Er öll þessi slysa- og óhappahrina á sama deginum eðlileg?

Í dag fór vindur á Kjalarnesi í 35 metra á sekúndu í hviðum, sem er vel yfir fárviðrismörkum, og samsvarar hraða, sem er 120 km/klst en samt verður þar stóralvarlegt slys þar sem gámur losnaði aftan úr vöruflutningabíl og lenti á tveimur öðrum bílum. 

Í gangi höfðu verið stanslausar viðvaranir í gulum litum, og ótal leiðir fyrir alla á tímum snjallsímanna að skoða nákvæmar spár um vonskuveðrið, sem hefur einkennt þennan dag.

Er það eðlilegt að verið sé að flytja gáma á bílum við þessar aðstæður eins og ekkert sé með fyrirsjáanlegum afleiðingum? 

Í fréttum kemur fram í viðtali við mann, sem varð vitni að því klukkan ellefu að enda þótt lögregla vildi fara að fyrirmælum um lokun leiðarinnar yfir Hellisheiði og Þrengsli, var þrýstingur vegfarenda slíkur, að það var ekki gert, og auðvitað urðu afleiðingarnar þær að minnst 80 bílar urðu fastir eins og hráviði á leiðinni, bæði á veginum og utan í honum. 

Er þetta eðlilegt? 

Nyrst í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og í Blönduhlíð eru þekktir óveðurskaflar á norðurleiðinni í hvössum austlægum áttum, sem standa ofan af bröttum fjöllum, og á báðum stöðum fjúka rútur út af veginum, þar sem annað slysið er grafalvarlegt stórslys með útköllum alls tiltæks björgunarliðs, þar á meðal björgunarþyrlu. 

Allt gerist ofanskráð á sama deginum beint í kjölfarið á stórfelldum hrakningum og björgunaraðgerðum tveimur dögum fyrr og hlýtur að vekja spurningar. 

Voru til dæmis bílbelti notuð í rútunni, þar sem svo virtist sem tugir hafi slasast og beinbrotnað?

Í öllum tilfellum síðustu dægrin hafa spár og viðvaranir reynst vera fullkomlega aðgengilegar, raunhæfar og með upplýsingum af öllum mögulegu tagi, sem áttu að koma í veg fyrir þessi ósköp og hefðu gert það, ef eftir spám og viðvörunum hefði verið farið. 

Er þessi útkoma viðunandi í landi, þar sem er mesta óveðrasvæði veraldar að jafnaði í janúar?


mbl.is Vesturlandsvegi lokað vegna alvarlegs slyss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en tuttugu ára ferill?

Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera upplýsti í þætti um Boeing verksmiðjurnar að eftir býsna farsælan feril verksmiðjanna í áratugi, allt frá Boeing 707, 727, 747 og 737 hefði velgengnin byggst á forgangsatriðum , þar sem efst tróndu:  Öryggi - markaður - þægindi..  og í þessari röð. 

Eftir að Douglas verksmiðjurnar duttu út úr mestu semkeppninni kom mun erfiðari keppinautur í staðinn, Airbus, og viðbrögð Boeing voru þau 1998, að setja markaðinn efst á listann, ef brýn nauðsyn krefði. 

Þar með var opnað á hugsunarhátt og feril sem í gegnum nokkurra ára vandræði með Boeing 787 á sínum tíma hefur náð hámarki með Boeing 737 Max. 

Í stað þess að endurhanna miðjubotn og hluta vængja Boeing 737 800 svo að hægt væri að lengja leggina á hjólabúnaðinum og hækka stöðu vélarinnar á brautum og flughlöðum, var of stórum hreyflum, miðað við upphaflegu gerð vélarinnar, troðið framar og ofar á vængina og af því að þá reyndist flugvélin augljóslega óflughæf, hannað flókið og vandmeðfarið tölvukerfi sem gerði ekki viðunandi kröfur til færni þrautreyndra flugmanna, heldur bjó til möguleika á alveg nýrri hættu á því að vélin yrði stjórnlaus. 

Hið síðastnefnda var hluti af því vandamáli að endurhanna æfingarferli og fá nýja og vandaða lofthæfisvottun, sem reynt var að spara sér.

Endurhannað miðstykki vélarinnar myndi kosta margra ára töf, og því reyna menn allt sem mögulegt er til að sleppa með vandræða klastur, sem endurhannað tölvustýrt sjálfstýringarkerfi er.  


mbl.is Þotan „hönnuð af trúðum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti útsýnisstaðurinn á Suðvesturlandi með mestu möguleikana?

Hæsti punktur á svæðinu í Bláfjöllum, sem nú á að fara að endurbæta, er í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Vegna þess að þessi staður liggur sunnar og vestar en Vífilsfell, nær útsýnið úr Bláfjöllum yfir meirihluta Snæfellsnessfjallgarðsins, en Esjan skyggir á útsýnið af Vífilsfelli. 

Sjónhringurinn er afar víður til annarra átta, upp til fjalla og jöklanna við suðurjaðar Langjökuls og þaðan austur um til Kerlingarfjalla og afrétta Sunnlendinga allt til Heklu, Tindfjallajökuls, Eyjafjallajökuls og út til Vestmannaeyja. 

Ef jörðin væri ekki hnöttótt væri sjónlína frá þessum stað í Bláfjöllum austur til Öræfajökuls. 

Og útsýnið til suðvesturs yfir Reykjanesskaga er afbragð. 

Auðvelt væri að reisa smekklega byggingu þarna með aðstöðu til að njóta útsýnisins frá veitingastað með góðum sjónaukum og útsýnisskifum og leiðin frá núverandi skálum upp er tiltölulega stutt. 

Að sumri til yrði þetta frábær staður fyrir ferðafólk, rétt hjá stórum eldgíg og einstæðum helli. 

En þetta er aðeins hálf sagan, því að náttúruverndargildi þessa svæðis er mjög mikið, að ekki sé nú talað um gildi þess sem mörk dýrmæts vatnsverndarsvæðis fyrir allt höfuðborgarsvæðið, sem ekki verður metið til fjár. 

Hvað, sem þarna verður gert og hvernig sem umferð um svæðið verður háttað, verður því að því að fara að með alveg sérstakri varúð, þar sem ákvæðið um það að náttúran njóti alltaf vafans, verði í hæstu metum.  


mbl.is Vonar að síðasta hindrunin sé að baki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband