna, sem hefði komið of seint inn í lokarimmuna um Evrópu.

Slík yfirburða staða Sovétríkja Stalíns í stríðslok hefði þýtt, að í stað alræðis og kúgunar nasista hefði alræði og kúgun kommúnista tekið við í mestallri álfunni og náð að minnsta kosti vestur að Rín. 

Frakkland, Bretland og Ítalá hefðu átt undir högg að sækja gegn yfirburða herafla Stalíns. Kommúnistar voru öflugir á Ítalíu og skópu tvísýnt ástand.  

Eina fæling Vesturveldanna hefði falist í kjarnorkusprengjum Bandaríkjamanna, sem voru örfáar 1945. 

Kalda stríðið hefði hugsanlega orðið talsvert öðruvísi en það varð og stæði jafnvel enn. 

Síðan má ekki gleyma orrustunni um Atlantshafið, sem Bandamenn voru nálægt því að tapa vorið 1943. 

Það stafaði að miklu leyti af því hve mikill herafli Bandamanna var notaður til innrásar í Norður-Afríku og síðar Ítalíu frá nóvember 1942.

Stríðið á Ítalíu gekk illa og Róm náðist ekki fyrr en í júníbyrjun 1944.  

Án yfirráða yfir Norður-Atlantshafi, meðal annars yfir Íslandi, hefði ekki verið hægt að stunda nægilega mikla flutninga hers, herbúnaðar og vista frá Bandaríkjunum yfir til Bretlands til þess að innrás yfir Ermasund yfir í Frakkland hefði verið möguleg 1944.  


mbl.is Dagurinn sem réði örlögum Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kappsmál" að draga úr notkun öryggisatriða?

Ef það væri rétt, sem nú er haldið fram i umræðum um hjálmaskyldu, að hjálmarnir geri ekkert gagn og að jafnvel sé betra að vera hjálmlaus en með hjálm, er spurning hvers vegna er yfirleitt verið að framleiða hjálma. 

Það tók tíma á sínum tíma að lögleiða hjálma hjá keppnisfólki í bílaíþróttum, svo sem í rallakstri og í hesta- og hjólaíþróttum. 

Síðuhafi byrjaði að nota hjálm í rallakstri fyrir meira en 40 árum og fljótt urðu með í för veltibúr, fjögurra punkta belti og fleiri öryggisatriðum sem drógu stórlega úr þeirri áhættu, sem akstrinum fylgdi. 

Að sama skapi jókst ánægjan við þátttökuna við að upplifa gildi þessara atriða til þess að komast hjá meiðslum. Náttfari við Engimýri

Síðuhafi hóf síðan notkun tveggja orkuknúinna hjóla 2015-2016 þar sem hjálmar, ökklaklossar hanskar með handvörn og hnéhlífar voru lágmarks atriði og olnbogahlífar eru næstar á lista. 

Reynslan af hjálmi og ökklahlífum var ótvíræð; annars hefði ekki verið hægt að brjóta framrúðu í bíl með höfðinu í öðru slysinu án meiðsla og sleppa alveg við ökklameiðsl í hinu. 

Alveg frá upphafi þessa hjólatímabils fyrir fjórum árum, hefur verið lýsing og umræða á þessari bloggsíðu á góðri og gefandi reynslu og ánægju af ánægjunni sem fylgir því að standa sem best að iðkun mjög gefandi útivistarsports, sem þar að auki er hryggjarstykkið í því að minnka kolefnissporið, spara orku- og ferðakostnað og taka þátt í orkuskiptunum. 

Sérkennilegt er að sjá því haldið að fólki, að það sé meira gefandi og raunar "kappsmál" að nota engar varnir eða öryggisatriði, af því að með því auk auka spennu og kæruleysi sé verið að lokka fleiri til þess að nota hjól.

Enn sérkennilegra er að sjá því haldið fram, að í stað hjálmaskyldu á hjólum, sé meiri ástæða til að skylda bílstjóra til að hafa hjálma.

Síðuhafi myndi að vísu alveg vera til í að fylgja því að ævinlega séu hafðir hjálmar á höfðum í farartækjum vegna góðrar reynslu af því í rallakstri, jafnvel þótt mikill árangur hafi náðst með skyldunotkun bílbelta og sjálfvirkra höggpúða. 

En belti og púðar eru af augljósum ástæðum ekki tiltæk úrræði á reiðhjólum og vélhjólum. 

Eftir meira en 40 ára reynslu á eigin skinni varðandi öryggisatriði í akstri er erfitt að sjá af hverju á beinlínis að slá af öryggiskröfum, sem tók mikið erfiði á sínum tíma að berjast fyrir, svo sem varðandi skyldunotkun bílbelta.

Varla hefði mann órað fyrir því á tímum baráttunnar fyrir bílbeltin, að hliðstæð barátta blossaði aftur upp fjórum áratugum síðar. 

Á að trúa því að það sé svo leiðinlegt að iðka sport með því að njóta kosta öryggisatriða að það fæli flestalla frá því? 

Eitt af fjórum tegundum frelsis sem Roosevelt Bandaríkjaforseti boðaði á sínum tíma var frelsi frá ótta; að draga úr óttanum eins og kostur væri. 

Að þeysa um án öryggisatriða hlýtur að skapa aukinn ótta miðað við það að hafa ekkert slíkt um hönd. 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hjálmaskylda verði til 16 ára aldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múrmansk afhjúpaði getuleysi sovétkommúnismans.

Síðuhafi hefur komið bæði til Moskvu, Demyansk, Murmansk og Kolaskaga og orðið þess áskynja, að það kynnist enginn Norðurlandabúi hinu raunverulega Rússlandi nema að fara til héraða, sem eru á svipaðri breiddargráðu og Norðurlöndin eru. 

Að segjast hafa kynnst Rússlandi með því að koma til Moskvu er bæði að sögn ferðamanna og heimamanna sjálfra  mikil blekking. Þessi stórkostlega borg sé í raun aðeins nokkurs konar sýningargluggi en ekki dæmi fyrir raunveruleg kjör almennings í víðfeðmasta ríki heims. 

Rússi, sem hafði verið á Íslandi um nokkurra ára skeið, fór með mér sem aðstoðarmaður í kvikmyndaleiðangur frá Moskvu veturinn 2006 um 350 kílómetra vegalengd í norðvestur til bæjarins Demyansk við Valdaihæðir, nokkurn veginn miðja vegu milli Moskvu og St. Pétursborgar. 

Eftir ferðina sagðist hann vera mér afar þakklátur fyrir að hafa farið í ferð til að kynnast hinu raunverulega Rússlandi, því að hann hefði aldrei áður farið að neinu gagni út fyrir heimaborg sína. 

1978 gafst tækifæri til að fara í hópi norrænna bílablaðamanna í ökuferð frá Ivalo í Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk og var ekið á endurbættum Volvobílum, sem voru á þeim tíma með ellilegri bílum sem framleiddir voru á Vesturlöndum. 

Að koma til Murmansk var líkt og að vera kippt aftur til ársins 1948 á Íslandi. Göturnar malargötur, sem um skröltu gamlir og þreytulegir vörubílar með verkakalla standandi aftur á eins og í Reykjavík í den.

Biðraðir í búðum eins og var heima 1948. Húsin, jafnvel hótelið sjálft,  illa frágengin og lóðirnar líka. 

3000 manna biðlisti eftir því að fá að fara sem háseti á risavöxnum verksmiðjutogurinn til þess eins að vera mánuðum saman á sjó án þess að komast í land, en geta samt sloppið út úr því þjóðarfangelsi, sem Sovétríkin voru fyrir flesta. 

Hásetar í þröngum klefum en yfirmennirnir í hálfgerðum svítum, stéttaskiptingin mikil um borð í þessu landi svokallaðs jafnréttis. 

Því haldið fram að búið væri að útrýma vændi í krafti kommúnismans en nokkrir bílablaðamannanna voru ungir ógiftir menn og fyrstu kynnin við innfædda voru vændiskonur!Umferðarmerki á Kolaskaga

Leiðsögummenn dásömuðu útrýmingu spillingarinnar í sæluríkinu, en þegar röðin af Volvo bílunum, sem blaðamennirnir óku, og voru með ellilegustu vestrænum bílum í útliti, kom að hótelinu, varð að forða þeim öllum í lokaðan garð á bak við hótelið, því að strax voru komnir menn, sem buðu stórfé í bílana og sögðust vera með sambönd til að geta það léttilega, auk þess sem íbúar Murmansk máttu helst ekki sjá þessa vestrænu bíla. 

Í nokkrum atriðum stóðu kommarnir þó framar okkur vesturlandabúum. Söfnin þeirra voru afar góð og hver íbúi norðan heimskautsbaugs fékk eina fría ferð og dvöl á Krím til að bæta upp kuldann og vetrarmyrkrið. 

Ekki furða þótt Pútín léti kippa Krím inn í Rússland á ný.

Og þar sem vegir eða brýr voru einbreiðir voru merkingar, sem fyrir löngu hefðu átt að vera komnar heima á Fróni.  

 

 


mbl.is Túristar frá Pétursborg til Múrmansk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband