Leitun að betra sjónvarpsefni en þessu.

"Ævintýrin enn gerast". Já, hvílíkt sjónvarpsefni að horfa á þennan stórkostlega leik, þar sem veðmálin eru 1 á móti 10 fyrir leikinn, Íslendingum í óhag, og áhorfendafjöldinn 1 á móti 11 á heimavelli Dana, og í æðislegum leik unnu Íslendingar Ólympíu- og heimsmeistara Dana og áttu mann leiksins, Aron Pálmarsson.  

Og úrslitin réðust í aukakasti eftir að leiktíminn var runninn út með því að skot úr aukakasti frá besta handboltamanni heims.  

En sigurinn er ekki síst dramatískur sigur Guðmundar Guðmundssonar eftir að Danir vanþökkuðu þátt hans í því á sínum tíma að leiða Dani til Ólympíusigurs. 

Öll hin fræga vinna hans fyrir leikinn skilaði sér fullkomlega þannig að í öllum leiknum fundu Danir aldrei svar.  

Það er alltaf sætt að vinna Dani, sem við höfum víst spilað við fleiri landsleiki en nokkra aðra þjóð, og má til dæmis nefna 15:10 sigurinn hér heima snemma á áttunda áratug síðustu aldar. 

En það var vináttulandsleikur á heimavelli okkar; þetta var leikur á stórmóti á heimavelli Dana. 

 


mbl.is Stórkostlegur sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gereyðing mannkyns líka fyrir mistök?

Í hinni mögnuðu kvikmynd um doktor Strangelove var varpað ljósi á þá hættu, sem vofði yfir, þegar tæknilega væri hægt að valda ólýsanlegu tjóni með nútíma vopnum. 

1983 stóð rússneskur eftirlitsmaður í herstöð austast í Síberíu frammi fyrir því að nokkrar eldflaugar stefndu hraðbyri frá Bandaríkjunum í átt að Rússlandi.  

Aðeins var um tvennt að ræða:  Að láta yfirstjórnina í Moskvu vita af þessu, - eða - að reikna með því að um bilun væri að ræða í töluvkerfi hinnar rússnesku herstöðvar væri að ræða og sjá til.

Með seinni kostinum var tekin sú áhætta að Bandaríkin fengu með því forskot á Sovétríkin í kjarnorkustríði, en með fyrri kostinum var líka tekin áhætta, að yfirvöld í Moskvu fengju ekki tíma til að taka aðra ákvörðun en að hefja sjálf kjarnorkuárás, heldur yrðu að bregðast við tafarlaust. 

Hinn vakthafandi foringi í rússnesku herstöðinni ákvað að aðhafast ekkert, og til allrar hamingju reyndist sú áhættusama ákvörðun hans sú rétta, - og sú eina rétta. 

En fyrir bragðið var hann rekinn úr stöðu sinni og að hlíta niðurlægingu innan hersins. 

Íraninn, sem nú er sagður hafa verið í þeirri aðstöðu að þurfa að taka ákvörðun af eða á á nokkrum sekúndum, af því að samskiptakerfið var í ólagi, tók þá ákvörðun sem leiddi til hörmulegs dauða 176 saklausra einstaklinga. 

Það er lúaleg afsökun hjá Írönum að kenna spennu af völdum dráps á yfirmanni íranska hersins um að þetta gat átt sér stað. 

En þá er þess að minnast, að hættan á kjarnorkustríði bæði 1983 og í Kúbudeilunni 1962 var líka afsökuð með því að óvenjuheitt væri í kolum Kalda stríðsins.

Í dag hafa kjarnorkuveldin viðbúnað fólginn í vopnakerfum, sem geta eytt lífinu á jörðinni, og mistök, röð af mistökum, eða stigmögnun atburða geta auðveldlega leitt til slíkrar eyðingar. 

Spurningin um slíka gereyðingu á ekki að líðast. Henni verður að svara sem fyrst og afdráttarlausast á þann veg að öryggi lífs á jörðinni sé tryggt, hvað þetta varðar.  

 

 

 

So


mbl.is Segjast hafa skotið vélina óvart niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband